Hótaði að stinga lögreglumenn með sprautunál

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglumenn fundu stolna bifreið í hverfi 105 í Reykjavík. Hún var mannlaus og læst, en með frumkvæði og rannsóknarvinnu almennra lögreglumanna fundust lyklarnir og ætlað þýfi úr bifreiðinni, sem voru húslyklar, farsími og aðrir persónulegir munir. Þessu var öllu skilað til eiganda.

Stuttu síðar voru þjófarnir, karl og kona, handteknir í Árbænum. Þau höfðu þá verið tilkynnt víða um borg, m.a. fyrir ofbeldistilburði og hótanir. Þegar lögreglumenn hugðust handtaka konuna hótaði hún að stinga þá með sprautunál. Lögreglumenn náðu að beita hana lögreglutökum og færa í handjárn. Við öryggisleit á konunni fundust síðan bæði sprauta og hnífur. Þau voru vistuð í fangageymslu lögreglu, enda bæði í annarlegu ástandi, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Stöðvaður með úðavopni

Óskað var aðstoðar lögreglu vegna fólks, karls og konu, sem var til vandræða á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Fjórir lögreglumenn fóru á staðinn og gáfu fólkinu fyrirmæli um að yfirgefa staðinn, sem það hlýddi ekki. Þá reyndi karlinn að stofna til átaka og ætlaði að ráðast á lögreglumennina. Honum var þá ógnað með úðavopni, en tvíefldist aðeins við það. Því var úðavopninu beitt gegn honum og dró þá hratt úr baráttuþreki mannsins. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem honum var veitt fyrsta hjálp við áhrifum úðans. Síðan var hann vistaður í fangageymslu, en hann var verulega ölvaður.

200 þúsund í sekt 

Ökumaður var sektaður fyrir að aka bifreið sviptur ökuréttindum í Árbænum. Þetta er í annað sinn sem viðkomandi ekur sviptur ökuréttindum og var sektin við því mjög há, eða 200.000 krónur.

Tveir menn komu á lögreglustöð og afhentu þar veski sem hafði fundust á víðavangi. Veskið innihélt peninga, kort og skilríki. Eigandinn fannst og var hann mjög þakklátur mönnunum fyrir að hafa fundið veskið hans.

Stal peningaveski á hótelherbergi

Óskað var aðstoðar vegna óvelkomins einstaklings á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Sá hafði brotist inn á herbergi hótelgests og stolið þaðan peningaveski. Einstaklingurinn var handtekinn á staðnum, en við öryggisleit á honum fannst vasahnífur. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins, en hann var í annarlegu ástandi.

Ökumaður var handtekinn grunaður um akstur áhrifum í hverfi 105. Sá var bæði ölvaður og undir áhrifum vímuefna, þ.e. kókaíns og maríjúana. Hann hefur ítrekað gerst sekur um að aka í slíku ástandi. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Á amfetamíni og róandi lyfjum

Annar ökumaður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum í Breiðholti, en aksturslag bifreiðarinnar var mjög rásandi. Sá var undir áhrifum amfetamíns og róandi lyfja. Þá var ökumaðurinn sviptur ökuréttindum og hefur ítrekað gerst sekur um það. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku. Þegar lögreglumenn lögðu bifreiðinni í stæði uppgötvuðu þeir að bifreiðin var nánast bremsulaus og því voru skráningarmerkin fjarlægð af bifreiðinni og hún þannig tekin úr umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert