Ágústa rifjar upp gamla tíma og minnist Jónínu með hlýhug

Ágústa Johnson og Jónína Benediktsdóttir unnu saman á árunum 1986-1988. …
Ágústa Johnson og Jónína Benediktsdóttir unnu saman á árunum 1986-1988. Ágústa segist hafa lært margt af Jónínu.

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar hefur verið í heilsuræktargeiranum í 36 ár. Á þeim tíma hefur hún horft upp á margar bylgjur og er í dag reynslunni ríkari. Hún steig sín fyrstu skref með Jónínu Benediktsdóttur heitinni og segist hafa lært margt af henni og eigi henni mikið að þakka. 

Þegar þú horfir til baka. Hvað hefur breyst í líkamsræktarheiminum frá 1989?

„Það hefur aldeilis mikið breyst, í raun flest. Í dag er mun meiri fagmennska, fjölbreytni og valkostir margfalt fleiri og á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem stunda líkamsrækt margfaldast, sem er það besta. En það sem mér finnst skemmtilegast er að þolfimitímarnir, þar sem þetta allt hófst hjá mér, hafa vissulega þróast í gegnum áratugina, en eru þó í grunninn eins, það er að segja æfingar í hóp með tónlist, og hafa aldrei verið vinsælli en í dag. Maður er manns gaman, það mun vonandi aldrei breytast,“ segir Ágústa og rifjar það upp að á þessum tíma hafi kúnnahópurinn verið fjölbreyttur. Konur og karlar á öllum aldri sem sóttu í hóptíma með tónlist þar sem fjörið var í forgrunni. 

Hvaða æfingar voru vinsælastar þegar þú varst að byrja?
„Til dæmis Púltímar og Fitubrennsla svo eitthvað sé nefnt. Fyrstu árin einkenndust æfingarnar mikið af hoppi, hröðum einföldum sporum og hamagangi, enda var þetta kallað Aerobics og gekk út á að hækka hjartsláttinn og vera dálítið móður í um það bil klukkustund. Magi, rass og læri kom síðan einnig sterkt inn og voru rólegri tímar með hefðbundnari leikfimisæfingum með áherslu á umrædda líkamsparta.“

Manstu hvað fólk var aðallega að borða á þessum tíma?

„Var það ekki einmitt á 9. áratugnum þegar heilbrigðisyfirvöld hvöttu fólk til að sniðganga fitu sem mest og sykurinn þótti betri fyrir okkur en fitan,“ spyr Ágústa. 

Þegar myndir frá níunda áratugnum eru skoðaðar kemur í ljós að fólk var oftar en ekki í ógurlega fallegum leikfimisgöllum. Ágústa upplýsir hvaðan þessir gallar komu. 

„Það var auðvitað aðal málið að ferðast til Bandaríkjanna til að kaupa flottustu gallana sem voru litríkir, skrautlegir og efnislitlir,“ segir hún og hlær. 

Hér er Ágústa fyrir miðju í sérlega glæsilegum leikfimisgalla.
Hér er Ágústa fyrir miðju í sérlega glæsilegum leikfimisgalla.

Hvað finnst þér þú hafa lært á þessum tíma?

„Hef lært frá fyrstu mínútu og er enn að læra. Eitt af því sem stendur upp úr eftir 36 ár í heilsuræktargeiranum er að góð heilsa fæst með heildrænum lausnum án öfga og jafnvægi er lykillinn. Maður kemst jú upp með ýmislegt þegar maður er ungur en með aldrinum þurfum við að hlusta meira á líkamann og bregðast við.“

Ágústa starfaði með Jónínu Benediksdóttur heitinni í tvö ár eða frá 1986 til 1988. Hún minnist hennar með hlýju og segist hafa lært mikið af henni en Jónína féll frá í lok árs 2020. 

„Hún var kraftmikill frumkvöðull og afskaplega hugmyndarík og dugleg. Hún kenndi mér margt á þessum tíma enda var ég nýskriðin úr skóla, rúmlega tvítug en hún nokkuð lífsreyndari. Ég sé ekki fyrir mér að ég hefði getað stofnað fyrirtæki og komið öllu á laggirnar án hennar og ég verð henni ævinlega þakklát.“

Hvað hefðir þú viljað vita á þessum tíma sem þú veist í dag?

„Það er ekki gott að segja, kannski ekkert. Líklega hefði það breytt einhverju ef ég hefði getað séð inn í framtíðina. En ég sakna einskis, þetta hefur verið stór skemmtileg vegferð í gegnum áratugina, mis stór skref tekin fram á við, oft lært af mistökum stórum og smáum, en gaman í vinnunni hvern einasta dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál