Steikt nautalund með ljúffengu meðlæti sem stendur fyrir sínu

Dýrleg nautasteik sem stendur fyrir sínu og er tilvalin til …
Dýrleg nautasteik sem stendur fyrir sínu og er tilvalin til að bera fram um helgina. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Nú er að koma helgi og góð steik klikkar aldrei þegar það á að gera vel við sig. Hérna er steikin borin fram með graskerspurée sem inniheldur líka bakaðan hvítlauk sem gefur graskerinu enn dýpra og betra bragð að mati uppskriftahöfundar sem er enginn annar en Snorri Guðmundsson sem heldur úti síðunni Matur og myndir. Með steikinni er upplagt að hafa parmesan-grænkálssalat með ristuðum möndluflögum og balsamic-bakaða sveppi sem smellpassa með kjötinu og graskerinu og gefa máltíðinni ævintýralegan ljóma. 

Þvílíkt augnakonfekt að horfa á þessa steik.
Þvílíkt augnakonfekt að horfa á þessa steik. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Steikt nautalund með silkimjúku graskerspurée, grænkálssalati og kryddsmjöri

Fyrir 2

  • 2 x 200 g nautalund (t.d. í Black Garlic-maríneringu)
  • 500 g grasker (Butternut squash) án hýðis
  • 4 hvítlauksrif
  • 60 ml rjómi
  • 60 g smjör
  • 60 g grænkál
  • 15 g parmesan
  • 1 stk. sítróna
  • 20 g ristaðar möndluflögur
  • 150 g kastaníusveppir
  • ½ tsk. Herbs Provence kryddblanda
  • 1 tsk. sojasósa
  • 1 tsk. balsamedik
  • 2 g steinselja eða eftir smekk

Aðferð:

  1. Takið kjötið úr kæli einni klukkustund áður en elda á matinn ásamt 30 g af smjöri.
  2. Setjið smjörið í skál þegar það er orðið mjúkt ásamt smá salti, 0,5 pressuðu hvítlauksrifi og saxið steinseljuna saman við. Stappið vel saman og smakkið til með salti og örlítið meiri hvítlauk ef þarf.
  3. Skerið sveppina í tvennt eða fernt eftir stærð.
  4. Veltið upp úr sojasósu, balsamediki, Herbs Provence, smá olíu og 1 pressuðu hvítlauksrifi. Setjið sveppina í lítið eldfast mót og bakið í miðjum ofni í 30-40 mínútur við 180°C hita.
  5. Hrærið reglulega í sveppunum þar til vökvinn sem þeir leysa frá sér er gufaður upp og sveppirnir eru fulleldaðir.
  6. Vefjið 3 hvítlauksrifjum þétt inn í álpappír með smá olíu og salti.
  7. Skerið grasker í bita og veltið upp úr smá olíu og salti.
  8. Dreifið graskerinu yfir ofnplötu með bökunarpappír og komið innpakkaða hvítlauknum líka fyrir á plötunni.
  9. Bakið í neðstu grind í ofni í um 30 mínútur við 200°C hita eða þar til graskerið er farið að taka lit og er mjúkt í gegn. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
  10. Færið bakaða graskerið og hvítlaukinn í pott ásamt 30 g af smjöri og rjómanum.
  11. Maukið með töfrasprota þar til graskerið er orðið silkimjúkt.
  12. Smakkið til með salti og geymið undir loki þar til maturinn er borinn fram.
  13. Saxið grænkál nokkuð smátt og setjið í skál með ristuðum möndluflögum.
  14. Rífið sítrónubörk saman við með fínu rifjárni (varist að taka hvíta undirlagið með því það er beiskt á bragðið) ásamt parmesanosti.
  15. Hrærið 0,5 msk. af ólífuolíu saman við ásamt sítrónusafa og blandið öllu vel saman. Smakkið til með salti ef þarf.
  16. Hitið stálpönnu við háan hita.
  17. Bætið olíu út á pönnuna og steikið kjötið í 3,5-4,5 mínútur á hvorri hlið (fer eftir þykkt).
  18. Bætið smjörklípu út á pönnuna þegar um 1 mínúta er eftir af steikingatímanum og dreypið bráðnu smjörinu yfir kjötið með skeið.
  19. Látið kjötið hvíla í 5 mínútur áður en skorið er í það.
  20. Berið fram og njótið með drykk í fallegu glasi. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert