Veðurstofan varar við aukinni ofanflóðahættu

Uppsöfnuð úrkoma á 36 klukkustundum til miðnættis aðfaranótt sunnudags.
Uppsöfnuð úrkoma á 36 klukkustundum til miðnættis aðfaranótt sunnudags. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands varar við aukinni hættu á ofanflóðum vegna úrkomu á Vesturlandi og sunnanverðum Vestfjörðum. Veðurspáin gerir ráð fyrir talsverðri úrkom í dag, en hún fellur í formi rigningar uppi í fjallhæð.

„Það má búast við auknum líkum á votum snjóflóðum og krapaflóðum þar sem mikill snjór er fyrir en grjóthruni og smáskriðum þar sem er snjólétt. Grjóthrun og smáskriður geta fallið án mikils fyrirvara, sérstaklega undir bröttum hlíðum og í kringum ár- og lækjarfarvegi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Lítill snjór sé í þekktum krapaflóðafarvegum og ekki sé talið að hætta skapist í byggð.

Vegfarendur hafi varann á

Á morgun, sunnudag, ætti að vera þurrt að mestu leyti. Grjóthrun og aurskriður geta þó áfram fallið í hlíðum í nokkurn tíma eftir að úrkoma hættir.

„Vegfarendum er bent á að hafa varann á við ár- og lækjarfarvegi á meðan mesta úrkoman gengur yfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka