Súkkulaðikaka með sykurlegnum perum

Svona lítur frummyndin út.
Svona lítur frummyndin út. mbl.is/SpisBedre

Jórunn Einarsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn. Hún heldur úti skemmtilegri uppskriftarsíðu þar sem hún safnar saman þeim uppskriftum sem mælst hafa vel fyrir og vert er að deila. Jórunn þykir afbragðskokkur og afskaplega smekkvís og það er því ekki við öðru að búast en að þessi súkkulaðikaka með sykurlegnum perum sé hreinasta sælgæti. Það er líka eitthvað svo ákaflega lekkert við perur í kökum – eða bara hverju sem er ef því er að skipta.

Og þá að uppskriftinni:

Kakan:

  • 200 gr. dökkt súkkulaði 70%
  • 200 gr. smjör
  • 200 gr. sykur
  • 4 egg
  • ½ tsk. kanill
  • ¼ tsk. salt
  • 125 gr. hveiti
  • 2 msk. sykur
  • Aflangt bökunarform. Í uppskriftinni er talað um form sem tekur 1 ½ l.

Perur í sykurlegi:

  • 3 perur
  • 8 dl vatn
  • 160 gr. sykur
  • 2 msk. sítrónusafi

Skraut:

  • 50 gr. hvítt súkkulaði – brætt

Við byrjum á því að útbúa sykurlöginn fyrir perurnar.  Skerið neðan af perunum svo þær geti staðið. Skrælið perurnar en skiljið stilkinn eftir.  Setjið vatn, sykur og sítrónusafa í pott og hitið að suðu. Lækkið hitann og setjið perurnar ofan í löginn og lokið yfir. Látið sjóða við vægan hita í 25 mínútur eða þar til perurnar eru orðnar mjúkar. Látið perurnar standa í sigti eða á eldhúsbréfi þar til allur vökvi hefur lekið af þeim og þær hafa náð að kólna.

Hitið ofninn í 190° gráður á yfir- og undirhita  (ég hafði minn á 160° og blæstri) og setjið bökunarpappír í kökuformið.

Hakkið súkkulaðið gróft. Bræðið smjörið í potti og bætið súkkulaðinu út í. Takið pottinn af hitanum og blandið vel saman og látið aðeins kólna.

Eggjunum fjórum er skipt í rauður og hvítur. Hrærið saman eggjarauður og 200 gr. af sykri í hrærivél ásamt kanil og salti þar til blandan verður létt og ljós. Bætið súkkulaðismjörblöndunni saman við og því næst hveitinu. Stífþeytið eggjahvíturnar. Sáldrið 2 msk. af sykri yfir hvíturnar á meðan þið hrærið. Bætið stífþeyttum eggjahvítunum varlega saman við súkkulaðiblönduna með sleif og vinnið þar til deigið hefur blandast vel saman. Setjið 1/3 af deiginu í botninn á kökuforminu. Raðið perunum þar ofan á og hafið smá bil á milli þeirra. Hellið restinni af deiginu ofan í formið þannig að einungis perustilkarnir standa upp úr.  Bakið kökuna í eina klukkustund, eða þar til hún er tilbúin. Gott er að setja álpappír yfir síðustu 10 mínúturnar til að hún brenni ekki. Látið kökuna kólna í 10 mínútur áður en þið takið hana úr forminu og svo er gott að láta hana standa á grind til að kæla hana alveg.

Að lokum er kakan skreytt með hvítu súkkulaði sem brætt hefur verið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið súkkulaðið storkna áður en þið berið kökuna fram.

Ég skar hana í fremur þykkar sneiðar og bar hana fram með lífrænum vanilluís og úrvals kaffi.

„Værsgo“!

Kakan sem Jórunn bakaði heppnaðist eintaklega vel og smakkaðist enn …
Kakan sem Jórunn bakaði heppnaðist eintaklega vel og smakkaðist enn betur. mbl.is/Jórunn Einarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert