Hvítlauksristaðir humarhalar

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Humar er herramannsmatur og hér gefur að líta uppskrift sem er í senn afskaplega örugg og bragðgóð. Með hráefni eins og humar ber að vanda til verka og passa upp á að ofelda hann hvorki né eyðileggja með einhverri vitleysu. Þessi uppskrift er úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttur á Gotterí.is og er því gæðavottuð og algjörlega upp á tíu.

Hvítlauksristaðir humarhalar

Fyrir 4-5

  • 1.400 g stór humar
  • 300 g smjör
  • 4 hvítlauksrif
  • 2 msk. söxuð fersk steinselja
  • salt, pipar og hvítlauksduft

Aðferð:

  1. Kljúfið humarinn þegar hann er hálffrosinn og fjarlægið „skítaröndina“. Mér finnst best að gera þetta undir mjórri vatnsbunu og þerra síðan humarinn áður en ég raða honum í bökunarskúffu (þið þurfið tvær bökunarskúffur fyrir þetta magn af humri).
  2. Bræðið saman smjör, pressuð hvítlauksrif og steinselju.
  3. Hellið smjörblöndunni jafnt yfir humarhalana í skúffunum með matskeið, setjið vel af smjöri á hvern bita og kryddið síðan með salti, pipar og hvítlauksdufti í lokin.
  4. Grillið í ofni við 230°C í 5-7 mínútur eða þar til halarnir byrja aðeins að „krullast“ upp, þá má taka þá strax út úr ofninum.
  5. Gott er að hella hölunum í fat, pott eða annað og hella restinni af smjörinu yfir, hafa síðan skeið við höndina til þess að geta sett nóg af smjöri á halana þegar þeir koma á diskana.
  6. Berið fram með góðu hvítlauksbrauði og salati. Ef þið bakið ekki hvítlauksbrauð þá finnast mér sneiðarnar sem eru seldar frosnar henta vel með þessu. Gott að leggja þær á diskinn og fá þær til að drekka aðeins í sig smjörið. Salatið að þessu sinni samanstóð af klettasalati, baby spínati, bláberjum, fetaosti og brauðteningum.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert