Handtekinn á Íslandi og afhentur pólskum yfirvöldum

mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti ákvörðun ríkissaksóknara um að verða við beiðni pólskra yfirvalda um afhendingu á pólskum karlmanni til Póllands. Er þetta gert á grundvelli evrópskrar handtökutilskipunar.  

Úrskurður héraðsdóms féll 30. apríl og Landsréttur staðfesti hann í gær.

Varðar fjársvik

Handtökuskipun á hendur manninum var gefin út 1. ágúst í Póllandi í fyrra og snýr að tveimur dómum pólskra dómstóla vegna atvika sem áttu sér stað fyrir tæplega 10 árum og varða fjársvik að fjárhæð tvær milljónir kr.   

„Í handtökuskipuninni er óskað eftir handtöku og afhendingu varnaraðila, til fullnustu á fangelsisrefsingu. Til grundvallar hinni evrópsku handtökuskipun er dómur svæðisdómstólsins í [...](e. The Regional Court in [...]) frá 27. nóvember 2017 (ref. II K [...]/17) þar sem varnaraðili var dæmdur til að sæta fangelsi í eitt ár, skilorðsbundið til þriggja ára. Með ákvörðun dómstólsins frá 26. júní 2020 var varnaraðila gert að afplána dóminn vegna rofs á skilorði. Á hann eftir að afplána eitt ár,“ segir í úrskurðinum. 

Handtekinn í mars

Þá kemur fram að lögreglan á Suðurnesjum hafi handtekið manninn og var tekin af honum skýrsla 20. mars. Þar var honum kynnt efni handtökuskipunarinnar og kannaðist hann við málsatvik og sagðist vera sá aðili sem tilgreindur er í handtökuskipuninni.

Fimm dögum síðar tók ríkissaksóknari ákvörðun um afhendingu hans til Póllands á þeim grundvelli að ekki væru fyrir hendi lagalega ástæður til synjunar. Þessu mótmælti maðurinn. 

Mikið óréttlæti

Maðurinn hélt því fram að við ofangreindum afbrotum lægi skilorðsbundinn dómur á Íslandi og vanskil á greiðslu skaðabóta til brotaþola varðaði ekki fangelsisrefsingu. Sú refsing sem honum hafi verið gerð með dómnum frá 2017 hafi verið óheyrilega þung miðað við brot hans.

„Refsingar í málunum séu því með ólíkindum þungar m.t.t. eðlis brotanna. Þá felist mikið óréttlæti í því að afhenda mann í afplánun fyrir svo litlar sakir sem raun ber vitni að felist í skilorðsrofi varnaraðila,“ segir í úrskurði héraðsdóms. 

Hefur búið á Íslandi í sex ár

Fram kemur að maðurinn hafi dvalið á Íslandi í sex ár og eigi hér kærustu. Hann segist aldrei hafa komið við sögu lögreglu á þessum tíma. Auk þess sé hann með örugga og góða vinnu sem geri honum kleift að styðja við fjölskyldu sína bæði hér og í Póllandi. Afhendingin hefði því ekki aðeins áhrif á hann sjálfan heldur einnig á nána vandamenn hans. 

Það var aftur á móti niðurstaða héraðsdóms og svo Landsréttar að staðfesta niðurstöðu ríkissaksóknara og afhenda manninn pólskum yfirvöldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert