Hljóp á snærið hjá Haukum

Hallur Húni Þorsteinsson í leik með Fylki árið 2022.
Hallur Húni Þorsteinsson í leik með Fylki árið 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlalið Hauka í knattspyrnu hefur fengið tvo uppalda leikmenn til liðs við félagið frá félögum sem leika í Bestu deildinni.

Hallur Húni Þorsteinsson hefur skipt alfarið til Hauka frá Fylki eftir að hafa leikið sem lánsmaður hjá liðinu á síðasta tímabili.

Óliver Steinar Guðmundsson er sömuleiðis genginn í raðir Hauka frá Val.

Hallur er 21 árs bakvörður og Óliver Steinar er 19 ára miðjumaður.

Haukar stórhuga

Hallur Húni á að baki einn leik með Fylki í efstu deild og níu í 1. deild, auk eins leiks í 1. deild fyrir Hauka og tíu í 2. deild á síðasta tímabili.

Óliver Steinar lék einn bikarleik fyrir Val á síðasta tímabili og á einn leik í 2. deild fyrir Hauka. Hann var um skeið á mála hjá Atalanta á Ítalíu.

Haukar eru stórhuga fyrir komandi tímabil en Ian Jeffs var ráðinn þjálfari liðsins fyrir tímabilið eftir að hafa náð góðum árangri með Þrótti úr Reykjavík í tvö ár á undan. Haukar enduðu í 7. sæti 2. deildar í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert