Ætla að svara Bankasýslunni innan gefins frests

Varaformaður bankaráðs Landsbankans vildi ekki tjá sig um málið að …
Varaformaður bankaráðs Landsbankans vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu, en segir að vænta megi svars frá bankanum. mbl.is/sisi

Bankaráð Landsbankans mun svara beiðni Bankasýslunnar um skýringar varðandi fyrirhuguð kaup bankans á TM. 

Þetta staðfestir Berglind Svavarsdóttir, varaformaður bankaráðs Landsbankans í samtali við mbl. Hún vísar í frest sem bankaráðið hafi til að svara beiðninni, en vildi annars ekki tjá sig um málið.

Vildi ekki tjá sig frekar um málið

Bankasýsla ríkisins sendi frá sér opið bréf á mánudaginn síðastliðinn þar sem Bankasýslan lýsti vonbrigðum með ákvarðanatöku og upplýsingagjöf bankaráðs Landsbankans. 

Þá fór Bankasýslan fram á að bankaráð skili frá sér greinagerð um viðskiptinn, aðdraganda tilboðsins, framvindu þess og ákvarðanatöku, forsendum og rökum viðskiptanna. 

Sérstaklega óskaði Bankasýslan eftir áhættumati í kjölfar kaupanna og getu bankans til þess að greiða arð til hluthafa eða annars konar ráðstöfunar á umframeiginfé. 

Bankasýslan bað um að fá greinagerðina afhenta innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins, eða fram að næsta mánudag. 

„Okkur var gefinn sjö daga frestur til að svara bréfinu og við munum svara því,“ sagði Berglind. 

Berglind vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu. 

Bankasýsla ríkisins hefur áður greint frá því að hún hafi hvorki fengið upplýsingar um fyriráætlanir Landsbankans að leggja fram skuldbindandi tilboð, né um að tilboð hafi verið lagt fram. 

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, efnahags- og fjármálaráðherra, sagði á fundi Alþingis í gær að hún hefði heyrt fyrst af áformunum í tilkynningu sem birtist í fjölmiðlum. 

Kristrún ýjaði að því að Þórdís hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni á sama fundi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert