„Hef alveg nógan tíma“

Glódís Rún Sigurðardóttir ásamt hestinum sínum Breka frá Austurási.
Glódís Rún Sigurðardóttir ásamt hestinum sínum Breka frá Austurási. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag er lokamót í Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum í tölti og flugskeiði sem fer fram í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli.

Glódís Rún Sigurðardóttir, 22 ára landsliðsknapi og heimsmeistari, leiðir einstaklingskeppnina með 4,5 stigum og heyrði mbl.is í henni fyrir lokakvöldið.

Fjölskylduíþrótt

Glódís Rún starfar sem tamningakona á fjölskyldubúinu Sunnuhvoli í Ölfusi þar sem þau eru með 32 hesta á húsi yfir veturinn.

„Ég hef verið í kringum hesta síðan ég man eftir mér. Við rekum fjölskyldufyrirtæki hér á Sunnuhvoli þar sem við erum að rækta hross, temja, selja og síðan keppa,“ segir Glódís Rún.

Bróðir hennar, Arnar Bjarki Sigurðarson, keppir einnig í Meistaradeildinni fyrir lið Hrímnis/Hest.is og vann systir hennar Védís Huld Sigurðardóttir einstaklingskeppni Meistaradeildar ungmenna nú á dögunum.

Fimmta tímabilið í keppninni

Þrátt fyrir ungan aldur er þetta fimmta tímabil Glódísar Rúnar í Meistaradeildinni sem og hennar besta frammistaða í keppninni þar sem hún leiðir einstaklingskeppnina með 4,5 stigum fyrir lokamótið í tölti og skeiði.

„Þetta er klárlega skemmtilegasta tímabilið mitt en líka mest krefjandi þar sem maður þarf að reyna að halda sér ofarlega. Mér hefur aldrei gengið jafnvel og á þessu tímabili, en fyrstu tvö tímabilin þá var ég ekkert að komast inn í úrslit.“

Sterkt og ungt lið

Þetta er fyrsta tímabil Glódísar Rúnar í liði Hestvits/Árbakka. Í liðinu eru einnig heimsmeistararnir og landsliðsknaparnir Gústaf Ásgeir Hinriksson og Jóhanna Margrét Snorradóttir ásamt afreksknöpunum Fredrica Fagerlund og Pierre Sandsten Hoyos.

„Þetta er fyrsta árið mitt í þessu liði en ég ákvað að skipta þar sem kærastinn minn Pierre hefur verið í liðinu. Ég held að við séum líka yngsta liðið, fyrir utan Fredricu erum við öll hin undir þrítugt.“

Lið Hestvits/Árbakka hefur gengið vel á tímabilinu og eru í öðru sæti, 4,5 stigum á eftir liði Ganghesta/Margrétarhofs sem leiða með 239 stigum.

„Þetta er búið að ganga mjög vel hjá okkur og er mikill kraftur í liðinu. Andrúmsloftið er frábært og það eru allir til í að hjálpast að og vinna saman.“

Nokkurra ára vinna að skila sér

Þjálfun á keppnishestunum byrjaði síðastliðinn október en Glódís Rún segir velgengi vetrarins vera uppsöfnun á nokkurra ára þjálfun. Hún mætir með hestinn Breka frá Austurási í töltið en þau unnu saman slaktaumatöltið og voru í úrslitum í fjórgangi og gæðingalist.

„Þetta er þriðja tímabilið mitt með Breka frá Austurási og er hann að verða níu vetra í ár. Það tekur tíma að vinna upp svona keppnishest og er vinnan að skila sér. Þetta er ekki bara þessi vetur heldur allur tíminn sem ég hef verið með hann.“

Hún segir mikilvægt að jafnvægi sé í þjálfuninni á keppnishestum og þeir fái pásu til að safna orku inn á milli til að þeir endist hraustir út árið.

„Tímabilið er langt og þeir fá pásu á milli. Eftir slaktaumatöltið fékk Breki tvær vikur í fríi þar sem hann fór bara inn og út svona til að halda honum ferskum.“

Glódís Rún og gæðingurinn Breki frá Austurási í vetur.
Glódís Rún og gæðingurinn Breki frá Austurási í vetur. Ljósmynd/Aðsend

Tekur einnig flugið í gegnum höllina

Glódís Rún mætir með hryssuna Vináttu frá Árgerði í flugskeiðið í gengum höllina. Vináttu fékk hún lánaða frá vini sínum Guðmari Frey og keppti hún á henni í 150 metra skeiðinu.

„Það gekk ekki alveg nógu vel þann dag en hafði gengið vel á æfingum. Það getur gerst í básaskeiðinu, það er svolítið allt eða ekkert. En þetta er mjög fljót meri og hefur gert vel. Vonandi sleppur það þann daginn.“

Mikilvægt að hafa trú á verkefninu

Lokamótið leggst vel í Glódísi Rúnu og stefnir hún á að vinna bæði einstaklings- og liðakeppnina. Hún segir það vera mikilvægt að hafa trú á sjálfri sér og verkefninu ef maður á að fara alla leið, en að hún hafi nægan tíma í framtíðinni til að vinna þetta.

„Það er bara bónus þegar maður getur haldið sig svona ofarlega fyrir seinasta kvöldið. Ég er bara að gera mitt besta og sjá hvað það skilar mér. Ég hef alveg nógan tíma til að vinna þetta ef það tekst ekki núna,“ segir Glódís Rún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka