Hundruð milljóna króna tekjutap vegna skerðinga

Blöndulón hefur aldrei staðið eins lágt á þessum tíma árs.
Blöndulón hefur aldrei staðið eins lágt á þessum tíma árs. Ljósmynd/Landsvirkjun

Tekjutap Landsvirkjunar vegna skerðinga á afhendingu raforku til viðskiptavina sinna frá því í lok síðasta árs nemur hundruðum milljónum króna. Blöndulón hefur sögulega aldrei staðið jafn lágt á þessum tíma og staðan á öðrum lónum er svipað slæm.

Nú hefur Landsvirkjun neyðst til að skerða afhendingu raforku lengur en vonast hafði verið til og er ástæðan fádæma lélegt vatnsár og að gengið hafi hratt á uppistöðulón fyrirtækisins. Ekki er útlit fyrir að staðan batni fyrr en hlýna tekur og vorleysingar hefjast, með vaxandi innrennsli á vatnasviðum Landsvirkjunar.

„Þetta er áframhald á því sem höfum áður tilkynnt. Við höfðum tilkynnt að skerðingarnar á Suðvesturlandi giltu út apríl og út maí á Norðausturlandi. Nú verður þetta framlengt sunnanlands út maí og fram í miðjan júní norðaustanlands,“ segir Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun, við mbl.is.

Valur segir að samningar séu þannig að hægt sé að taka álverin niður um tíu prósent ákveðinn hluta ársins en á ársgrundvelli sé skerðingin mun minni. Hann segir að umfang skerðingarinnar telja tugi gígavatnsstunda á mánuði.

Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun
Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun Mynd/Aðsend

Nauðsynlegt reyndist að skerða afhendingu orku til stórnotenda á suðvesturhluta landsins undir lok síðasta árs. Fyrst var gripið til skerðinga á afhendingu víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, auk gagnavera sem stunda rafmyntagröft.

Því næst var afhending skert til stórnotenda, þ.e. Elkem, Norðuráls og Rio Tinto, sem og fjarvarmaveitna. Í febrúar var svo tilkynnt um skerðingar á norður- og austurhluta landsins en þær náðu til álvers Alcoa Fjarðaráls, kísilvers PCC Bakka, TDK aflþynnuverksmiðjunnar og atNorth gagnaversins.

Vorar mjög seint

„Í fyrra var heildarsala Landsvirkjunar 14.700 gígavatnsstundir en full sala hjá okkur er um 15.000.“

Spurður hvort menn hafi áhyggjur af því að þetta ástand geti varið lengur fram á sumarið segir Valur:

„Nei en það sem er að gerast að það er að vora mjög seint og veðurspár eru óhagstæðar fyrir næstu tvær vikurnar. Við erum því ekki að fara að sjá þessar vorleysingar á næstu tveimur vikum.“

Snjóstaðan á hálendinu yfir meðallagi

Valur segir að snjóstaðan á hálendingu sé yfir meðallagi en staðan á miðlunarlónunum sé frekar slæm. Hann segir til að mynda að Blöndulón hafi sögulega aldrei staðið eins lágt á þessum tíma árs og að önnur lón séu að skrapa botninn. Þá er miðlunarstaða í upphafi vors með því lægsta sem sést hefur frá gangsetningu Fljótsdalsstöðvar.

„Það sem er óvanalegt er að lónin eru öll á sama tíma í lágmarki,“ segir Valur.

Hann segir tekjutapið hjá Landsvirkjun í þeim skerðingum sem hafa verið í gangi nemi hundruðum milljónum króna. 

Aðspurður hvort menn hafi áhyggjur af stöðunni fyrir næsta ár segir Valur:

„Ekki endilega. Það fer eftir því hvernig sumarið þróast. Ef maður horfir til sögunnar þá hefur Hálslónið fyrir austan alltaf fyllst og það eru ágætar líkur á að það gerist. Eins og staðan er í Þórisvatni þá er mjög ólíklegt að það fyllist og það yrði þá fimmta árið í röð sem það gerist,“ segir Valur, sem vonast eftir því að vorið fari að láta sjá með hlýrra veðri, rigningu og snjóbráð á hálendinu. 

„Þegar það gerist geta hlutirnir snúist hratt við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert