Austurland þarf að vera sjálfbjarga

Kristján Ólafur Guðnason og Agnar Benediktsson tóku á móti blaðamönnum …
Kristján Ólafur Guðnason og Agnar Benediktsson tóku á móti blaðamönnum í nýrri stjórnstöð. mbl.is/Brynjólfur Löve

Mikið óveður gekk yfir landið yfir páskahátíðina en það var varla að sjá á hringveginum þegar blaðamenn Morgunblaðsins lögðu leið sína austur á land þriðjudaginn eftir páska.

Sól skein í heiði í Reykjavík þótt ekki hefði verið opnað fyrir umferð yfir Öxnadalsheiði. Græna ljósið kom þó þegar leið á morguninn og því var leiðin greið um heiðina.

Agnar Benediktsson, björgunarsveitarmaður í Jökli og sauðfjárbóndi á Jökuldal, tók á móti okkur í brakandi blíðu fyrir utan sveitarhús björgunarsveitarinnar Héraðs sem hýsir nýja aðgerðastjórn almannavarna.

Ekki hefur enn reynt á aðgerðastjórnina, sem opnuð var í janúar, jafnvel þrátt fyrir páskahretið sem áður er getið.

Bros færðist yfir varir blaðamanna við fyrsta skref inn í húsið því þar í forstofunni mátti finna tæplega tíu ára gamla baksíðu Morgunblaðsins, frá 23. september 2014, þar sem fjallað var um nýja björgunarkerru sveitarinnar.

Á efri hæðinni er rýmið sem hýsir aðgerðastjórnina og þegar blaðamenn voru rétt byrjaðir að dást að búnaðinum bættist Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, við hópinn.

Fimm risavaxnir skjáir blasa við þegar gengið er inn, borðtölvur hvíla á skrifborðum sem snúa hvert gegnt öðru, og skipulagðar tússtöflur og plastaðar aðgerðaáætlanir prýða veggina.

Ný aðgerðastjórnstöð er sérlega vel útbúin til að takast á …
Ný aðgerðastjórnstöð er sérlega vel útbúin til að takast á við flóknar aðstæður. mbl.is/Brynjólfur Löve

Brýn þörf fyrir nýja stjórnstöð

Verkefnin hafa ekki látið á sér standa frá því að Kristján Ólafur tók við starfi yfirlögregluþjóns í umdæminu árið 2019: Heimsfaraldur, aurskriður, snjóflóð, skotárás, landamæraeftirlit og svo mætti lengi telja.

„18. desember fellur þessi stóra skriða á Seyðisfirði, nokkrum dögum fyrir jól og enn þá á covid-tímum. Bærinn var allur rýmdur og á sama tíma og sama dag er hluti af Eskifirði rýmdur líka vegna hættu á skriðuföllum. Eskifjörður hafði aldrei verið rýmdur áður, svo ég viti til. Það var mikið sem gekk á þennan dag, 18. desember,“ rifjar Kristján Ólafur upp.

Þörfin á að bæta aðstöðu almannavarna og viðbragðsteyma á Austurlandi varð ljós í kjölfar snjóflóðanna sem féllu í Neskaupstað í mars á síðasta ári þegar reyndi á fjölmörg viðbragðsteymi sem mörg voru veðurteppt. Hálftíma eftir að fyrsta snjóflóðið féll var því rafræn aðgerðastjórn virkjuð.

„Síðasta stóra verkefnið sem við tókumst á við var snjóflóðin í Neskaupstað og rýmingar á fimm stöðum, fimm bæjarfélögum eða þéttbýliskjörnum, sem allir voru lokaðir af. Það tók á líka. Það var enga hjálp að fá fyrsta sólarhringinn. Þetta voru bara heimamenn sem þurftu að sinna þessu og gerðu það frábærlega,“ segir Kristján Ólafur.

Hann bætir við að síðan þá hafi hlutirnir gengið ótrúlega vel fyrir sig. „Af því að við erum að tala um aðgerðastjórn og aðgerðastjórnarrými, þá höfum við nýtt líka rafræna möguleika, verið á Teams og svo framvegis. Fyrsta sólarhringinn í því ástandi, í snjóflóðunum í Neskaupstað, rýmingunum og lokunum, þá nýttum við okkur það kerfi. Þannig að aðgerðastjórn var virkjuð í raun á netinu,“ segir Kristján Ólafur.

„Aðstæður eru þannig á Austurlandi að það er langt á milli svæða og langt á milli manna, þannig að þetta er lausn sem við höfum notað.“

Austurland þarf að vera sjálfbjarga á margan hátt að vissu leyti þegar kemur að því að bregðast við náttúruvá því aðstoðin kemur langt að, auk þess sem veður hefur áhrif.

Rætt er nán­ar við Kristján og Agnar í Hring­ferðar­hlaðvarpi Morg­un­blaðsins. Hægt er að hlusta á þátt­inn á hlaðvarps­veit­um og í spil­ar­an­um hér fyr­ir neðan.

 

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka