Kristrún varar flokksmenn við kæruleysi

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn enga innistæðu eiga fyrir …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn enga innistæðu eiga fyrir kæruleysi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir flokkinn vera merkisbera jafnaðarstefnu á Íslandi og varar flokksmenn við því að sofna á verðinum þótt flokkurinn hljóti mikinn meðbyr samkvæmt nýjustu könnunum. 

Þetta kom fram í ræðu Kristrúnar á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem var haldinn fyrr í dag. 

Engin innistæða fyrir kæruleysi

Kristrún sagði fjölda fólks víðs vegar um landið vonast til þess að Samfylkingunni takist að endurreisa velferðarkerfið, lyfta innviðum landsins og að: „Okkur takist að rífa hlutina í gang og koma Íslandi aftur á rétta braut“. Þá sagði hún of mikið vera í húfi til að bregðast þessum vonum.

Hún varaði samflokksmenn við því að kæruleysi gæti læðst aftan að þeim á meðan flokkurinn mælist sá stærsti í könnunum:

„Enda er ekkert í hendi og við höfum bara enga innistæðu fyrir því að vera kærulaus, eða vanmeta valdaflokkanna sem við ætlum okkur að leysa af hólmi eftir næstu kosningar.“

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að Bessastöðum 9. apríl 2024.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að Bessastöðum 9. apríl 2024. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin í kollhnís og Samfylkingin ferðast innanlands

Kristrún sagði fólk vilja upplifa festu í Samfylkingunni samanborið við sitjandi ríkisstjórn: 

„Hvað sögðum við síðast á flokksstjórnarfundinum á Akureyri? Við sögðum: „Þegar það er óreiða hjá ríkisstjórninni – þá á þjóðin að upplifa festu í Samfylkingunni“,“ sagði hún og hélt áfram:

„Og viti menn: Á meðan ríkisstjórnin hélt áfram að fara í alls konar kollhnísa og funda með sjálfri sér um sjálfa sig, [...] þá tókum við enn einn hring um landið – héldum hátt í 30 opna fundi með almenningi, að þessu sinni um atvinnu og samgöngur, og heimsóttum 180 fyrirtæki um land allt; í öllum greinum atvinnulífsins.“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn vera merkisbera jafnaðarstefnu á …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn vera merkisbera jafnaðarstefnu á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kallar eftir virkjunum og jarðgöngum

Kristrún sagði ríkisstjórnina hafa skilað svo gott sem auðu í samgöngu- og orkumálum og benti á að þrátt fyrir fyrirheit um frekari jarðgöng hafi engar slíkar framkvæmdir hafist. Sama segir hún um stöðuna í virkjunum.

Í því samhengi sagði hún Samfylkinguna búa yfir einbeittum vilja til verklegra framkvæmda og sé tilbúin til framkvæmda frá fyrsta degi í nýrri ríkisstjórn.

Innviðir ekki í takt við fólksfjölgun

Kristrún sagði hagvöxt á hvern einstakling vera minni hérlendis en gengur og gerist á Norðurlöndum og í Evrópu frá árinu 2017.

Hún segir rót vandans liggja í því að hagvöxtur hafi verið keyrður áfram af vexti í vinnuaflsfrekum atvinnugreinum og samhliða því hafi orðið mikil fólksfjölgun.

Þá benti hún á að fjöldi innflytjenda hér á landi hafi tvöfaldast á sjö árum, án þess að innviðir og grunnþjónusta hafi haldið í við þá þróun.

Þar næst sagði hún hækkandi húsnæðisverð þrýsta á laun sem hafi vakið upp örvæntingu meðal fólks. Hún gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að lofa „sömu 1000 íbúðunum á síðustu árum“, og segir rót vandans teygja sig lengra en einungis fjölda íbúða:

„En vandinn er auðvitað sá, að skortur á atvinnustefnu, samsetning hagvaxtar sem þessi ríkisstjórn hefur ýtt undir, hefur orðið til þess að vandinn bara vindur upp á sig á húsnæðismarkaði. Þau komast aldrei fram fyrir vandann.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka