Gætu afgreitt tillögu um rannsóknarnefnd á næstu vikum

Frá Súðavík.
Frá Súðavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur til að rannsóknarnefnd þriggja einstaklinga verði skipuð á vegum Alþingis, til að rannsaka málsatvik í tengslum við snjóflóðið sem féll í Súðavík í janúar árið 1995.

Fjórtán létust og tíu slösuðust í flóðinu sem féll yfir hús við Túngötu, Nesveg og Njarðarbraut. Hátt í 400 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum og var tólf manns bjargað.

Hefur þingsályktunartillaga nú formlega verið lögð fyrir Alþingi en í janúar var beiðni um skipan rannsóknarnefndar afhent forseta Alþingis.

Þingsályktunartillögunni var dreift til þingmanna á mánudag. Kveðst Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vona að málið verði afgreitt fyrir lok þessa mánaðar.

Vildu að málið yrði rannsakað

29 ár eru liðin frá því að snjóflóð féll í Súðavík. Flóðið er eitt það mann­skæðasta sem fallið hef­ur á byggð á Íslandi.

Ákvarðanir og athafnir almannavarna í aðdraganda snjóflóðsins hafa verið gagnrýndar en samkvæmt skipulagi Almannavarna ríkisins áttu boðleiðir og ákvarðanataka um mat og aðgerðir á grundvelli þess að vera skýr.

Í skýrslu um náttúruhamfarirnar á Vestfjörðum í janúar 1995 kemur m.a. fram að ekki hafi verið fylgt skipulagi almannavarna um viðbúnaðar- eða hættustig við boðskipti og mat á aðstæðum. Samskiptaörðugleika hafi gætt milli aðila og ekki hafi verið fylgt því formi sem átti að vera á tilkynningaflæði og mati á hættuástandi.

Síðasta sum­ar sendi Katrín Jak­obs­dótt­ir, þáverandi for­sæt­is­ráðherra, stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd beiðni lög­manns, fyr­ir hönd eft­ir­lif­enda og aðstand­enda þeirra sem lét­ust í snjóflóðinu, þar sem farið var fram á að málið yrði rann­sakað af hálfu yf­ir­valda.

Er­indið var sent í kjöl­far um­fjöll­un­ar Heim­ild­ar­inn­ar um snjóflóðið sem birt­ist í apríl á síðasta ári. 

Varpa ljósi á ákvarðanir

Í þingsályktunartillögunni segir að hlutverk rannsóknarnefndar yrði að draga saman og útbúa til birtingar upplýsingar um málsatvik til að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda.

Á þá m.a. að gera grein fyrir:

  1. hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur,
  2. fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins, í kjölfar þess og þar til hættuástandi var aflétt,
  3. eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins.

Rannsókninni ljúki svo fljótt sem verða má og eigi síðar en einu ári eftir skipun rannsóknarnefndarinnar.

Varnir í forgangi höfðu ekki verið reistar

Í þingsályktunartillögunni eru málsatvik í aðdraganda snjóflóðsins rakin. Kemur þar fram að í hættumati vegna snjóflóða fyrir Súðavík frá 25. ágúst 1989 hefði komið fram að Súðavík væri hættusvæði vegna snjóflóða en meginhluti byggðar væri utan þess en tíu hús lentu innan þess. 

„Nauðsynlegt væri að verja þá byggð sem fyrir væri á hættusvæðinu og kom fram að það væri hlutverk hreppsnefndar Súðavíkurhrepps að gera tillögur til Almannavarna ríkisins að varnarvirkjum fyrir byggingar á því. Meðan slík varnarvirki skorti myndu Almannavarnir ríkisins mæla með brottflutningi fólks frá umræddum byggingum og lokun fyrir umferð um hættusvæðið hvenær sem snjóflóðahætta skapaðist í Súðavík að mati sérfræðinga Veðurstofu Íslands og athugunarmanns með snjóflóðahættu í Súðavík. Jafnframt myndu Almannavarnir ríkisins fela almannavarnanefnd Súðavíkur framkvæmd þess brottflutnings samkvæmt skipulagi þar um.“

Þá hafi framkvæmdastjóri almannavarna ríkisins fundað með hreppsnefnd og almannavarnanefnd Súðavíkur í febrúar 1990 um valkosti og möguleika til snjóflóðavarna í bænum út frá hættumati. Voru fundarmenn sammála um að snjóflóðavarnir ofan Nesvegar í Súðavík skyldu hafa forgang.

Sjö hús stóðu ofan Nesvegar norðan Höfðabrekku og voru á hættusvæði samkvæmt hættumati.

Snjóflóðavarnir höfðu þó ekki verið reistar þegar snjóflóð féll í Súðavík að morgni 16. janúar 1995. 

Ekki upplýstir um óvissuna

Línan sem markaði hættusvæðið lá meðfram Túngötu, þar sem snjóflóð rann á lóðir árið 1983 og jafnframt hús í flóðinu 1995. Athygli vekur að skiptar skoðanir voru um reiknilíkan sem var grundvöllur hættumats en útreikningar samkvæmt öðrum líkönum bentu til þess að hætta á snjóflóðum fyrir byggðina væri mun meiri. 

Þá vekur einnig athygli að hættumatið hafði ekki verið skýrt nægilega vel fyrir heimamönnum hvað varðar verulega óvissu um þau svæði sem merkt voru sem „hættulaus svæði“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert