Viktoría setti saman draumalistann sinn með uppskriftum

Viktoría Hermannsdóttir á heiðurinn af vikumatseðli vikunnar og ákvað að …
Viktoría Hermannsdóttir á heiðurinn af vikumatseðli vikunnar og ákvað að taka áskoruninni þrátt fyrir að henni finnist hún vera versti kokkur á Íslandi. mbl.isArnþór Birkisson

Heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni á Viktoría Hermannsdóttir dagskrárgerðar- og fjölmiðlakona sem segist vera versti kokkur á Íslandi. Þrátt fyrir það setti Viktoría saman draumalista af uppskriftum fyrir vikuna sem lítur mjög girnilega út og er mjög fjölskylduvænn.

Viktoría starfar við dagskrárgerð hjá RÚV og hefur í nógu að snúast. Í gærkvöldi, sunnudagskvöld, fór í loftið þriðja þáttaröðin af Fyrir alla muni þar sem hún ásamt Sigurði Helgi Pálmasyni skoða gamla muni með sögu og reyna að komast að því hvort að sagan sem fylgi þeim sé sönn. Um er að ræða sex þátta seríu sem verður sýnd næstu sunnudagskvöld á RÚV.

Fyrir alla muni alveg á toppnum

,,Mér finnst eiginlega allt sem ég geri skemmtilegt af því ég tók ákvörðun um að gera bara það sem mér finnst gaman en Fyrir alla muni er alveg á toppnum yfir það sem er skemmtilegast að vinna að. Ég gleymi mér alveg í heimildavinnunni og við förum hingað og þangað í leit að alls konar öngum sögunnar fyrir hvern þátt. Það kemur alltaf eitthvað nýtt og spennandi í ljós og ég er ótrúlega spennt að leyfa fólki að sjá. Vonandi hafa áhorfendur jafn gaman að þáttunum og við höfðum að því að vinna þá. Ég er svo með mörg önnur mismunandi verkefni í gangi sem eru mjög spennandi. Síðan er ég líka alltaf með smá innkomu í Kastljósinu með.”

Versti kokkur á Íslandi

„Þó ég hafi tekið þessa ákvörðun um að gera bara það sem mér finnst gaman þá neyðist ég stundum til að elda en það þykir mér ekki gaman. Satt best að segja er ég nefnilega einhver versti kokkur á Íslandi og þó víða væri leitað. Einhvern veginn tekst mér alltaf annað hvort að hafa matinn hráan eða ofeldaðan, krydda hann of lítið eða of mikið og svo bara næ ég ekki að halda þræði hvorki í að kaupa inn fyrir uppskriftir eða að fylgja þeim. Þannig það er svo sem enginn sem er haldinn sérstakri matarást á mér. Ef ég væri uppi á þeim tíma þar sem það voru helstu dyggðir kvenna að vera góðar í eldhúsinu eða að halda heimili þá hefði ég líklega bara verið borin út eða að minnsta kosti alls ekki gengið út. Ég kann örfáar auðveldar uppskriftir en það er auðvitað ákveðið áhættuatriði í hvert sinn hvort þær heppnist eða ekki. Ofan á þetta er ég svo mjög matvönd og borða bara alls ekki hvað sem er. Ég reyni samt auðvitað að elda eitthvað fyrir börnin á kvöldin en er samt sem betur fer vel gift en við erum líka svolítið í snarlinu á kvöldin þar sem allir fá heitan mat í hádeginu,“ segir Viktoría og brosir.

Draumalisti með uppskriftum fyrir vikuna

En ég ákvað samt að taka áskorun að setja saman vikulista og ef ég næ ekki að fylgja uppskriftunum þá hóa ég í eiginmanninn. Ég hef reynt að setja saman svona lista áður en það hefur aldrei tekist af því ég er mjög fljót að gleyma og líka vegna þess að mér finnst svo ómögulegt að vita hvað ég verð í stuði fyrir eftir nokkra daga. Þeir sem þekkja mig og lesa þetta vita að ég mun ekki elda neitt af þessu og ef það gerist þá verður útkoman í það minnsta fróðleg. En það má alltaf vona, hér er allavega draumalisti með uppskriftum sem ég væri til í að borða í vikunni,“ segir Viktoría og hlær.

Mánudagur - Lasanja

„Mánudagar eru tilvaldir lasanja dagar og reyndar er lasajna eitt af því fáu sem ég sannarlega kann að elda. Það finnst eiginlega öllum lasajna gott þannig það klikkar nú yfirleitt ekki. Það er gaman að gera svona með smá tvisti.

Lasajna kann Viktoría svo sannarlega að elda og finnst það …
Lasajna kann Viktoría svo sannarlega að elda og finnst það eiga vel á mánudögum. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Þriðjudagur – Kjúklingatorillur með sætkartöflum og jalapeno-jógúrtsósu

„Mér líst sannarlega vel á þetta og læt Sóla elda þetta á þriðjudag.“

Kjúklingatortillur með sætkartöflum og jalapeno-jógúrtsósu.
Kjúklingatortillur með sætkartöflum og jalapeno-jógúrtsósu. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Miðvikudagur – Steiktur lax

„Lax er hollur og góður.“

Steiktur lax er bæði hollur og góður.
Steiktur lax er bæði hollur og góður. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Fimmtudagur - Rétturinn sem börnin elska Taco-pasta

„Nafnið á þessum rétti hljómar vel - réttur sem börn elska klikkar nú varla.“

Taco-pasta sem krakkar elska.
Taco-pasta sem krakkar elska. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Föstudagur - Pitsakvöld

„Föstudagar eru pitsakvöld, það er heilagt! Í mismunandi útfærslum.“

Föstudagskvöld eru pitsakvöld hjá Viktoríu og fjölskyldu hennar.
Föstudagskvöld eru pitsakvöld hjá Viktoríu og fjölskyldu hennar. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Laugardagur – Steiktar fajita-kjúklingavefjur

„Þetta er nú örugglega skemmtilegur laugardagsréttur.“

Steiktar kjúklingavefjur.
Steiktar kjúklingavefjur. Ljósmynd/Ljúfmeti og lekkerheit

Sunnudagur – Lambalæri með kartöflugratíni og rauðvínssósu

„Lambalæri á sunnudögum er æði. Ég elska líka kartöflugratín og rauðvínssósu. Það verður gaman hjá Sóla mínum að elda þetta.“

Sunnudagslambalærið klikkar ekki.
Sunnudagslambalærið klikkar ekki. Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert