c

Pistlar:

11. apríl 2024 kl. 17:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Evrópska flóttamannavirkið

Á nánast hverjum einasta degi ársins koma bátar hlaðnir flóttamönnum upp að ströndum Evrópu. Upp úr bátunum stekkur fólk, stundum innan um sólbaðsdýrkendur og reynir að hlaupa í felur. Sumum tekst það, öðrum ekki. Ekki komast allir bátarnir að strönd og Atlantshafið og sérstaklega Miðjarðarhafið verða vot gröf margra flóttamanna sem flestir koma frá Afríku. Þetta er fátækt fólk sem hefur lagt í langferð í von um betri framtíð enda stjórnarfar oft herfilegt heima fyrir. En á leiðinni verður fólkið að fórnarlömbum glæpamanna sem ræna það og selja stundum í þrældóm.flotta3

Norðrið er áfangastaðurinn og flóttamenn flæða yfir til gömlu Evrópu. Nú hefur hún ákveðið að grípa til varnar en í gær samþykkti Evrópuþingið að reisa það sem sumir kalla virki um álfuna. Þingið samþykkti löggjöf sem í senn er ætlað að samræma móttökur flóttamanna og um leið ná einhverri stjórn á aðstreymi þeirra. Þetta mun líklega helst nýtast löndum eins og Ítalíu og Grikklandi, sem eru ásamt Spáni, vinsælustu fyrsti áfangastaður flóttamanna. Hinn gríski ráðherra málefna flóttamanna sagði þetta sögulegan dag. Ítalskir stjórnmálamenn kepptust við segja þetta mikilvægt skref og stjórnvöld flestra þeirra landa sem glíma við verstu afleiðingar innstreymisins að sunnan anda léttar, um sinn.

Austur-Evrópska aðferðin

En það þýðir ekki að Evrópa sé sameinuð í þessu máli. Austur-Evrópu löndin hafa reyndar fyrir löngu stimplað sig út úr sameiginlegum aðgerðum og taka ekki við flóttamönnum frá Miðausturlöndum og Afríku. Skiptir engu þó hin „siðmenntaðri“ lönd Evrópusambandsins hamist á þeim. Stundum þarf líka að skilja söguna. Það er ekkert svo langt síðan sum lönd þar fyrir austan börðust við heri Ottómanveldisins sem drottnaði yfir þessum heimshluta í 600 ár og var með naumindum stöðvaður við virkismúra Vínar árið 1523 og aftur þremur árum síðar. Sambýlið við múslímska minnihluta í sumum löndum svæðisins, eins og Búlgaríu og Bosníu, hefur verið róstusamt og stundum soðið uppúr með hörmulegum afleiðingum. Ástandið í Kósovó með skiptu landi milli trúarhópa er viðkvæmt.flotta

En þegar á reyndi varðandi flóttamenn frá nágranaríkinu Úkraínu stóðu þessi lönd Austur-Evrópu sína vakt. Meira að segja Ungverjaland að hluta til. Í nóvember síðastliðnum höfðu um 5,8 milljónir flóttamanna frá Úkraínu farið inn í Ungverjaland. Meirihlutinn, 3,8 milljónir, kom í gegnum landamærin að Úkraínu og hinar tvær milljónirnar komu í gegnum landamæri Ungverjalands og Rúmeníu. Þar á meðal sóttu um 40 þúsund manns um tímabundna vernd í Ungverjalandi. Pólverjar hafa tekið við einni milljón flóttamanna frá Úkraínu.

Eru Rúanda og Albanía lausnin?

En lausnir landanna eru ólíkar. Íhaldsstjórn búddistans Risni Sunak í Bretlandi heldur fast við fyrirætlanir sínar um að senda hælisleitendur til Rúanda og Paul Kagame, forseti Rúanda, var einmitt í heimsókn hjá Sunak í vikunni til að ræða nánari útfærslu þess. Í Albaníu er verið að breyta tveimur herbækistöðvum í móttökustöðvar fyrir flóttamenn. Ítölsk stjórnvöld fjármagna framkvæmdina og hyggjast hafa yfirumsjón með starfseminni þó að ýmsir andstæðingar aðgerðanna haldi því fram að með því brjóti ítölsk stjórnvöld lög. Ítalskur almenningur er að missa þolinmæði fyrir gríðarlegum fjölda hælisleitenda sem fyllir garða og torg ítalskra borgara. Ítalskir samfélagsmiðlar eru fullir af sögum um áreitni gagnvart konum af hendi ungra karla úr hópi hælisleitenda. Spennan hleðst upp og forsætisráðherrann, Giorgia Meloni, lofar breytingum.flotta2

Árið 2015 voru 1,83 milljónir ólöglegra innflytjenda á ytri landamærum ESB en straumurinn vegna Sýrlandsstríðsins var þá í hámarki. Þó að þessi tala hafi lækkað í um 330.000 árið 2022 er streymið enn gríðarlegt. Nú í október 2023 sóttu 114.830 hælisumsækjendur í fyrsta skipti (borgarar utan ESB) um alþjóðlega vernd í ESB, það er 17% aukning miðað við október 2022 (97.980). Þetta eru tölur frá Eurostat og því er Bretland utan þessara talna. Þeir sem voru að sækja um í annað sinn voru 6.225, heldur færri en árið á undan. Í október 2023 sóttu 5.040 fylgdarlaus börn um hæli í fyrsta skipti í ESB, flesti frá Sýrlandi (1.975) og Afganistan (1.150). Flest fóru til Þýskalands (1.635) og Hollands (950).

En fjöldi innflytjenda er ekki eina vandamálið. Mikið af þessu fólki er algerlega ómenntað og hefur í raun sáralitla færni fram að færa, sérstaklega þeir sem koma frá Afríku. Þá eru margir illa farnir andlega en heilbrigðiskerfi móttökulandanna fullkomlega vanmáttug til að sinna því. Mikið af fólkinu er því dæmt til að annað hvort hýrast í afmörkuðum búðum eða láta fyrirberast á götum úti í von um að geta aflað sér lífsviðurfæris með betli eða íhlaupastörfum. Þetta fólk uppfyllir ekki þarfir atvinnulífsins á nokkurn hátt og eykur á félagslegan ójöfnuð landanna.