„Hrein bilun að gefa ómálga barni ís“

Sigrún Þorsteinsdóttir segir að börnin læri það sem fyrir þeim …
Sigrún Þorsteinsdóttir segir að börnin læri það sem fyrir þeim er haft. Ef foreldrarnir borði aldrei grænmeti er ekki hægt að ætlast til þess að börnin geri það. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sigrún Þorsteinsdóttir, klínískur sálfræðingur og umsjónarmaður vefsíðunnar Café Sigrún, hefur ekki borðað sykur í fjöldamörg ár. Að hennar mati er auðvelt að fá börn til að borða hollan og staðgóðan mat, sér í lagi ef þau eru vanin við það frá unga aldri. 

„Hlutverk okkar foreldra er auðvitað mjög stórt. Ef börn venjast hefðbundnum heimatilbúnum mat eru færri kvartanir en ef þau venjast skyndibita oft í viku og eiga svo skyndilega að fara að borða fjölbreyttan og hollan heimilismat síðar meir. Svo er mikilvægt að muna að börn þurfa að smakka mat 10 til 15 sinnum til að vita hvort bragðið er þeim að skapi. Eitt skipti er ekki nóg til að segja oj,“ segir Sigrún, en hvað ráðleggur hún foreldrum sem vilja fá börnin sín til að borða heilnæma fæðu?

„Að múta þeim aldrei til að borða hollt, aldrei lofa þeim verðlaunum fyrir og ekki beita þau þrýstingi. Það má heldur ekki lofa þeim einhverju sætu ef þau borða grænmetið, því þá læra þau að grænmetið sé síðri kostur. Þessar aðferðir hafa þveröfug áhrif á börnin og geta orsakað raskaðar matarvenjur,“ segir Sigrún og bætir við að foreldrar séu mikilvægasta fyrirmyndin þegar kemur að hollu mataræði.

„Ef börnin sjá foreldrana aldrei borða grænmeti er ekki hægt að ætlast til þess að þau borði það. Að sjálfsögðu er allt í lagi að gera stundum vel við sig, en gott er að spyrja hvernig venjur okkar í kringum mat eru almennt,“ segir Sigrún sem sjálf gaf börnum sínum ekki sælgæti fyrr en þau voru nógu gömul til að biðja um það.

„Að mínu mati er hrein bilun að gefa ómálga barni ís ef það veit ekki einu sinni hvað það er. Það má gera vel við krílin án þess að gefa þeim sætu og ef sæta er í boði ætti að halda sykrinum í lágmarki. Einnig skal hafa í huga að börn undir eins árs ættu ekki að borða hunang,“ segir Sigrún og bætir við að stundum þurfi að hnykla brúnir við aðra fjölskyldumeðlimi og setja skýrar reglur.

„Einna mikilvægast er að gefa börnum almennt hollan mat, en ávextir eru yfirleitt fullir af hollustu og sætir í þokkabót. Flest börn vilja ávexti, en ef sælgæti er oftar á borðum en ávextir er auðvelt að geta sér til um hvað þau velja frekar. Sykurinn leynist einnig ótrúlega víða, til dæmis í kexi, sykruðum mjólkurdrykkjum, morgunkorni, orkustöngum og svaladrykkjum. Það er ekkert að því að neyta sykurs og sælgætis í hófi, en sykurmagnið er fljótt að koma þegar allt er talið saman.“

Þegar Sigrún er spurð hvað sé hentugt að gefa ungum börnum þegar kynna á þau fyrir fastri fæðu í fyrsta sinn segir hún að hirsi- eða hrísgrautar bættir með svolitlu smjöri, móðurmjólk eða þurrmjólk séu tilvaldir sem fyrsta fasta máltíð barnsins. Þá sé gott gefa börnum ekki of sæta grauta svo þau venjist ekki slíku bragði.

„Það má einnig bæta út í vel maukaðri lárperu, svo mega rófur, sætar kartöflur, blómkál og spergilkál einnig fara út í. Ef barn venst til dæmis eingöngu á banana eða mangó sem fyrstu máltíðir er erfiðara að venja börnin á hlutlausara bragð síðar,“ segir Sigrún.

„Ef ofnæmi er ekki til staðar geta börn í kringum níu mánaða borðað nánast alla fæðu sem búin er til á heimilinu, svo lengi sem maturinn er vel stappaður með ofurlitlum kjöt- eða fiskbitum. Passa þarf upp á stærð bitanna svo ekki stafi af þeim köfnunarhætta, en til að byrja með er gott er að miða við nögl á vísifingri barnsins. Það er gott að venja börnin á heimilisbragðið í stað þess að gefa þeim mikið af krukkumat eða skvísum þar sem börnin geta kreist matinn upp í sig. Fyrir það fyrsta er þetta yfirleitt sætt og í öðru lagi er aldrei heimilisbragð af maukinu. Það er allt í lagi að grípa í þessa poka ef maður er á hraðferð, en almennt ættu börn ekki að borða annað en heimilismatinn. Einnig ber að hafa í huga að pokarnir innihalda mauk, en ekki stappaðan mat, svo börnin venjast ekki á að þjálfa vöðvana í kjálkunum við að tyggja ,“ bætir Sigrún við.

„Þegar matur er útbúinn fyrir fjölskylduna er gott að taka hluta hans frá áður en hann er saltaður eða kryddaður. Fyrir tveggja ára aldurinn þurfa börnin einnig meiri fitu, svo hugsanlega þarf að bæta smjöri eða olíu út í fyrir þau yngri. Þá er mjög gott að þjálfa fínhreyfingar í litlu fingrunum og leyfa börnunum að tína upp í sig hálfar nýrnabaunir, gufusoðið og niðurskorið grænmeti, kartöflubita, pastaskrúfur og fleira gott,“ segir Sigrún og bætir við að ráðleggingarnar að ofan eigi við börn sem ekki eiga í neinum vandkvæðum við að kyngja mat, eru ekki með ofnæmi og ekki viðkvæm fyrir áferð eða bragði sökum einhvers konar raskana.

Hollt og gott í nestisboxið

Sigrún segir að heimili hennar minni gjarnan á lítið mötuneyti, þar sem nánast allt sé eldað frá grunni. Hún þvertekur þó fyrir að fyrirhöfnin sé mikil, sér í lagi ef skipulagið er gott.

„Ég útbý nestið á kvöldin fyrir heimilismeðlimina fjóra, en annað sker ég niður að morgni áður en við förum út úr húsi. Við vöknum snemma svo við höfum nægan tíma til þess að fá okkur staðgóðan morgunmat, því það er mér gríðarlega mikilvægt að við náum þessari stund saman. Börnin fá mat í skólanum, en ávexti og grænmeti að heiman. Ég útbý þó oft nesti þegar við förum í stuttar göngu- eða hjólaferðir. Þá hef ég ósaltaðar hnetur og þurrkaða ávexti til að maula, sem ekki er alltaf hægt að hafa í skólum sökum ofnæmis. Sólkjarnabrauð með hreinu hnetusmjöri eða pestói, gróft brauð með smjöri, osti og grænmeti og vefjur með hummus og grænmeti rata líka oft í boxið, sem og heimatilbúnar orkustangir. Ef ég er með kæliaðstöðu er grísk jógúrt eða AB-mjólk með svolitlu af múslí án viðbætts sykurs mjög góður kostur. Það eru einnig alltaf niðurskornir ávextir og grænmeti með í för, en tilbúnar orkustangir eða sælgætisstangir fara aldrei í nestisboxið. Sömuleiðis ekki safi og sykraðir mjólkurdrykkir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál