„Hátíðin býður upp á mikla möguleika fyrir hönnuði“

Auður Gná Ingvarsdóttir listrænn stjórnandi Rammagerðarinnar segir frá fjórum sýningum …
Auður Gná Ingvarsdóttir listrænn stjórnandi Rammagerðarinnar segir frá fjórum sýningum sem fram fara á HönnunarMars. mbl.is/Ásdís

Í dag verður nýtt samstafsverkefni Rammagerðarinnar og 66°Norður kynnt til leiks við Laugaveg 31 eða þar sem Kirkjuhúsið var áður til húsa. Hulunni verður svipt af verkefninu í dag klukkan 18.00 í tengslum við HönnunarMars sem opnar formlega í dag. Verkefnið Lopi Fur inniheldur bakpoka, snyrtitösku og loðhúfu og koma vörurnar í takmörkuðu upplagi. 

Vörurnar eru unnar úr 100% Lopi fur frá Ístex, sem er ólituð ofin íslensk ull með bómullar undirlagi. Efnið líkist feldi og því er ráðlagt að hugsa vel um hana og greiða hárin með breiðum kambi.

„Okkur fannst tilvalið að nota verðandi húsnæði Rammagerðarinnar á Laugavegi til að hýsa þessar fjórar áhugaverður sýningar og ákváðum að nota tækifærið og nota húsið undir sýningahald og leyfa gestum að koma inn í þetta fallega rými sem verður von bráðar opnað í glæsilegu formi eftir miklar endurbætur. Á þessum fjórum sýningum verða kynntar nýjar vörur og vörulínur og það verður mjög ólík nálgun á hverjum viðburði,“ segir Auður Gná Ingvarsdóttir listrænn stjórnandi Rammagerðarinnar. 

Svona lítur húfan út í samstarfsverkefninu Lopi Fur en línan …
Svona lítur húfan út í samstarfsverkefninu Lopi Fur en línan inniheldur líka bakpoka og snyrtitösku.

Hún segir að  Rammagerðin og 66°Norður eigi mikla sögu hvort um sig sem tengist íslensku handverki þótt ólíkt sé svo ekki sé talað um hönnun í seinni tíð. 

„Hugmyndin var búin að vera í einhvern tíma í umræðunni, en ákveðið var að fara af stað og þróa línu fylgihluta eftir að hafa skoðað ullarefni sem Ístex hefur þróað á undanförnum misserum. Okkur fannst það tilvalið að tengja fyrirtækin saman á þennan hátt, vinna með nýja nálgun á íslensku ullinni og færa hana í vörur sem hönnuðir 66°Norður þróuðu og nýttu alla þá þekkingu sem þeir búa yfir varðandi tæknileg efni. Þannig náðu þessi tvö fyrirtæki að blanda sínum áherslum saman á mjög skemmtilegan hátt. Sýning Lopa fur vörulínunnar heitir Arctic Summer og ætlunin er að búa til íslenska strandarstemmningu á fyrstu hæð húsnæðis Rammagerðarinnar,“ segir hún. 

Auður Gná nefnir sýningu frá fyrirtækinu Petit art prints, en það hefur sérhæft sig í fjölfeldum tengdum frumverkum íslenskra samtíma listamanna, sem prentuð eru á pappír.

„Á sýningunni Bergmál verður aftur á móti kynnt annars konar fjölfeldi sem prjónað er í prjónaverksmiðju Varma eftir frumverki Hönnu Dísar Whitehead. Þetta verða því fyrstu fjölfeldis prjónaverkefnin sem vitað er til að verði framleidd og eru auk þess úr íslenskri ull.  Svo er það sýningin Speglun sem teflir saman tveimur handverksmönnum í gegnum einn og sama hlutinn. 

Sýningin „Bergmál“ er tilraun þar sem upprunaleg listaverk eiga í …
Sýningin „Bergmál“ er tilraun þar sem upprunaleg listaverk eiga í samtali við endurgerð sína, en sýningin er samstarfsverkefni PETIT ARTPRINTS og Rammagerðarinnar.

Aldís og Davíð Georg hönnuðu fyrir nokkru ilmker sem er handrennt keramik og ákveðið var að leita til Anders hjá Reykjavík Glass og fá hann til að búa til sama hlutinn en úr munnblásnu gleri. Í tengslum við ilmkerið, sem unnið var í samvinnu við Rammagerðina, hefur arkitektinn Davíð Georg hannað ilmupplifun, þar sem ilmkerið er orðið eins og hver annar sýningargripur og auk þess bætist við upplifunina ilmir þróaðir af Fischersund sérstaklega fyrir þessa tilteknu vöru,“ segir Auður Gná. 

Gagnvirkar verndarverur er síðan þriðja sýningin og hún er á vegum Saga Kakala og þar er verið að kynna nýja línu af silkislæðum sem eru að þessu sinni hannaðar af Maríu Guðjohnsen, en hver ný lína sem framleidd hefur verið frá Saga Kakala er tengd einum tilteknum hönnuði, listamanni eða arkitekt. 

Spurð um mikilvægi Hönnunarmars fyrir íslenska hönnuði segir Auður Gná hann vera tækifæri til að koma íslenskri hönnun nær áhugafólki í gegnum sýningar hönnuða. 

„Hátíðin býður upp á mikla möguleika fyrir hönnuði að kynna sínar vörur og hugmyndafræði og opna á samtal varðandi mikilvægi hönnunar og skapandi hugsunar. Þetta er frábær hátíð sem grípur svo vel tíðarandann og er bara almennt mjög skemmtileg afþreying sem allir ættu að kynna sér,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál