Mælir frekar með því að flytja utan en að giftast

Mexíkó er í miklu uppáhaldi hjá Heiðu en á myndinni …
Mexíkó er í miklu uppáhaldi hjá Heiðu en á myndinni er hún í Mexíkóborg. Ljósmynd/Aðsend

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir rithöfundur segir spænskunám hafa haft gríðarlega mikið áhrif á sig en hún hefur dvalið töluvert í Suður-Ameríku. Grunnnámið í hagfræðinni var ekki jafngefandi að hennar mati.

Hvaða nám ertu ánægðust með að hafa farið í?

„Snemma á lífsleiðinni gerði ég mér grein fyrir að ég væri gædd þeim eiginleika að hafa áhuga á mjög mörgu, sem hefur gert mér erfitt fyrir í því að einbeita mér að einhverju einu. Á endanum held ég því líklegast ekki-útskriftar-veislu fyrir allar ómetnu háskólaeiningarnar sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Þegar ég var í BA í hagfræði tók ég til dæmis námskeið í sænsku, spænsku, heimspeki og aukafag í sagnfræði en mér fannst hagfræðinámið líka alltaf frekar einsleitt. Seinna safnaði ég mér einingum í tungumálum og listgreinum úr háskólum bæði í Mexíkó og Argentínu en síðastliðið haust fór ég í skiptinám úr MA-námi í ritlist við Háskóla Íslands til Buenos Aires. Spænska tungumálið er líklegast það fag sem hefur gert líf mitt hve áhugaverðast og er ég því er mjög þakklát fyrir allt nám sem hefur leitt mig áfram í þeirri ævintýraför sem tungumálanám er. Af öllu sem ég geri finnst mér þó langskemmtilegast að skrifa og er því ánægðust með að hafa farið í ritlist í Háskóla Íslands (sem ég útskrifast vonandi úr bráðum). Ólíkt hagfræðinni er það nám mjög praktískt fyrir fólk sem vill dýpka tengsl sín við skáldskapargyðjuna og rýra tekjumöguleika sína í leiðinni. Í draumaheimi, þar sem daglegt líf snýst ekki um að greiða fyrir símyglandi steinsteypu, dren og framtíðaröryggisráðstafanir, held ég að mun fleiri gætu – og myndu vilja sækja sér hvers konar listnám.“

Heiða er rithöfundur og útskrifast fljótlega úr ritlist.
Heiða er rithöfundur og útskrifast fljótlega úr ritlist. Ljósmynd/Júlíana Ósk Hafberg

Hefur þú lært mest af formlegu námi eða er eitthvað annað sem hefur haft meiri áhrif á þig?

„Ég hef alltaf verið ótrúlega veik fyrir Rómönsku-Ameríku sem hefur bæði leitt mig af stað í ævintýri og ógöngur. Fyrsta ævintýrið fór fram í Mexíkóborg, þangað sem nítján ára ég flutti og vann í sjálfboðastarfi í tæpt ár. Þar þræddi ég stræti og torg borgarinnar, lærði spænsku og kynntist ógrynni af frábæru fólki, svo bætti ég við mig um tíu kílóum af chili og maís í leiðinni. Auk þess hef ég stundað skiptinám bæði í Svíþjóð og Argentínu en á þessum dvölum erlendis lærði ég svo miklu meira en ég hef gert í formlegu námi. Það hefur reynst mér bæði erfitt og æðislegt að flytja ein til útlanda, skola af alla þá merkimiða sem Íslendingar eiga til að líma á náungann og læra að treysta á mig sjálfa. Til lengdar er þó þreytandi að pæla í sjálfinu og jafnvel lífsnauðsynlegt að sleppa tökunum við og við undir seiðandi tónum í suðrænum stórborgum. Núna gæti ég ekki fúnkerað án menningar Rómönsku-Ameríku, tónlistarinnar, bókmenntanna og mexíkóskrar matargerðar en Svíþjóð togar minna í mig, þó svo að ég neyðist stundum til þess að heimsækja þá upp í IKEA. Helst myndi ég vilja eiga lítinn hlera í forstofunni hjá mér sem leiddi mig beint til Rómönsku-Ameríku. Ég myndi byrja daginn á maísbökum og mangó í Mexíkó og enda kvöldin á dansgólfi í Buenos Aires (og þefa uppi Lionel Messí auðvitað). En á meðan ég er ekki með svona hlera þarf ég að láta bækur og bíó duga.“

Heiða fagnaði vel þegar Argentína vann HM
Heiða fagnaði vel þegar Argentína vann HM

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Á kvöldin ákveð ég iðulega að byrja dagana mína á heimagerðu granóla og grísku jógúrti. Á morgnana er þó sem allt sé gleymt og ég fæ mér kannski hádegismat eftir sjöunda kaffibollann. Langar samt að byrja morgundaginn á granóla.“

Hvað gerirðu til þess að slaka á?

„Ég fór stundum í Jógastúdíó í Ánanaustum en eftir því var lokað eins og flestum öðrum litlum líkamsræktarstöðvum í Reykjavík flutti ég á Bifröst og reyni að fara í göngutúra. Ég fer oftast upp á Grábrók og kíki við hjá spóanum í rjóðrinu og refunum sem búa í holu fyrir neðan tindinn. Um daginn rakst ég á hryggsúlu af lambi fyrir utan holuna og er smá stressuð um að bóndinn láti skjóta refina. Dindillinn var enn á. Það er samt slakandi að fara í göngutúr úti í náttúrunni en svo elska ég líka að lesa og skrifa til að róa hugann.“

Hvaða borg er í uppáhaldi?

„Ég elska Reykjavík af lífi og sál en Mexíkóborg á hjarta mitt. Það getur reynst huganum erfitt að geyma líkamsparta í ólíkum póstnúmerum en ég er stöðugt að reyna að lifa með því. Í Mexíkóborg geng ég út í daginn í fullkominni óvissu, hitti kannski lemúr á leiðinni í morgungöngu sem var ferjaður innan í klósettpappírsrúllu frá Madagaskar og heyri söngl í marglitum fuglum og sölumönnunum í neðanjarðarlestinni. Litrófið er sem frá annarri plánetu og bragðlaukarnir verða að mest áreitta skynfærinu. Í Reykjavík finnst mér lífsspekin byggjast fremur á vissu (og verðbólgu og stýrivaxtahækkunum auðvitað) en þar veit ég að ég á alltaf vini og fjölskyldu, samastað í föðmum og menningu með hafið í öruggu sjónmáli. En vissan getur bæði verið böl og blessun og þarf ég til dæmis stöðugt að minna mig á að eyða ekki of miklum tíma og fjármagni í framtíðarvissu. Þess vegna þykir mér ágætt að hafa vanið mig á ögn af óvissuþrá á ferðalögum mínum. Ég reyni að minna mig á að halda út í dagana með hjartanu, prufa að flytja hingað og þangað eða giftast hinum og þessum. Svo þarf ég að setja „reminder“ á símann minn til að minna mig á að það er alltaf allt í lagi að flytja til baka, skipta um skoðun á miðri leið – skilja ef út í það er farið. Mæli samt frekar með að prufa að flytja eitthvað en að giftast (þrátt fyrir að hagkerfið okkar sé hannað fyrir pör en ekki einstaklinga).“

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

„Ég bý yfir svo miklu gullfiskaminni að mér finnst iðulega bækurnar sem ég er nýbúin að lesa frábærastar og bestar. Nýverið las ég bókina Hús úr húsi eftir Kristínu Marju Baldursdóttur sem fjallar um einhleypa konu á mínum aldri í miðbæ Reykjavíkur á tíunda áratugnum. Þó svo að líf mitt og aðalpersónunnar í bókinni sé ólíkt áttum við margt sameiginlegt og að lestri loknum fattaði ég hvernig væri vænlegast að lifa lífinu.“

Hvaða hlaðvarp ertu að hlusta á?

„Seinast hlustaði ég á hlaðvarpið Dipsea sem framleiðir leikna erótíska þætti sem eru sérstaklega hannaðir til þess að kveikja í kvenkyns hlustendum. Framleiðendurnir gefa sig út fyrir að stuðla að kynferðislegri vellíðan sem þau gera klárlega að mínu mati. Mér finnst almennt að höfundar, sérstaklega höfundar sem eru ekki karlkyns, ættu að skrifa meira af erótík í bækur, bíómyndir og jafnvel blöð og hlaðvörp. Það gæti virkað sem öflugt mótvægi við klámvæðingunni og feðraveldinu. Ég ætla allavega að halda áfram að gera það.“

En hvað ertu að horfa á?

„Mér hefur ekki tekist vel til að sitja fyrir framan sjónvarpið í sumar þrátt fyrir fjölda tilrauna. Ég ákvað samt að horfa á Fleabag í þriðja skiptið vegna þess að það eru bestu þættir sem hafa nokkurn tímann verið gerðir. En það er auðvitað bara mín skoðun.“

Hvaða hlutur er ómissandi?

„Ég væri mjög til í að lifa þannig lífi að enginn hlutur væri mér ómissandi en ef ég lít á staðreyndir málsins er ég líklegast háð símanum mínum, tölvunni, sólgleraugum, bílnum jafnvel. En ætli það sé ekki mikilvægast að eiga góð nærföt.“

Hvaða kunnáttu langar þig til að hafa?

„Ef ég væri að hefja háskólanám núna myndi ég fara í skapandi greinar hjá Háskólanum á Bifröst. Ég er auðvitað ekki hlutlaus því ég vinn fyrir háskólann en þar hef ég einmitt kynnst því hvað þetta er bilað spennandi nám. Með öllum þessum manngerðu róbótum sem fara senn að taka yfir öll störf sem hægt er að ferla niður hlýtur manneskjan að leita í auknum mæli í þær greinar sem stóla á hið mannlega, eins og sköpunarkraftinn. Auk þess held ég að í nútímasamfélagi þar sem upplýsingar eiga undir höggi að sækja verði skapandi greinar æ mikilvægari til þess að spegla samfélagið og veita manneskjunni aðhald. En fyrst ætla ég að reyna að klára meistaranámið í ritlist sem ég er í núna.“

Hvað ætlarðu að gera spennandi í vetur?

„Nú eru fæturnir á mér fluttir á Bifröst með sálina í Reykjavík og hjartað í Mexíkó. Í vetur ætla ég að reyna að sameina líkamann hér í Norðurárdalnum þar sem ég held áfram að vinna að alþjóðamálunum á daginn og helga mig skáldskapargyðjunni á kvöldin, ég á samt nokkra vini í nágrenninu svo þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af mér. Vonandi klára ég að skrifa bók bráðum og útskrifast þá loksins úr ritlist og held heljarinar partí.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál