Getur tálmun haft alvarleg áhrif á börn?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá sál­fræðistof­unni Sál­ar­líf svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá manni sem segist hafa orðið fyrir tálmun. 

Komdu sæl.

Barnsmóðir mín hefur nú tálmað mig í einn og hálfan mánuð? Mig langar að vita áhrif langtíma tálmunar, þá sálfræðilega séð. Börnin mín eru 8 og 10 ára og ég elska þau út af lífinu og hef miklar áhyggjur. Ég er mjög góður faðir og þetta allt saman særir mig svo mikið og ég er alltaf að hugsa um hvernig börnunum mínum líður og hvort hún sé sálfræðilega að snúa þeim gegn mér. Barnsmóðir á nefnilega langa sögu um andlegt ofbeldi og lygar.

Mbkv, G

Faðir leitar ráða hjá Tinnu Rut vegna tálmunar.
Faðir leitar ráða hjá Tinnu Rut vegna tálmunar. Jed Owen/Unsplash

Sæll.

Takk fyrir að hafa samband.

Mjög leitt að heyra hvernig staða er. Jú, það er sem svo að tálmun getur haft mikil áhrif á líðan barna. En rannsóknir hafa leitt í ljós að börn sem hafa upplifað foreldraútilokun á einn eða annan hátt eru í aukinni hættu á að glíma við tilfinningalega erfiðleika og eiga jafnframt erfiðara með að aðlagast nýju umhverfi (Johnston, Walters og Olesen, 2005; Fidler og Bala, 2010). Það foreldri sem beitir tálmun gerir sér ekki alltaf grein fyrir því hvaða áhrif það gæti haft á líðan barnsins og því er það mikilvægt að gripið sé inn í sem fyrst. Einnig hafa rannsóknir sýnt að fullorðið fólk sem upplifðu foreldraútilokun sem börn voru líklegri til þróa með sér ýmsa andlega kvilla og voru einnig líklegri til að glíma við aukna áfengisneyslu á fullorðinsárum (Baker, 2005). 

Ég myndi hvetja þig til að leita til sýslumanns, ræða stöðuna og komast að því hvaða lagalega rétt þú átt. En börn eiga rétt á að umgangast báða foreldra sína. En á vef stjórnarráðsins (Stjórnarráðið | Umgengni og umgengnisréttur (stjornarradid.is) kemur fram að „Þegar foreldrar barns búa ekki saman á barnið rétt á umgengni við það foreldra sinna sem það býr ekki hjá. Umgengni snýst um samveru og önnur persónuleg samskipti barns við foreldri. Báðum foreldrum er skylt að sjá til þess að barn njóti umgengni við foreldrið sem það býr ekki hjá“. Einnig getur þú leitað til barnaverndar og lýst áhyggjum þínum yfir ástandinu. Þá er mjög mikilvægt að þú hugir vel að þinni líðan, því eins og þú lýsir þá hefur þú eðlilega miklar áhyggjur og upplifir vanlíðan yfir ástandinu. Væri ef til vill gott fyrir þig að leita til sálfræðings, ræða þína líðan og fá viðeigandi sálrænan stuðning til þess að takast á við þessar erfiðu aðstæður.

Gangi þér sem allra best og vonandi fer þetta allt saman á hinn besta veg.

Kveðja,

Tinna Rut sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál