Átakið hjólað í vinnuna hefst í dag

Meginmarkmið hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum …
Meginmarkmið hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Átakið hjólað í vinnuna hefst formlega í dag en Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stýrir heilsu- og hvatningarverkefninu nú í 22. sinn og mun það standa að vanda yfir í þrjár vikur eða til 28. maí.

Í tilkynningu frá Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands segir að á meðan átakið stendur yfir séu landsmenn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga, hoppa eða nota annan virkan ferðamáta. 

Athyglinni beint að hjólaþjófnaði

„Meginmarkmið hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta. Í ár verður athyglinni beint að hjólaþjófnaði og hvernig minnka megi líkur á að hjólum sé stolið. Það er frábært að hjóla í vinnuna en við viljum líka geta hjólað á þeim heim. Í hjólunum liggja oft talsverð verðmæti og því er mikilvægt að hjólunum sé læst og helst við eitthvað fast, þannig að þjófum sé gert erfiðara fyrir,“ segir í tilkynningunni.

Í vinnustaðakeppni er fyrst og fremst keppt um flesta þátttökudaga hlutfallslega miðað við heildarfjölda starfsmanna á vinnustaðnum. Keppt er í átta keppnisflokkum út frá stærð vinnustaða. Að auki er kílómetrakeppni á milli liða um annars vegar heildarfjölda kílómetra og hins vegar hlutfall kílómetra miðað við fjölda liðsmanna í liði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert