Hyggjast leyfa fólki að skoða gosið

Enn gýs úr einum gýg í Sundhnúkagígaröð. Hugmyndin er að …
Enn gýs úr einum gýg í Sundhnúkagígaröð. Hugmyndin er að leyfa fólki að skoða eldgosið. Hörður Kristleifsson

Ferðamálastofa leiðir starfshóp sem hefur það verkefni að útbúa aðstöðu fyrir þá sem vilja skoða eldgos í Sundhnúkagígsröð þar sem gýs úr einum gíga.

Hugmyndin er sú að opna svæði nærri Svartsengi með aðgengi í gegnum Grindavíkurveg austanvert. Unnið er að samningum við landeigendur og ef af þeim verður hyggst starfshópurinn útbúa bílastæði fyrir þá sem vilja bera gosið augum. Gestir verða rukkaðir fyrir aðgengi að bílastæðinu.

Vilja stýra fólki á örugga staði 

Dagbjartur Brynjarsson, sérfræðingur í öryggismálum hjá Ferðamálastofu, leiðir starfshópinn. Hann samanstendur af fulltrúum frá Grindavíkurbæ, Umhverfisstofnun, lögreglunni á Suðurnesjum, Landsbjörg og Áfangastofu Reykjaness.

Dagbjartur segir að hugmyndin sé sú að með þessum hætti megi stýra ferðamönnum á örugga staði þannig að þeim stafi ekki hætta af gosi eða kvikugangi. Hann segir það ekki hafa verið stórt vandamál að fólk hafi í leyfisleysi farið að gosinu sem nú stendur yfir. Engu að síður séu dæmi um það þrátt fyrir að svæðið sé formlega lokað fyrir umferð.

Hann segir að sá staður sem endanlega verður valinn til áhorfs á gosið þurfi að hafa auðvelt aðgengi viðbragðsaðila.

„Eins og staðan er núna álítum við að besti staðurinn sé út frá Grindavíkurvegi á svipuðum stað og Svartsengi er á,“ segir Dagbjartur.

Hugmyndin er að gera bílstæði austanvert við Grindavíkurveg nærri Svartsengi.
Hugmyndin er að gera bílstæði austanvert við Grindavíkurveg nærri Svartsengi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gefa ekki upp staðsetningu strax 

Hann segir þó að ýmsu sé að hyggja. Ekki sé búið að koma upp gasmælum til að meta gasmengun nákvæmlega á þessum stað sem horft er til. Þá segir hann að ekki verði gefið út nákvæmlega hvar viðkomandi staður er að sinni af öryggisástæðum.

„Ef við gefum okkur að þarna komi 100 manns á 50 bílum núna þá er búið að teppa Grindavíkurveg. Þess vegna þarf að gera þarna bílastæði svo hægt sé að taka á móti fólki,“ segir Dagbjartur.

Hann segir samhliða unnið að því að gera kostnaðarmat, samninga við landeigendur, hönnun fyrir bílastæði og göngustíg.

„Það þarf að gera ráðstafanir og merkja svæðið þar sem í lagi er að vera. Því þó við segjum að í lagi sé að koma og skoða þá þýðir það ekki að við gefum grænt ljós á að fara bara eitthvað,“ segir Dagbjartur.

Dagbjartur Brynjarsson.
Dagbjartur Brynjarsson. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hægt að auka álag á viðbragðsaðila

Hann segir að búast megi við því að jarðvinna taki talsverðan tíma. Rukkað verður fyrir bílastæði. Það helgist meðal annars af því að ekki verður eingöngu hægt að reiða sig á viðbragðsaðila þar sem álag hefur verið mikið á þá í tengslum við eldsumbrot á svæðinu.

„Einhvern veginn þarf að fjármagna þetta. Það er vinna að fara í að búa til bílastæði, og vinna í því að gera gönguslóða og þess háttar. Hugsanlega er hægt að fá styrk úr framkvæmdasjóði áfangastaða en það er engu að síður gerum við ráð fyrir því að rukka þurfi fyrir bílastæði,“ segir Dagbjartur. 

Ekki verður hægt að reiða sig á viðbragðsaðila sem hafa …
Ekki verður hægt að reiða sig á viðbragðsaðila sem hafa verið undir miklu álagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert