Augljósar og sjálfsagðar afleiðingar

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forseti Íslands, segist í Dagmálum mbl.is, hlakka til að nýta kosningarétt sinn 1. júní þegar Íslendingar ganga að kjörborðinu til þess að kjósa eftirmann hans í embætti. Segir hann að mörg verði í framboði og að Íslendingar skuli fagna því að búa í landi þar sem íbúar geti gengið til lýðræðislegra og frjálsra kosninga.

Forsetinn fráfarandi segir það ekki koma sér á óvart hversu margir hafa tilkynnt framboð til embættisins. „Þegar ég var fyrst í framboði 2016 var svipað uppi á teningnum. Þegar við gengum til kosninga þá vorum við níu í framboði og auðvitað mun fleiri sem höfðu mátað sig við en ekki ákveðið að láta slag standa.“ Guðni segir embættið hafa þróast í þessa átt í og með vegna þess að það sé tiltölulega auðvelt hér á landi að lýsa yfir áhuga og vinna að framboði til forseta en þá verði þetta augljósar og sjálfsagðar afleiðingar.

Guðni Th. Jóhannesson segir í samtali við Andrés Magnússon í …
Guðni Th. Jóhannesson segir í samtali við Andrés Magnússon í Dagmálum á mbl.is að tiltölulega auðvelt sé hér á landi að lýsa yfir áhuga og vinna að framboði til forseta Íslands. mbl.is/Hallur Már

Eining um nýjan forseta þrátt fyrir átök

Í samtali við Andrés Magnússon rifjar Guðni upp að harkalega hafi verið tekist á í forsetakjöri og fyrsta dæmið um slíkt hafi verið 1952 þegar margir gengu ansi sárir frá þeim bardaga. Segir hann að fljótlega hafi fólk þó sameinast um forseta og það sama hafi verið uppi á teningnum 1968 þegar Kristján Eldjárn var kjörinn, Vigdís árið 1980, Ólafur Ragnar 1996 og hann sjálfur árið 2016.

„Tilfinningin hefur verið sú meira og minna á Íslandi að eftir forsetakjör hefur fólk sagt: „Ég kaus hann nú ekki eða ég kaus hana nú ekki en nú er þetta forsetinn“ og ég vona að sú verði nú líka raunin áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert