„Sú menntun sem maður sækir sér fer aldrei til spillis“

Freyr Þórðarson.
Freyr Þórðarson.

Innan fjármálakerfisins eru fjölmörg tækifæri til endursköpunar að mati Freys Þórðarsonar, Senior Vice President í alþjóðlega sjávarútvegsteyminu hjá DNB bankanum norska. Hann trúir því að fólk með ólíka menntun geti fundið sér spennandi farveg í fjármálastarfsemi, sérstaklega ef það er tilbúið að vinna í umhverfi stöðugra breytinga. 

Freyr Þórðarson er viðskiptafræðingur að mennt með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann sótti sér einnig menntun í fjölmiðlafræði á sínum tíma í Austurríki sem nýtist honum vel í starfi. Hann hefur starfað í fjármálageiranum í rúma tvo áratugi, og í bráðum fjögur ár hjá DNB bankanum.

„Við fjölskyldan höfum búið í New York síðan árið 2019. Fyrst um sinn bjuggum við í Westchester-sýslu, norður af Manhattan, sem er nokkurs konar úthverfi borgarinnar. Við fluttum okkur svo síðar um set inn á Manhattan og erum afar ánægð með þá ákvörðun.

New York-borg er alveg einstakur staður að búa á. Hér er orka sem erfitt er að skilgreina og setja í orð.

Borgin sjálf hefur tæplega 9 milljónir íbúa á aðeins tæplega 800 ferkílómetrum, en New York Metropolitan-svæðið allt geymir ríflega 23 milljónir íbúa. Fjölbreytileikinn er eftir því. Hér er allt til sem manni getur dottið í hug, og allt er í raun við höndina, ef manni sýnist svo. Við Vera, konan mín, fluttum hingað með þrjú talsvert stálpuð börn og unglinga. Það hefur verið nokkur áskorun að vinna sig í gegnum þessi vistaskipti, og kórónuveiran hjálpaði ekki félagslífi heimilisfólksins mikið. Við erum þó öll sammála um að þetta hafi allt saman verið þess virði, enda finnst okkur við vera heppin að geta búið í þessari borg.“

Freyr og Vera eiginkona hans.
Freyr og Vera eiginkona hans.

Fjölmiðlafræðilegur bakgrunnur kemur að góðum notum

Hver er forsaga þess að þú fórst á sínum tíma til Austurríkis að læra fjölmiðlafræði?

„Ég var með þann draum í maganum sem unglingur að vinna við skriftir. Ég kynntist svo hagfræði og viðskiptatengdum fögum í menntaskóla, og jafnvel þó að áhugi minn á þeim fræðum hafi verið hratt vaxandi, hugleiddi ég um tíma að lesa saman viðskiptafræði og bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Ég ákvað á endanum að fara í háskólanám í þýskumælandi Evrópu, og ég valdi mér fjölmiðlafræði, eða réttara sagt samskiptafræði, í Austurríki; það spillti svo ekki fyrir að stutt var í heimsklassa skíðalönd frá Salzburg, þar sem ég bjó í þrjú ár.

Ég vann aldrei við fjölmiðla, en hef búið að því alla starfsævina að geta tjáð mig sæmilega skammlaust í ræðu og riti. Af því hef ég ráðið að sú menntun sem maður sækir sér fer aldrei til spillis, og að minnsta kosti styrkir hún þann grunn sem maður byggir áfram á.“

Hvernig lýsirðu MBA-náminu við Háskólann í Reykjavík?

„Ég myndi lýsa MBA-náminu við Háskólann í Reykjavík sem framúrskarandi námi. Þarna kynntust ríflega 50 einstaklingar úr ólíkum hornum og með mismunandi bakgrunn, sem allir neyddust til að leysa verkefni saman. Kennarar og prófessorar frá mismunandi löndum og skólum studdu við og leiðbeindu á þessari vegferð, og fyrir mína parta rann þetta í lokin allt saman í nokkuð skýra persónulega framtíðarsýn mína. Helsti styrkur þessa náms í mínum huga, fyrir utan tengslanetið, var breiddin í kennarahópi, gott skipulag námsins og utanumhald skólans.“

Hvað gerir þú dagsdaglega í vinnunni?

„DNB er stærsti bankinn í heiminum þegar kemur að sjávarútvegi, með fjölmörg stöðugildi sem eingöngu sinna fyrirtækjum og ráðgjöf í fiskeldi, fiskveiðum og tengdum greinum. Norðmenn eru margreynd fiskveiðiþjóð eins og við Íslendingar, en því til viðbótar hafa þeir undanfarna áratugi náð framúrskarandi árangri í fiskeldi á heimsvísu. Og þar sem DNB er stærsti banki Noregs, og í raun 10. stærsti banki Evrópu, mældur í markaðsvirði hlutafjár, er það skýrt mörkuð stefna að sinna sjávarútvegi vel á alþjóðavísu.

Ég er í afar skemmtilegu starfi, sem snýst um að sinna og byggja upp núverandi viðskiptasambönd DNB í Norður-Ameríku, en einnig að sækja ný verkefni eftir föngum. Ég er því í hreinræktuðu framlínustarfi. Ég ber ábyrgð á sjávarútvegsstarfseminni okkar hér í New York, en bankinn hefur verið með útibú í borginni frá árinu 1975. Starfið kallar á þónokkur ferðalög, enda landsvæðið stórt, en heimsfaraldurinn hefur þó dregið verulega úr flakkinu.“

Meiri breidd í bakgrunni fólks í fjármálageiranum en áður

Nú hefurðu unnið í fjármálageiranum lengi og þar eru margir með fjármálabakgrunn en einnig allskonar menntun. Hefurðu séð áhugaverða menntun nú nýverið nýtast vel í bankanum og hver er hún?

„Ég held að það sé meiri breidd í bakgrunni fólks í þessari atvinnugrein en margir halda. Vissulega eru viðskipta- og MBA-gráður algengar, sem og verkfræði- eða önnur raungreinapróf. En á endanum snýst bankastarfsemi um viðskiptavininn, því án hans er lítið við að vera. Og þar sem viðskiptavinirnir eru með alls konar bakgrunn, þurfa bankar almennt að vera með talsverða breidd í sínum teymum. Alþjóðlegir bankar sækja oft gott námsfólk, úr góðum skólum, og þjálfa svo nýliðana til þess að takast á við tæknilegu hliðina.

Þar að auki sjáum við stóru bankana í dag ráða talsvert til sín af fólki með hreina tæknimenntun, eins og hugbúnaðarverkfræði, gervigreind, róbótafræði og þess háttar. Sumir tala um að verða einhverskonar fjártæknifyrirtæki til þess að mæta þeirri röskun eða umbreytingu sem fyrirséð er á þessari starfsemi.

Ég held reyndar að menntunin sjálf skipti minna máli, og innstillingin skipti meira máli. Við getum kosið að sjá bankastarfsemi sem nokkurs konar risaeðlu, eða við kjósum að sjá þetta sem risatækifæri til endursköpunar. Ég held því að fólk með ólíka menntun geti fundið sér spennandi farveg í fjármálastarfsemi, sérstaklega ef það er tilbúið að vinna í umhverfi stöðugra breytinga.“

Hefur upplýsingatækni síellt orðið áhrifameiri þáttur í vinnunni?

„Já, tvímælalaust. Gömul upplýsingatæknikerfi eru enn ráðandi í flestum bönkum, en rekstrarkostnaður þessara kerfa – ásamt kostnaði við þróun nýrra – er yfirleitt einn stærsti kostnaðarliður fjármálastofnana. Umbreyting og framþróun þessara kerfa er lykilþáttur í velgengni flestra banka. Framlínustarfsmenn finna glöggt fyrir þessari þróunn, og það fer alltaf einhver tími í að sinna upplýsingatæknitengdum verkefnum.“

Hefur þig dreymt um að læra meira?

„Já, það hefur alltaf verið grunnt á áhuganum að læra. Ég hef ýmist velt fyrir mér frekara framhaldsnámi, eða að auka breiddina með öðru fagi. Þetta eru allt saman dagdraumar og mjög ólíklegt að úr því verði. Ég held reyndar að menntunarmódel framtíðarinnar snúist meira um reglulegar viðbætur og stutta námsspretti, heldur en nokkur stór „menntaverkefni“ eins og hjá fyrri kynslóðum.“

Nú stóðstu þig vel í MBA-náminu og fékkst meðal annars jafningjaverðlaun útskriftarhópsins, því fólk taldi þig leggja einna mest af mörkum til hópsins í náminu. Hefur fólk og að vinna með fólki alltaf verið áhugavert fyrir þig eða ertu meiri tölu- og rekstrarmaður?

„Ég hef í raun alltaf haft áhuga á að vinna með fólki, en um leið líður mér vel í smáatriðum, tölum og rekstrarmálum. Ég held að námið sjálft og hópurinn hafi kallað fram í mér aukinn áhuga á samskiptum, og hvatt mig til að taka virkari þátt í samstarfi en ég hafði gert áður. Ég fann mig vel í því og það mótaði að einhverju leyti áhuga minn á að sækja mér meiri stjórnunarreynslu, sem ég svo síðar gerði.“

Freyr ásamt dætrum sínum.
Freyr ásamt dætrum sínum.

Bankinn fjárfestir í að senda fólk á milli starfsstöðva

Hvernig er að starfa fyrir norskan banka miðað við þá íslensku?

„Það er talsverður munur, þó í grunninn sé starfsemin svipuð. DNB hefur meiri reynslu sem stofnun, og hefur eflaust gert fleiri mistök, og oftar en bankarnir okkar heima; en hefur sennilega um leið náð að læra af öllum mistökunum. Ég finn það glöggt að bankinn reiðir sig mjög á „stofnanaminnið“, bæði að því er viðkemur sögu viðskiptavina og einnig atvinnugreina. Og bankinn hefur smíðað ýmis „kerfi“ til að halda utan um þetta stofnanaminni. Merkilegasta kerfið finnst mér vera hár starfsaldur innan bankans. Margir sem ég vinna með eru með starfsaldur á bilinu 15 til 40 ár hjá sama fyrirtækinu.

Annað sem er ólíkt því sem ég þekki að heiman, er hinn alþjóðlegi bragur sem er á DNB. Þó að Noregur sé ekki stórveldi þegar kemur að stærð þjóðarinnar, þá eru Norðmenn með mikla reynslu í nokkrum atvinnuvegum, svo sem skipaútgerð, orkuvinnslu og sjávarútvegi. Og DNB bankinn hefur verið lunkinn við að styðja þessar atvinnugreinar og vaxa með þeim. Auk þess leggur bankinn mjög mikla áherslu á það sem kallast Global Mobility starfsmanna og fjárfestir talsvert í að senda fólk milli starfsstöðva sinna í ólíkum löndum.“

Er mikill menningarmunur á milli landa í því hvernig fólk sinnir bankastörfum?

„Já, mér finnst það. Starfsmenn DNB virðast flestir stoltir af störfum sínum og telja sig gjarna vera að styrkja stoðir norsks samfélags, enda er norska ríkið eigandi eins þriðja hlutafjár í bankanum. Það er sterk menning í bankanum, og „norski“ andinn nær nokkuð vel yfir til erlendu starfsstöðvanna. Í samskiptum mínum við bandaríska samstarfsmenn finn ég síður fyrir fyrirtækjamenningu og meira fyrir einstaklingshyggjunni. Ég held að hvort tveggja hafi áhrif á það hvernig fólk sinnir sínum störfum. En á hvorugum staðnum finn ég fyrir gjánni milli fjármálastarfsemi og annarrar starfsemi, sem ég kannast við á Íslandi hin síðari ár.“

Nú elska margir New York, en hún þykir frekar hörð borg að lifa í. Hvernig er þín upplifun af því?

„New York er mögnuð borg! Það er áberandi hvað mörgum er mikið sama um allt og alla hér. Frískandi í raun. Hér er líka mikil samkeppni um allt milli hims og jarðar; allt frá athygli til vöruframboðs, og um pláss í lestinni og um leigubílana á götunum, og um taltíma á Teams eða hver vinnur flestar klukkustundirnar. Á endanum er þetta spurning um hvaða umhverfi nærir mann og í hvaða aðstæðum maður vill hrærast. Okkar fjölskyldunni finnst borgin bæði mögnuð, krefjandi og hröð og viljum ekki missa af henni eitt augnablik.“

Eruð þið búin að kynnast mörgum í borginni og hvað mun nýtt ár bera í skauti sér?

„Við höfum aðeins kynnst fólki í gegnum skólagöngu dætrana. Kórónuveiran gerði okkur aðeins erfitt fyrir, en okkur finnst vera að birta til. Auk þess höfum við kynnst góðu fólki með íslenskar rætur sem við tengjum sterkt við.

Við erum mjög spennt fyrir nýju ári í New York, enda er borgin öll að lifna við. Við ætlum að halda áfram að kynnast borginni betur, finna fleiri veitingastaði og drekka í okkur orkuna.“

Kemur reglulega í heimsókn til Íslands

Hvernig verjið þið dæmigerðri helgi saman í New York?

„Vera, konan mín, er mjög dugleg að skipuleggja helgarnar okkar. Við byrjum oft helgardagana á einverri hreyfingu, og erum dugleg að fara í „brunch“ með dæturnar, eða út að borða hjónin. Við höfum tekið þann pól í hæðina að gera sem mest úr þeim tíma sem við höfum hér. Þannig grípum við kannski tækifæri sem annars færu framhjá manni. Sem dæmi náðum við að sjá áhrifamikla þriggja daga sýningu Ragnars Kjartanssonar á Guggenheim í sumar, og fórum á merkilega sýningu um tískurisann Dior á Brooklyn Museum í vor og sáum hinn magnaða ballett Hnotubrjótinn í desember. Við höfum líka reglulega ferðast til nálægra borga á austurströndinni, svo sem Washington DC, Boston, Miami, Philadelphia, og skíðað í Vermont og tínt epli í Hudson Valley á haustin. Við eigum þó enn eftir að heimsækja vesturströndina, en það stendur til bóta á nýju ári.“

Kemurðu reglulega í heimsókn til Íslands?

„Já, ég bý svo vel að bankinn minn á viðskiptavini í sjávarútvegi á Íslandi og hef ég yfirleitt komið að þeim viðskiptum með einum eða öðrum hætti. Þetta kallar á nokkuð regluleg ferðalög til Íslands. Svo eru eldri dætur okkar tvær nýfluttar aftur til Íslands og eru þar í skóla, að minnsta kosti um sinn. Þetta er auðvita mikill hvati til ferðalaga heim og mér finnst ekki ólíklegt að annað hvort okkar hjóna verði að meðaltali einu sinni í mánuði á Íslandi á næstunni.“

Hvers saknarðu helst frá Íslandi?

„Ég sakna helst fjölskyldunnar og vina og ferska loftsins, sérstaklega á sumrin, og heitu pottanna á veturna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál