Myndskeið frá rýmingu Bláa lónsins

„Fyrst var þetta bara svona „Guð minn góður er ég í alvöru að lenda í þessu“,“ segir Sigríður Rut Ragnarsdóttir Ísfeld spurð um hennar fyrstu viðbrögð þegar viðvörunarlúðrarnir fóru af stað í Bláa lóninu í gærkvöldi.

Sigríður var í Bláa lóninu ásamt kærasta sínum Andra Sævari Arnarsyni, sem er starfsmaður Bláa lónsins, að njóta dagsins þegar lúðrarnir fóru af stað og ljóst var að eldgos væri hafið.

„Ég var nýbúin að segja „ahh þetta er svo góður dagur“ og þá allt í einu fara lúðrarnir í gang,“ segir Sigríður.

Konurnar hjálpuðust að

Andri fór strax í þann gír að hjálpa gestum og sagði Sigríði að fara í kvennaklefann til að gera sig klára. Fljótt fylltist klefinn en gestir fengu ekki að fara í sturtu, þó fengu þeir að halda handklæðunum til að þurrka hárið. Sigríður segir að mikil samkennd hafi ríkt meðal kvenna í klefanum.

„Mér fannst svolítið krúttlegt að sjá hvað við stelpurnar í kvennaklefanum tókum vel utan um hvor aðra,“ segir hún og útskýrir að þær hafi gengið í skugga um að engin kona yrði eftir og þegar eitthvað kom upp á þá hjálpuðu þær hver annarri.

„Ef einhver gleymdi einhverju þá var önnur að minna á. Þetta gekk rosalega hratt fyrir sig.“

Sigríður Rut.
Sigríður Rut. Ljósmynd/Aðsend

Sumir ferðamenn í uppnámi

Hún segir að einhverjir ferðamenn hafi bersýnilega verið í uppnámi og verið hræddir. Starfsmenn héldu þó vel utan um fólk og hvöttu gesti til að halda ró sinni og fylgja fyrirmælum.

„Mér fannst þetta spennandi því miðað við það hvernig gosin hafa verið þá var ég ekkert það smeyk. En jú lúðrarnir kveiktu smá hræðslu hjá mér,“ segir Sigríður og útskýrir að þetta hafi verið eins og í bíómynd.

Ógleymanleg upplifun

Af myndbandinu að dæma virðist mikil örvænting hafa gripið um sig. Sigríður segir að fólk hafi byrjað að hlaupa þegar það var komið út og sá eldgosið, en starfsmenn hvöttu gesti einnig til að flýta sér og koma í veg fyrir það að útgönguleiðir myndu stíflast.

Sigríður segir að lokum að þetta hafi verið upplifun sem seint gleymist.

Sigríður tók þessa mynd þegar hún var komin út á …
Sigríður tók þessa mynd þegar hún var komin út á bílastæði fyrir utan Bláa lónið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert