Dýrasta pítsa í heimi kostar yfir 1,5 milljón

Pítsur eru uppáhalds matur margra.
Pítsur eru uppáhalds matur margra. Ljósmynd/Unsplash/Klara Kulikova

Ítalski pítsubakarinn Renato Viola er einn þeirra bestu í bransanum og hefur hlotið ófá verðlaun fyrir bakstur á flatbökum í gegnum árin. Viola á einmitt heiðurinn af dýrustu pítsu heims sem fæst á veitingastaðnum Louis XIII í Salerno á Ítalíu og kostar 12.000 Bandaríkjadollara. Það jafngildir um það bil 1,6 milljónum króna miðað við gengi dagsins í dag.

Þegar hungrið kallar á góða og djúsí pítsu leitar hugurinn gjarnan til stærstu og þekktustu pítsuframleiðenda heims. Þú vilt geta gengið út frá því vísu að fá sama bragðið, sömu áferð, sömu pítsuna og þú fékkst þér síðast, á viðráðanlegu verði og helst á mettíma.

Dýrasta pítsa heims er í algjöru ósamræmi við þessar kröfur. Enda einungis fáir og útvaldir sem fá þann heiður að gæða sér á henni vegna verðlagsins.

Tekur 72 klukkutíma að matreiða

Verðið er ekki hátt að ástæðulausu. Þrátt fyrir að pítsan sé ekki ýkja stór, rétt rúmir 20 cm eða um það bil 8 tommur, þá er hún mjög matarmikil og er sögð gefa bragð sem aldrei hefur fundist áður. Sagt er að það sé með öllu ólýsanlega gott og töfrum líkast.

Pítsuna tekur um það bil 72 klukkustundir að útbúa en sjálft pítsudeigið þarf mikinn og góðan undirbúningstíma. Þá er einnig aðeins notast við hágæða hráefni sem mörg hver eiga sér framandi uppruna.

Hágæða hráefnum raðað saman 

Áleggið er af allt öðrum toga en það sem finna má á matseðlum hefðbundinna pítsastaða. Á dýrustu pítsu í heimi er sérlöguð pítsusósa sem henni sæmir, handtýndar saltflögur frá Ástralíu, sérstakur úrvals kavíar (Oscietra Royal Prestige) úr matarkistu Kaspíahafsins sem stendur við strendur Írans, svartur lúxus kavíar (Kaspia Oscietra Royal Classic), fágætur mjaldrakavíar, tvær tegundir af rækjum úr Miðjarðarhafinu og norskur humar af fínustu sort. Þá setja hvorki meira né minna en sjö tegundir af sjaldgæfum hágæða ostum punktinn yfir i-ið og hámarka heildar bragð og útlit pítsunnar.

Ef þú veist ekkert hvað þú átt að gera við peningana þína þá er um að gera að ögra bragðlaukunum örlítið og skella sér á dýrustu pítsu í heimi. 

Renato Viola

Svona lítur dýrasta pítsa í heimi út.
Svona lítur dýrasta pítsa í heimi út. Skjáskot/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert