Hátíðlegur kaffi- og saltkaramelludesert

Hátíðlegur áramótadesert borin fram í fallegum hanastélsglösum.
Hátíðlegur áramótadesert borin fram í fallegum hanastélsglösum. Ljósmynd/Valla Gröndal

Það er bæði fallegt og þægilegt að bera fram eftirrétti í fallegum glösum. Hér er ein útgáfan til viðbótar af eftirrétt sem borinn er fram í fallegu glasi og segja má að eigi rætur sínar að rekja til tiramisú.

Hvers kyns osta- og skyrkökur eru sérlega einfaldar og sparilegar í slíkum búningi. Valgerður Gréta Gröndal matarbloggari, alla jafn kölluð Valla, með uppskriftasíðuna Valla Gröndal ákvað að skeyta saman tiramisú fyllingu saman við saltkaramellukex sem bleytt var upp í með sterku kaffi og heimagerða saltkaramellu. Kaffi og karamella fara svona óskaplega vel saman að mati margra og þessi eftirréttur er fullkominn endir á veislumáltíð. Hægt er að gera hann með góðum fyrirvara sem einfaldar matarboðið til muna. Þessi mun sannarlega slá í gegn um áramótin. 

Hátíðarkaffi- og saltkaramelludesert

Kexblanda

  • 200 g Nairn’s saltkaramellukex
  • 50 g smjör brætt
  • 4 msk. espresso eða mjög sterkt kaffi
  • 1 tsk. skyndikaffiduft

Mascarpone fylling

  • 3 eggjarauður
  • 30 g sykur
  • 40 g púðursykur
  • 1/4 tsk. salt
  • 300 g mascarpone rjómaostur, kaldur
  • 180 ml rjómi
  • 1 tsk. vanilludropar

Saltkaramellusósa

  • 200 g sykur
  • 90 g smjör í bitum
  • ½ bolli rjóma
  • Væn klípa sjávarsalt

Aðferð við saltkaramellu

  1. Setjið sykur á pönnu eða í pott og bræðið við vægan hita, varist að brenna sykurinn.
  2. Setjið smjörið saman við og hrærið rösklega.
  3. Hellið rjómanum út í og haldið áfram að hræra þangað til karamellan er samlöguð.
  4. Bætið salti saman við og hellið strax í krukku.

Aðferð & samsetning:

  1. Hellið upp á kaffið, mælið magnið í litla skál og hrærið kaffiduftinu saman við.
  2. Myljið kexið smátt og blandið bræddu smjörinu saman við. Blandið kaffinu saman við.
  3. Aðskiljið rauðurnar og setjið í hitaþolna skál. Setjið sykur, púðursykur og salt í skálina. Setjið botnfylli af vatni í pott og setjið skálina yfir.
  4. Pískið eggjarauðurnar með sykrinum þar til sykurinn er bráðinn og blandan nær 73°C.
  5. Takið skálina af hitanum og hrærið rjómaostinum og vanillu saman við með písk þar til blandan er kekkjalaus.
  6. Stífþeytið rjómann og blandið honum varlega saman við ostablönduna með sleikju.
  7. Takið fram 5-6 falleg glös eða krukkur jafnvel og byrjið á því að setja kaffikex blöndu í botninn. Setjið því næst ostablöndu og dreifið saltkaramellusósunni yfir. Endurtakið.
  8. Setjið saltkaramellu og kaffikex mylsnu á toppinn.
  9. Kælið í 2 klukkustundir.
  10. Berið fram kalt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert