Er hægt að rifta hjúskaparsamningi?

Íslensk kona telur að hún hafi verið hlunnfarin þegar hún …
Íslensk kona telur að hún hafi verið hlunnfarin þegar hún skildi við eiginmann sinn fyrir tveimur árum. mbl.is/Thinkstock

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar lesendum Smartlands. Hér fær hún bréf frá konu sem er ósátt eftir skilnað og telur að hún hafi verið hlunnfarin af fyrrverandi maka. 

Hæ hæ

Mig langaði að spyrja þig álits um eitt varðandi hjónaskilnað. Skilnaður minn og barnsföður míns gekk í gegn fyrir tveimur árum og ég er fyrst að sjá það núna að við skiptum kannski eignum okkar [ekki] alveg jafnt. Ég fann fyrir sektarkennd og vildi láta allt ganga fljótt og hratt fyrir sig. Við áttum frábæra íbúð á góðum stað en í stað þess að selja hana fékk ég bara helminginn af því sem við áttum í henni, sem sagt ekkert rosalega mikið. Við keyptum íbúðina áður en fasteignaverð hækkaði mjög mikið og ég er svona [að] átta mig á því núna að ég hefði fengið mun meiri pening ef við hefðum bara selt íbúðina og splittað peningnum. Get ég eitthvað gert í þessu núna eða verð ég bara [að] lifa með þessu?

Kveðja, fráskilin með peningaáhyggjur

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæl!

Ef ég skil þig rétt hefur maki þinn keypt þig út úr eigninni fyrir helming þess sem þið raunverulega áttuð í henni, þ.e.a.s. ekki helming virðis eignarinnar.

Í hjúskaparlögum er gert ráð fyrir að gerður sé fjárskiptasamningur á milli hjóna við skilnað og hann staðfestur fyrir sýslumanni. Ef þér tekst að sanna að samningurinn hafi verið bersýnilega ósanngjarn gagnvart þér þegar hann var gerður er hægt að fella hann úr gildi að öllu leyti eða hluta. Þetta er sérregla í hjúskaparlögum og samkvæmt henni verður að höfða dómsmál um þetta innan árs frá því að dómur um skilnað eða leyfi til skilnaðar var gefið út. Þú segir að það séu tvö ár frá því að þú skildir. Framangreindur málshöfðunarfrestur er því liðinn.  

Þrátt fyrir þetta er mögulegt, ef þú getur sýnt fram á að almennar ógildingarreglur samningaréttar eigi við um fjárskiptasamninginn, t.d. forsendubrestur eða svik, að krefjast ógildingar á þeim grundvelli. Það hvílir á þér að sanna að þessar ástæður eigi við.

Í samningalögum er jafnframt að finna almenna ógildingarreglu sem gildir ef ósanngjarnt þykir að gagnaðili beri samning fyrir sig. Mögulega má láta reyna á hana og getur þá styrkt stöðu þína að fasteignaverð hefur hækkað umtalsvert frá því að skiptin á milli ykkar fóru fram en slík atriði, þ.e. síðar til komin atvik eða aðstæður, eru ein forsenda þess að samningur verði metinn ósanngjarn af dómstólum og hann dæmdur ógildur.

Ef það er samningsvilji fyrir hendi hjá fyrrum maka þínum er svo auðvitað alltaf valkostur að semja upp á nýtt.

Ég vona að þetta hafi aðeins skýrt stöðu þína.

Gangi þér vel.

Kær kveðja, Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent spurningu á smartland@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál