„Allir geta valið að eignast það líf sem þeir vilja“

Sveinn Snorri Sighvatsson og Linda Baldvinsdóttir eru með hlaðvarpsþáttinn 180 …
Sveinn Snorri Sighvatsson og Linda Baldvinsdóttir eru með hlaðvarpsþáttinn 180 með Lindu og Svenna. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

Linda Baldvinsdóttir ráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi fagnaði nýjustu bók sinni á dögunum. Bókin ber nafnið, Bók allra árstíða, og hefur að geyma mörg gullkorn. Hún segir að líf fólks væri betra ef það hugsaði um sig eins og hvítvoðung. 

„Bókin heitir bók allra árstíða og er samansafn bestu gullkorna þeirra sem ég hef skrifað á Facebook síðuna Manngildi í gegnum árin ásamt því að hverri hugvekju fylgir áleitin spurning til umhugsunar fyrir lesandann. Mér finnst persónulega að þessi bók ætti að vera til á öllum heimilum landsins og sérstaklega eftir það erfiða tímabil sem við höfum verið að ganga í gegnum í heiminum öllum og þess vegna verður bókin einnig gefin út á ensku í lok ársins og útgáfuhófið verður haldið í The Royal Society of Arts í London svo að hún nái til sem flestra og líklega fer hún frá London til Indlands ef draumar mínir rætast hvað það varðar,“ segir Linda í samtali við Smartland. 

Hver var kveikjan að henni?

„Ég sá að ég átti orðið hundruð af þessum litlu hugvekjum og mig hafði alltaf langað til að skilja eftir mig lítinn leiðarvísi sem gagnast gæti afkomendum mínum og samferðamönnum mínum.  Eitthvað sem gæfi þeim styrk og hvatningu ásamt uppörvun inn í erfiðum aðstæðum sama á hvaða árstíð í lífinu þeir stæðu hverju sinni,“ segir Linda og segist ekki hafa verið sérlega lengi að koma bókinni saman fyrst allur efniviðurinn var til. 

„Aðalmálið var að ákveða hvernig hún ætti að líta út. Ég ákvað að hún ætti að vera falleg til gjafa og lítil og nett svo að hún tæki ekki mikið pláss en gæti passað í flestar töskur og veski.“

Linda er vinsæll markþjálfi og skrifar meðal annars mannbætandi pistla inn á Smartland. Þegar hún er spurð að því hvað sé að hrjá fólk sem komi til hennar í markþjálfun segir hún að það sé svo margþætt. 

„Það er öll flóran, og kannski þarf fólk bara speglun og smá áttavita hugsun. En svo fæ ég einnig aðila sem vilja gjörbreyta aðstæðum, lífinu eða sjálfstraustinu, svo það er enginn ákveðinn hópur, bara þeir sem vilja auðga líf sitt með einhverjum hætti og yfirstíga þær hindranir sem þarf til að ná því marki.“

Er hægt að hjálpa öllum?

„Ég vil frekar segja að allir geta valið að eignast það líf sem þeir vilja eignast en það kostar vinnu og ákveðni til að ná þangað, og ef þeir vilja nýta þau tæki og tól sem ég hef að bjóða þá mun það yfirleitt skila sér. Stundum þarf þó víðtækari aðstoð fyrir einstaklinginn og þá bendi ég gjarnan á þau úrræði sem ég veit að gætu kannski gagnast betur.“

Hvað er með alla meðvirknina í samfélaginu. Hvers vegna er hún svona algeng?

„Þegar stórt er spurt! Ætli það sé ekki vegna þess að við erum fámennt og mjög tengt þjóðfélag og við smitum frá okkur inn í þær fjölskyldur sem við tilheyrum og ef við erum meðvirk þá kennum við börnunum okkar meðvirkni því að meðvirkni er ekkert annað en samskipta form þar sem ójafnvægi í samskiptum ríkir.“

Hvernig breytist líf fólks þegar það minnkar meðvirknina?

„Það verður betra jafnvægi og mörkin í samskiptum verða skýr sem hefur í raun dómínóáhrif inn á öll svið lífsins. Svo sannarlega hvet ég alla sem finna fyrir vanlíðan í samskiptum að leita sér aðstoðar þar því að vanlíðan í samskiptum hefur ótrúlega mikil og neikvæð áhrif á líf okkar,“ segir hún. 

Hvað getur fólk gert á hverjum degi til þess að eiga betra líf?

„Iðka þakklæti fyrir daginn og lífið, leita lausna þar sem hindranir eru (það er alltaf ein lausn í viðbót þegar þú heldur að þú hafir fundið þá síðustu). Læra að meta þig og það fallega sem þú býrð yfir og láta af úreltri fortíðinni. Hugsa  jafn vel um þig og þú hugsar um hvítvoðung. Læra að gefa og þiggja. Opna hjartað og læra að sleppa tökum á því sem þú færð hvorki stjórnað né breitt. Láttu drauma þína rætast og hættu að hlusta á þá sem segja að þú getir ekki - því þú getur það víst! Líklega gæti þessi listi verið miklu lengri en þetta er góð byrjun ekki satt ásamt því að hafa. Bók allra árstíða við höndina til uppörvunar og hvatningar alla daga,“ segir Linda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál