„Ég er spilafíkill“

Auðunn Blöndal eða Auddi eins og hann er kallaður.
Auðunn Blöndal eða Auddi eins og hann er kallaður.

Auðunn Blöndal fjölmiðlamaður er gestur í hlaðvarpi Skoðanabræðra þar sem hann fer yfir ferilinn í fjölmiðlum og sitt persónulega líf. Hann starfar nú við dagskrárgerð á Stöð 2 ásamt því sem hann stýrir einum vinsælasta útvarps- og hlaðvarpsþætti landsins, Blökastinu. Það kveðst hann munu gera þar til honum fer að leiðast það, sem hefur enn ekki gerst.

Talið barst að fjármálum heimilisins og þaðan yfir í forvitnilega innsýn Auðuns í heim spilavítanna.

„Persónulega myndi ég frekar vilja búa í minna húsi og ferðast og gera eitthvað meira í staðinn. Ég vil miklu frekar, eins hallærislegt og það er, fljúga til Vegas og fara í kasínó en að kaupa mér nýjan sófa,“ segir Auðunn í viðtali við Skoðanabræður á hlaðvarpsveitunni Patreon.

Veit af þessu og passar sig

Auðunn kveðst hafa farið „alltof oft“ í spilavíti í Las Vegas og að á tímabili hafi hann vart farið til útlanda án þess að hugsa strax hvar hann fyndi næsta spilavíti. Nú sé hann rólegri, enda búinn að fara nægilega oft til að sjá að þetta er endurtekið efni.

„Menn hafa lýst rúllettunni þannig að það sé eins og að taka kókaín og fá sáðlát á sama tíma,“ segir Bergþór, annar þáttastjórnandinn. 

„Ef talan þín dettur, þá get ég tengt við það,“ segir Auðunn og játar að hann sé spilafíkill. 

„Ég er spilafíkill. Ég er „basically“ alkóhólisti og ég er tóbaksfíkill. En einhvern veginn er eitthvað í hausnum á mér sem veit af því og passar það. Ég er með einhvern stoppara. Sem gott dæmi er ég að setja það sama undir í „blackjack“ í dag og ég var að gera fyrir tíu árum. Ég er ekki að fara að kaupa mér eitthvað geggjað þegar ég kem heim eða neitt þannig, mér finnst bara gaman að spila og vera með vinum mínum,“ segir Auðunn.

Ákveður hve miklu hann eyðir

Þannig segir Auðunn afa sinn ekki hafa haft sama  stoppara, hvorki þegar kom að áfengi né spilafíkn og að það hafi haft slæmar afleiðingar. Auðunn veltir þessum málum vel fyrir sér í sambandi við það hvernig fyrirmynd hann vill vera.

„Gamli ég hefði bara rætt hvað það væri gaman í spilavítum og verið fokk sama. En nú reyni ég alltaf að impra á því bæði í Blökastinu og FM95Blö að þegar við förum í kasínó þá er ég búinn að ákveða hverju ég ætla að eyða. Það eru kannski tvítugir tappar sem eru að hlusta á mann sem langar svo bara að fara þarna og eyða pening sem þeir hafa ekki efni á. Ég vil ekki hafa það á minni samvisku,“ segir Auðunn.

Hann viðurkennir þó að einstaka sinnum hafi það brugðist og hann æpt á Steinda inni á spilavíti að hægt sé að fjármagna eina lotu enn með svo litlu sem einu giggi, en þeir félagar stunda veislustjórnun í miklum mæli.

Skítafréttir hér og þar

Gustað hefur um Auðun á löngum ferli í fjölmiðlum en hann kveðst í seinni tíð síður viðkvæmur fyrir misjafnri umfjöllun um sig og sína samstarfsmenn, enda sé hann núna upptekinn af því að vera með fjölskyldu sinni en ekki við að grafa upp neikvæð ummæli á netinu.

„Það kemur alltaf upp smá stress en maður veit í dag að ef það kemur einhver frétt um þig sem er ótrúlega ómerkileg og fer í taugarnar á þér, þá líður þér, af því að þú ert að hugsa um hana allan daginn, eins og allir í kringum þig og allt þjóðfélagið, sem er fokk sama um þig, sé að hugsa: „Ó, þetta er ekki nógu gott.“ En svo ef ég tek sjálfan mig og tek frétt sem ég les um einhvern og hugsa: „Æ æ, þetta var nú skítafrétt um hann.“ Svo er það bara búið. Svo næst þegar ég hitti hann, þá er ég ekkert að hugsa: „Heyrðu úff fréttin þarna um daginn.“ Þetta bara skiptir engu máli,“ segir Auðunn.

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarspvef mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál