Sumarið gott þrátt fyrir jarðhræringar

„Við viljum trúa því að til lengdar verði mynstrið með …
„Við viljum trúa því að til lengdar verði mynstrið með svipuðum hætti og með Eyjafjallajökul, að nýleg eldvirkni verði til þess að auglýsa einstaka náttúru Íslands.“ Samsett mynd/Kristinn/Eggert/Árni Sæberg

Kristófer Oliversson, formaður FHG - Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir bókunarstöðuna fram undan góða þrátt fyrir jarðelda á Reykjanesskaga.

Hótelrekendur hafi sannarlega fundið fyrir áhrifum þeirra þar sem afbókanir bárust í miklum mæli nóvember og fáar nýjar bókanir voru gerðar. Bæði hafi fréttaflutningur erlendis og eins tíðar lokanir Bláa lónsins orðið til að Íslandsferðum hafi verið slegið á frest.

Eldvirkni auglýsi einstaka náttúru

„Þetta hefur smám saman verið að lagast, en við höfum ekki náð upp fyrri hluta árs að fullu. Við viljum trúa því að til lengdar verði mynstrið með svipuðum hætti og með Eyjafjallajökul, að nýleg eldvirkni verði til þess að auglýsa einstaka náttúru Íslands.“

Þegar Kristófer er spurður hvernig hann meti samkeppnisstöðu áfangastaðarins Íslands segir hann: „Við erum dýr og við verðum að vera dýr. Það hefur lítið gerst annað hjá okkur en það að laun hafa hækkað, fjármagnskostnaður hefur hækkað mikið sem og gistináttaskatturinn. Þannig að það hafa verið miklar hækkanir í rekstrarumhverfinu. Ísland er dýrt ferðamannaland það einfaldlega endurspeglar íslenskt hagkerfi.“

Kristófer Oliversson, eigandi Center Hotels og formaður Félags fyrirtækja í …
Kristófer Oliversson, eigandi Center Hotels og formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki gerður greinarmunur á milli Norðurlanda

Ljóst er á máli Kristófers að helstu samkeppnislönd Íslands séu önnur Norðurlönd. Fólk sem komi lengra að geri lítinn greinarmun á einstaka Norðurlöndum. Hann nefnir sem dæmi Finnland, sem eigi sér öfluga ferðaþjónustu, sem hafi orðið fyrir ýmsum skakkaföllum. Fyrst hafi heimsfaraldurinn lokað straum ferðamanna frá Asíu. Stríðið í Úkraínu hafi líkað minnkað straum ferðamanna frá Rússlandi. Finnar séu því að bjóða upp á mjög hagstæð verð þessa dagana.

Kristófer er þá spurður hvernig háir vextir komi við geirann. „Hótelgeirinn er sá geiri í ferðaþjónustunni sem er fjármagnsþyngstur. Geirinn heldur utan um gríðarlega dýrar fasteignir og hækkun á lánakjörum tekur því verulega í. Verkföllum við fyrri tvær kjarasamningsgerðir var beint fyrst og fremst gegn hótelunum. Gistináttaskattur var felldur niður á meðan á heimsfaraldrinum stóð, enda voru hér vitaskuld engir gestir. Nú er hann kominn aftur og var tvöfaldaður um áramótin.“

Skortur yfir háannatímann

Blaðamaður spyr hann þá hvort ekki sé hætt við því að skortur myndist á markaði þegar ekkert svigrúm sé til frekari uppbyggingar.  

„Það væri vafalaust hægt að selja fleiri hótelherbergi yfir háannatímann. Það er einstakt á Íslandi, til dæmis saman borið við Suður-Evrópu, hvernig okkur hefur tekist að byggja upp heilsárs ferðaþjónustu hér á landi. Uppbyggingin þarf að vera sjálfbær og það er mjög mikilvægt að við byggjum upp jafnt og þétt í takt við vaxandi eftirspurn.“

Kristófer segir að mjög góður árangur hafi náðst við að …
Kristófer segir að mjög góður árangur hafi náðst við að byggja upp heilsársferðamennsku á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilsársferðamennska takmarkist við fá svæði

Kristófer segir að mjög góður árangur hafi náðst við að byggja upp heilsársferðamennsku á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Hann er þá spurður hvort lýðræðisleg umræða hafi átt sér stað um þá stefnumörkun.

„Ferðamálaráðherra mun væntanlega leggja fram á næstunni tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í ferðamálum til ársins 2030. Við bindum vonir við að þessi áætlun stuðli að skynsamlegri uppbyggingu í greininni. Við þurfum að huga að því hvað við ætlum að ganga langt í móttöku fljótandi hótela.  Nokkur sveitarfélög sem hafa tekið að sér það frumkvæði að bjóða skipin hingað, aðrir hafa lítið um það að segja. Þessar ákvarðanir eru í höndum fárra hafnarstjóra og sveitarfélaga. Verið er að byggja gríðarstóra móttökustöð á Skarfabakka, stækka hafnir á Akranesi, Ísafirði, Akureyri og víðar til að taka á móti meiri skipaumferð."

Þar miðast uppbyggingin við að geta tekið á móti ferðamönnum sem koma í júní, júlí og ágúst. Þetta er mikið umhugsunarefni. Hins vegar þegar farið er út í fjárfestingu eins og hótel er allt gert til þess að tryggja heilsársferðamennsku og hefur það tekist mjög vel á Suðurlandi.“

Samkeppnisstaðan sé rétt af

Loks er Kristófer spurður að því hverju hert eftirlit og reglur á heimagistingu muni breyta fyrir hótelrekendur. Hann segir bæði heimagistinguna og skemmtiferðaskipin hafa fengið töluverða skattalega rekstrarhvata. Eina krafa hóteleigenda sé sú að samkeppnisstaðan sé rétt af.

„Við erum að berjast fyrir heilbrigðara rekstrarumhverfi á markaðnum. Hótelin greiða gríðarlega skatta, rúmar tvær milljónir á meðalherbergi hér í Reykjavík í skatta og skyldur til ríkis og borgar (75% til ríkis, 25% til borgar). Opinberir aðilar eru ekki að fá slíkar tekjur af öðrum gistikostum.“

Frá Tenerife.
Frá Tenerife. mbl.is/Sigurður Bogi

Mótmæli á Tenerife athyglisverð

„Ég tel að ef við byggjum upp ferðaþjónustu þar sem erlendir gestir gisti á hótelherbergjum þá komi ekki fram þessi raskandi áhrif líkt og gríðarhátt íbúðarverð. Um leið og fjöldanum er sleppt inn í íbúðahverfin, líkt og gert er hérna, þá hefur það gríðarleg áhrif.

Það er athyglisvert að fylgjast með mótmælum íbúa á Tenerife, sem segja sig vera komna aftur á steinöld, farnir að búa í hellum og tjöldum, á sama tíma og ferðamenn búa í íbúðunum. Á það hefur verið bent hér á landi að íbúar landsins búa margir í herbergjum í iðnaðarhverfum meðan ferðamennirnir búa í íbúðum á besta stað í bænum. Við megum aldrei gleyma því að byggja upp greinina í sátt við land og þjóð“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert