Hugo Hanastél

Hugo er léttur og frískandi aperitif sumardrykkur
Hugo er léttur og frískandi aperitif sumardrykkur mbl.is/portandfin.com

Hugo Spritz er leikandi léttur kampavínskokteill sem hefur löngum verið vinsæll í Mið- og Suður-Evrópu. Svipað og þegar heiðlóan er farin að kvaka hér á hinu ylhýra, þá vitum við að sumarið er komið í Suður-Evrópu þegar fólk er farið að spóka sig úti við á kaffihúsum og veitingastöðum með Hugo við hönd. Hérna er uppskrift af þessum frískandi drykk, en hún er ofureinföld og minnir á sæta sumardaga.

Hugo Spritz kampavínskokteill 

  • 200 ml þurrt kampavín (fr. brut)
  • 100 ml sódavatn
  • 1-2 tsk ylliblóma sýróp (e. elderflower syrup)
  • 1 grein af ferskri myntu
  • 1 sneið límóna
  • Ísmolar eftir smekk
Aðferð

Fyllið belgmikið glas til hálfs með ísmolum. Merjið myntuna lauslega milli fingra og setjið í glasið og kreistið því næst eina sneið af límónu yfir. Hellið einni teskeið af ylliblómasýrópi yfir. Þeir sem hafa smekk fyrir sætum hanastélum geta bætt við annarri teskeið. Heyrst hefur að lykil-hráefnið, ylliblómasýrópið, fáist í matardeild IKEA og beri þar heitið Dryck Fläder. Fyllið að lokum upp í glasið með 200 millilítrum af þurru kampavíni og skvettu af sódavatni. Fyrir þetta hanastél hefur einnig reynst vel að nota ítalskt Prosecco freyðivín. Mælt er með því að njóta þessa drykks helst úti á palli með sólgleraugu á nefinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert