„Allir réttirnir kosta frá 428 til 997 krónur“

Ný matreiðslubók sem inniheldur 40 fljótlegar og ódýrar uppskriftir.
Ný matreiðslubók sem inniheldur 40 fljótlegar og ódýrar uppskriftir.

Það hjómar næstum eins og lygasaga að geta eldað mat fyrir tvo fyrir innan við þúsund krónur – en það er svo sannarlega hægt samkvæmt nýútkominni matreiðslubók sem léttir okkur lífið í eldhúsinu og spornar við matarsóun.

Bókin „Undir 1000 krónum fyrir tvo“ er ástríðuverkefni Áslaugar Harðardóttur sem nýverið gaf út sína fyrstu matreiðslubók. Áslaug var að vinna í ferðaiðnaðinum er heimsfaraldurinn skall á, og ýtti henni þar af leiðandi út í bókaskrif. „Við hjónin höfum verið að vinna meira og minna í kringum ferðamennskuna og þegar Covid skall á, þá stoppaði allt. Ég byrjaði að grípa í púsluspil við eldhúsborðið sem var notalegt til að byrja með – hlusta á hlaðvörp og vinda aðeins ofan af sér. En þegar ástandið var ekkert að skána, önnur bylgja var skollin á í ágústmánuði og ég enn þá við borðið að púsla, þá fannst mér þetta ekki ganga lengur – ég varð að fara gera eitthvað af viti,“ segir Áslaug sem segir hugmyndina að bókinni hafa mallað í mörg ár. „Ég og Sverrir maðurinn minn erum tvö í heimili og ég fór að kanna hvort það væri hægt að elda góðan og hollan mat fyrir tvo undir þúsund krónum. Það reyndist vel mögulegt án þess að slegið væri af þeim kröfum að maturinn yrði bæði góður og gerður úr alvöruhráefnum,“ segir Áslaug.

Fjörutíu uppskriftir eru í bókinni, engar unnar kjötvörur og ávextir og grænmeti er alltaf ferskt. Við sjáum kjúklingarétti, pasta, súpur, grænmetisrétti, smurbrauð o.fl. En það allra besta er að réttirnir kosta á bilinu 428 til 997 krónur, og þykir það óvenjuvel sloppið. Hráefnalistinn er jafnframt stuttur sem gerir réttina fljótlega í framkvæmd, og getur komið sér vel í annríki dagsins þegar þú vilt hollan og bragðgóðan mat. Við spyrjum Áslaugu hver uppáhaldsuppskriftin hennar sé í bókinni: „Það er franska lauksúpan, hún hefur fylgt mér lengi og má segja að sé kveikjan að þessu verkefni.“

Bókin sjálf er vel upp sett, fyrirferðarlítil, skemmtilega litrík og prýða hana fallegar myndir ásamt fróðleiksmolum sem má finna á hverri síðu. Þessi flotta matreiðslubók er fáanleg í verslunum Netto, Hagkaupa, í Forlaginu og Eymundsson þar sem hún rataði inn á metsölulista í fyrstu viku.

mbl.is/facebook.com/undir1000

Tær kjúklinga- og spínatsúpa undir 1.000 kr. fyrir tvo

  • 200 gr. kjúklingabringur
  • 100 gr. sveppir
  • 70 gr. spínat
  • ½ dl hrísgrjón
  • 1 laukur
  • 800 ml kjúklingasoð (súputeningur)
  • 2 msk. sojasósa
  • Salt & pipar

Aðferð:

  1. Skerið kjúklinginn í strimla og sveppina í þunnar sneiðar. Saltið og piprið.
  2. Setjið olíu og örlítið smjör í pott og fullsteikið kjúklinginn. Leggið kjúklinginn síðan til hliðar.
  3. Hellið soðinu í pottinn og sjóðið í 10 mínútur og bætið þá sveppunum út í og látið sjóða í 4 mínútur.
  4. Setjið síðan súpuna í skálar og spínatið út í og hrærið aðeins.
  5. Laukurinn er skorinn smátt og borinn fram til hliðar. Hver og einn setur lauk í sína skál eftir smekk.
  6. Verði ykkur að góðu!
Matreiðslubókin „Undir 1000 krónum fyrir tvo“ er bók sem enginn …
Matreiðslubókin „Undir 1000 krónum fyrir tvo“ er bók sem enginn má láta fram hjá sér fara. Stútfull af girnilegum uppskriftum sem kosta ekki krónu meira en þúsundkall, ef ekki minna. mbl.is/facebook.com/undir1000
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert