Marinerað lambaprime með myntusósu

mbl.is/Hanna

Lambaprime er hinn fullkomni helgarmatur og hér gefur að líta útfærslu af því sem vert er að prófa. Það er matarbloggarinn Hanna sem á heiðurinn af þessari uppskrift en hún segir að sér þyki gaman að gera nokkrar útfærslur í einu. 

„Það getur verið erfitt að grilla kjötið þar sem það er fitusprengt og vill stundum kvikna í því.  Mér finnst það gerast frekar þegar ég kaupi lambaprime í tilbúinni marineringu og vil því frekar gera mína eigin marineringu eða bara salta og pipra. Þessi útgáfa er ein af þeim sem ég hef verið að prófa mig áfram með. Upplagt að leggja kjötið í marineringu daginn áður og geyma það í kæli yfir nótt. Chutneysósan er kannski ekki mjög barnvæn en hún er fersk og skemmtilega öðruvísi og passar vel við þessa marineringu. Glimrandi góður réttur sem gaman er að bjóða upp á öðru hvoru,“ segir Hanna um uppskriftina. 

Marinerað lambaprime með myntusósu

Kjöt og marinering

  • 800 g lambaprime
  • U.þ.b. 20 g engifer – skorið í grófa bita (ef ég nota lífrænt engifer læt ég hýðið fylgja með)
  • 4 hvítlauksrif – skorin í grófa bita
  • ½ grænn chilipipar – með fræjum
  • 1 msk. olía
  • ½ tsk. fennel fræ
  • ¼ tsk. kanill
  • 1 dl rjómi

Til penslunar

  • 2 msk. limesafi
  • 1 tsk. chilliduft
  • 1 tsk. sumac
  • ½ tsk. múskat
  • 1 tsk. grófmalaður svartur pipar
  • Saltflögur

Chutneysósa

  • Tæplega 1 dl fersk mynta
  • 1 dós grísk jógúrt eða sýrður rjómi
  • 1 msk. hunang
  • 1 grænn chilipipar eða jalapeno (með fræjum)
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 tsk. cumin
  • ½ tsk. sumac
  • 2 msk. sítrónusafi
  • 1 tsk. nigella-fræ (má sleppa) 

Marinering

  1. Engifer, hvítlaukur, grænn chilipipar og olía sett í matvinnsluvél – maukað gróft og sett í skál sem rúmar líka kjötið
  2. Afgangi af hráefninu (fennel fræ, kanill og rjómi) bætt við í skálina – blandað saman
  3. Kjötið sett í skálina og blandað saman við marineringuna
  4. Lok/plastfilma sett yfir og kjötið látið marinerast í 3 – 4 klukkustundir eða í kæli yfir nótt (ágætt að snúa kjötinu við einu sinni en ekki nauðsynlegt). Best er að taka kjötið út eitthvað áður svo að það nái stofuhita áður en það er sett á grillið

Chutneysósa

  1. Allt hráefni sett í matvinnsluvél eða öflugan blandara – maukað saman

Til penslunar

  1. Öllu hráefni blandað saman í skál og penslað á kjötið rétt áður en grillið er hitað
  2. Varðandi steikinguna: Það er smekksatriði hversu mikið kjötið á að vera steikt. Mér finnst gott að hafa það rauðleitt en samt ekki of lítið út af fituröndunum. Steikingartíminn er einnig mismunandi þar sem kjötbitarnir geta verið misþykkir. Við grillum kjötið á frekar háum hita á báðum hliðum. Svo er hitinn lækkaður aðeins eða við látum kjötið á efri grindina í smá stund. Þegar kjötið er tekið af grillinu er gott að láta það jafna sig aðeins
  3. Einnig er smekksatriði hvernig kjötið er borið fram. Hægt er að bjóða upp á heila bita eða skera í hæfilega stóra bita fyrir hvern og einn. Mér finnst best að skera kjötið niður í þunnar sneiðar

Meðlæti

T.d. ofnsteiktar kartöflur, hrísgrjón, grænmetisgratín, salat eða það sem hverjum og einum finnst best.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

- - -

mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert