Jóladálæti kokkanna

Grinilegur laxabröns fyrir aðfangadag.
Grinilegur laxabröns fyrir aðfangadag. mbl.is/Gunnar Ingi Gíslason
„Við erum mjög hefðbundin í jólamatnum en leikum okkur gjarnan með forréttinn, erum t.d. með rjúpu í forrétt, en hamborgarhrygg í aðalrétt,“ segir Sigurður Gíslason, kokkur á GOTT í Vestmannaeyjum.
„Það hefur myndast sú hefð að vera með bröns á aðfangadag og vera með alls kyns kæfur og þetta flatbrauð með laxi sem ég gef ykkur uppskrift að. Þá er fjölskyldan að líta inn, en þetta er ekkert formlegt matarboð. Krakkarnir hlakkar eiginlega mest til þessa hádegisboðs, þau spyrja alltaf hvort það verði ekki örugglega bröns,“ segir Siggi.
„Aðalmálið við laxaréttinn er að vera með hágæðalax. Við höfum verið að reykja hann sjálf. Þetta er einfaldur réttur en frábær. Brauðdeigið er svipað og tortilludeig,“ segir Siggi og bendir á að djúpsteikta kapersið geri réttinn enn betri.
„Þetta er létt í maga og gerir mann óhemjuspenntan fyrir veislunni sem verður svo um kvöldið.“
Fleiri matreiðslumenn deila sínum eftirlætisuppskriftum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 
Sigurður Gíslason matreiðslumaður.
Sigurður Gíslason matreiðslumaður. mbl.is
Laxabröns á aðfangadag
Reyktur lax með flatbrauði, djúpsteiktu kapers og jógúrtdressingu
Fyrir 4
Flatbrauð
  • 4 bollar spelthveiti, fínt malað
  • 1 teskeið salt
  • 2 teskeiðar lyftiduft
  • 3 msk. ólífuolía
  • 1 ½ bolli vatn
Blandið hveiti, salti og lyftidufti saman. Bætið ólífuolíu saman við og notið hendur til að blanda því sem best saman. Blandið vatni saman við, litlu í einu, og hnoðið vel saman, annaðhvort í höndunum eða KitchenAid-hnoðara.
Skiptið deiginu í 18 hluta og hnoðið í litlar kúlur. Fletjið deigkúlurnar í ca. 5 mm þykkt. Steikið, helst á teflonpönnu sem hefur verið olíuborin, á meðalhita og snúið reglulega þar til fullbakað.
  • 250 g reyktur lax
  • (skerið í eins þunnar sneiðar og þið getið)
  • piklaður laukur
  • 1 rauðlaukur
  • 1 bolli hrásykur
  • 1 bolli sérríedik
  • 1 bolli vatn
Blandið saman ediki, hrásykri og vatni í pott og náið upp suðu. Kælið.
Afhýðið rauðlauk og skerið mjög þunnt og setjið út í volgan edikvökvann og látið liggja í ca. 1 til 2 tíma.
Jógúrtsósa
  • 1 dós hrein jógúrt
  • safi úr ½ sítrónu
  • 1 msk. hunang
  • 1 hvítlauksgeiri, marinn og fínt saxaður
  • 2-3 msk. kapers (djúpsteikið við 180°C í ca. 2 mín.)
Raðið svo saman með því að setja klettasalat ofan á volgt flatbrauðið, leggið reykta laxinn ofan á salatið, setjið kapers yfir það og toppið með jógúrtsósu. Gott er að rífa börk af sítrónu eða appelsínu yfir og strá smá dilli yfir.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert