Erlendur Björgvinsson fæddist á Hlíðarenda í Breiðdal þann 4. júlí 1924. Þar ólst hann upp. Hann lést þann 27, desember á Uppsölum í Fáskrúðsfirði. Erlendur var einn af 10 börnum hjónanna Sigurbjargar Erlendsdóttur frá Hvammi í Fáskrúðsfirði og Björgvins Jónassonar frá Stuðlum í Reyðarfirði, ábúenda á Hlíðarenda. Systkini Erlendar sem nú eru öll látin voru Gísli Friðjón, Jóhanna Petra, Rósa, Ragnar, Herbjörn, Guðlaugur, Gunnar en Helgi og Sigþór dóu ungir. Þann 10. nóvember 1969 giftist hann Friðbjörgu Midjord frá Færeyjum f. 18. júní 1943, d. 29. október 2005. Börn Erlendar og Friðbjargar eru 1) Nína Midjord f. 24. júní 1968, hennar maður er Sveinbjörn Egilsson f. 23. júlí 1966, börn þeirra eru Egill Örn f. 12. janúar 1993, Sigríður Tinna f. 15. febrúar 1995, Gabríel andvana fæddur 22. desember 2006 og Sigfús Arnar f. 4. febrúar 2008. 2) Sigurbjörg Petra f. 18. maí 1970, hennar maður er Emil Guðfinnur Hafsteinsson f. 17. ágúst 1966. Dóttir þeirra er Linda María Emilsdóttir f. 9. ágúst 1993, unnusti hennar er Jóhann Elís Runólfsson. 3) Sóley Berglind f. 8. apríl 1973, hennar maður er Sigursteinn Árni Brynjólfsson f. 9. mars 1972. Börn þeirra eru Ingibjörg Lilja f. 2. mars 1994, Árni Steinn f. 20. júlí 2003 og Malen Mist f. 13. nóvember 2009. 4) Rósa Elísabet f. 3. desember 1976, dóttir hennar er Friðbjörg Helga Bjarkadóttir f. 15. september 1998. 5) Björgvin Hlíðar f. 21. janúar 1978, sonur hans er Erlendur f. 17.október 2006. Einnig átti Erlendur fyrir synina Sigurbjörn Hlíðar og Hafstein Sævar af fyrri sambúð. Erlendur naut farkennslu eins og þá tíðkaðist, hann fór árin 1945-1947 til Reykholts til náms. Hann tók meirapróf 1951 á Reyðarfirði. Hann hafði mikinn og brennandi áhuga á íþróttum og stundaði einkum fótbolta og frjálsar, hann var einn að frumkvöðlum í Ungmennafélaginu Hrafnkeli Freysgoða og var hann mjög virkur í þeim félagsskap, hann var meðal annars ritari þess frá 1953-1960 og varaformaður þess frá 1960-1961. Erlendur varð 1949 fyrsti Austurlandsmeistari Hrafnkels Freysgoða í frjálsum íþróttum í flokki fullorðinna í kringlukasti á móti á Eiðum. 1951 varð hann svo fimmtarþrautarmeistari. Erlendur keppti allra ungmennafélaga lengst fyrir Hrafnkel Freysgoða eða í 30 ár. Erlendur fór á vertíðir sem ungur maður, bæði til Vestmanneyja og Hafnar í Hornarfirði. Einnig vann hann í Reykjavík við mublu- og leikfangasmíði. Hann keypti jörðina Fellsás 1958 og hóf uppbyggingu og búskap þar ásamt Petru systur sinni. Erlendur var bóndi alla sína ævi og vann með búinu utan heimilis ýmsa vinnu, svo sem í fiski, við vörubílaakstur og við smíðar. Hann átti mörg áhugamál svo sem skógrækt og má sjá það kringum bæinn í Fellsási. Erlendur hafði líka mikinn áhuga á tónlist og spilaði á harmonikku. Erlendur verður jarðsunginn frá Heydalakirkju í dag, mánudaginn 3. janúar 2011, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar maður hugsar til baka og er þá mest áberandi öll væntumþykjan og hlýjan sem skín í minningunum og hvað þú fylgdist vel með þínum og hringdir bara til að athuga hvað ég var að brasa og spurðir svo um aðra í kringum mig og hafðir gaman af að fylgjast með því sem var að gerast í kringum mig og það gladdi mig að finna að þú værir að fylgjast með mér. En svo vorum við búin að stríða þér oft á því þegar þú hringdir og spurðir um það sem þú vildir vita og svo kom hjá þér æ viltu ekki bara heyra í móður þinni sama hvort ég væri að segja þér æsispennandi kjaftasögur eða ekki og þú máttir ekkert vera að að eyða tímanum í símanum því þú varast búinn að fá að vita það sem þú varst að spyrja um og að fara að brasa eitthvað sem þú varst búinn að plana og því var ekki breytt! He, he, he, og ég sakna þess að heyra ekki þegar ég svara í síman já er þetta ekki þú sjálf og það var svo gaman þegar þú hringdir og sagðir: Já, ert þetta ekki þú sjálf? og þegar þú sagðir. Hvað ert þú að gera? og ég svaraði og þá kom hjá þér nú, já, þá er ekki hægt að plata þig í að skreppa í ferðalag með mér, eða um hver mánaðarmót þegar þú hringdir til að skipuleggja bankaferð (sem átti helst að vera 1. hvers mánaðar og helst um leið og bankinn opnaði) því að auðvitað var ekkert sérstakt við það að geyma það. Og það var svolítið mikið þú að geyma það ekki sem hægt var að ganga frá, ó, já, það er góður kostur sem ég vildi óska að ég væri búin að læra betur! He, he, og svo þegar ég var lítil þegar ég og var með þér í Zetornum þá var minn staður að sitja á miðstöðinni vinstra megin við stýrið og þar var hlýtt og gott að sitja og fylgjast með því sem þú varst að brasa. Og svo þegar ég var að koma úr fjárhúsunum með þér og þú bauðst til að þvo lummurnar mínar þegar heim var komið og það var svo mjúkt og gott og það voru oft fleiri óhreinar lummur sem þú þurftir að þvo þegar við vorum kannski öll systkinin eða kannski líka einhverjir sumar krakkar með í fjárhúsinu! Og það var ekki ósjaldan sem þú spurðir er þér kalt á lummunum ræfilsdruslan mín, á ég að hlýja þér? og þú varst ekki lengi að nudda og blása hita í lummurnar mínar og það klikkaði sko ekki! Þú varst alltaf með svo stórar og hlýjar hendur! Og gott að skríða upp í fangið og láta þig halda utan um sig. Og á kvöldin þegar þú eða mamma voruð að lesa fyrir okkur og við krakkarnir lágum öll spennt að hlusta á sögurnar og þið náðuð vel athygli okkar með lestri ykkar! Og það var líka ljúft að fá að sofa uppí hjá ykkur,  það er líka búið að stríða mér á því þegar ég var lítil og ég sagði mömmu að þú værir farinn að urra. He, he, þú varst búinn að hlæja oft að vitleysunni í mér þar og reyndar ekki bara þar, he, he.

Og pabbi þegar við fórum saman að kaupa lottó einn laugadaginn og fórum af stað fyrir eða um hádegi í góðu veðri en þegar við komum út á Hangakleifarnar og festum bílinn þar í snjóskafli og þú fékkst mig til að fara undir stýri á meðan þú fórst út til að moka og við vorum þar langt fram á kvöld og það var kominn skafrenningur og svo varð bíllinn bensínlaus og við löbbuðum út á Gljúfraborg og mig minni að Kjartan í Snæhvammi hafi skutlað okkur út á Breiðdalsvík að sækja bensín. Og svo vorum við að leggja af stað inn eftir aftur og búin að snúa bílnum þegar mamma og Sibba komu labbandi út eftir til að leita að okkur og við sögðum þeim að við værum bara að skoða okkur um í blíðunni! En þær reyndu samt að stríða okkur á þessu ferðalagi okkar, en við hlustuðum ekkert á þetta bull í þeim. He, he, he, og þú varst svo mikill dýravinur og svo umhugað um að dýrin hefðu það gott og þeim væri sýnd virðing. Og þú vildir að maður setti sjálfan sig í spor dýranna, þau gætu ekki kvartað en þau fyndu til eins og við! Og hvað þú hafðir alltaf gaman af öllum dýrum og það var alveg sama hvaða dýr það voru! Og ég held að ég eigi nú eftir að leggja 7 stokka kapal og hugsa til þín þá, þú varst búinn að leggja nokkra svoleiðis kapla og þegar þú varst að stríða mömmu og varst að þykjast vera þeirrar trúar að ef kapalinn væri ekki að ganga upp að þá mætti svindla SMÁ. . . En ég held að þú hafir nú ekki vanið þig á að svindla nema bara til að stríða smá. Og þú varst svo mikill barnakarl, þú hafðir gaman af að hafa okkur með þér t.d. þegar ég fékk að fara með þér að stilla riffilinn þinn og þú kenndir mér að skjóta í mark úr honum en þú hafðir yndi af að hafa krakka í kringum þig, sama hvað þú varst að gera. Þú varst líka algjör bjargvættur fyrir mig þegar Friðbjörg mín var lítil og hún var eitthvað ósátt um nóttina og náði ekki að sofna og þú tókst hana og labbaðir með hana og hossaðir henni og söngst fyrir hana og þið dönsuðuð þar til hún sofnaði. Og svo var svo gaman að fylgjast með hvað þér fannst gaman að gera fínt og hafa snyrtilegt í kringum þig og að horfa á þig snyrta í garðinum og gera fínt, og allur áhuginn hjá þér á að gróðursetja og rækta blóm og plöntur, það var allt svo vel gert og með svo mikilli alúð eins og þér var líkt. Og svo það sem þið mamma gerðuð svo vel saman, öll handavinnan og smíðin ykkar og er svo gaman að eiga og hafa hjá sér núna.
Og svo er það eitt í viðbót og það er það þegar við systur vorum að fara á böll og að máta kjóla og dress og þá var það alveg 100% öruggt að spyrja þig um álit á dressum, það sparaði manni marga klukkutíma í undirbúningi fyrir framan spegilinn að spyrja þig ráða með val á dressi og þú varst alltaf hreinskilinn og heiðarlegur í ráðleggingum þar eins og annarsstaðar. Og það var svo mikið þú að segja hreint út hvað þér fannst,  óheiðarleiki og ósamgirni voru þér ekki að skapi. Þú varst sannur vinur vina þinna en líka örugglega ekki gott að bregðast þér því þú vildir heiðarleg samskipti! Og svo var það íþróttaáhuginn þinn, ég held að það hafi ekki skipt máli hvaða íþrótt það var þú hafðir gaman af öllu sem heitir íþróttir, bæði að stunda þær sjálfur eða horfa á þær og þú stóðst þig líka vel sem dómari í fótboltanum á fellsásopen í sumar þar sem afluggarnir þínir kepptu! Það var nú stuð hjá okkur þá sem oft áður.

Allar stundir okkar hér
Er mér ljúft að muna
Fyllstu þakkir flyt ég þér
Fyrir samveruna.
(tekið úr minningarbók pabba úr Reykholti)

Elsku pabbi, takk fyrir rúntinn á aðfangadag og verst að við skyldum ekki sjá neinar rjúpur á ferð okkar um dalinn þinn, nú ert þú farinn og ég veit að það verða fagnaðarfundir hjá ykkur mömmu að hittast aftur og ég veit líka að það eru margir fleiri komnir til að taka á móti þér og ég bið að heilsa öllum og ég veit að þið eigið alveg örugglega eftir að kíkja til mín og viltu segðu mömmu að ég skal vera alveg róleg með gardínurnar. En elsku pabbi og mamma takk fyrir allt og ég mun aldrei gleyma ykkur demantarnir mínir.
Ykkar dóttir,

Rósa Elísabet Erlendsdóttir.