Gobert varnarmaður ársins

Nikola Jokic í strangri gæslu Rudy Gobert
Nikola Jokic í strangri gæslu Rudy Gobert AFP/MATTHEW STOCKMAN

Frakkinn Rudy Gobert var valinn varnarmaður ársins í NBA deildinni í körfubolta í fjórða sinn á dögunum. Gobert er einungis þriðji leikmaðurinn í sögunni sem hampar bikarnum sem kenndur er við Hakeem Olajuwon.

Gobert er helsta ástæða þess að Minnesota Timberwolves var með bestu vörn NBA deildarinnar í vetur. Franski miðherjinn tók 12.9 fráköst að meðaltali í leik og varði 2.13 skot en að auki skoraði hann 14 stig að meðaltali og var með næst hæstu skotnýtingu deildarinnar, 66% skota hans fóru rétta leið.

Gobert blandar sér í félagskap Dikembe Mutombo og Ben Wallace en þeir hafa oftast unnið til verðlaunanna um varnarmann ársins. 

Nýliði ársins og samlandi Gobert, Victor Wembanyama, var annar í kjörinu og Bam Adebayo hjá Miami Heat var þriðji. Mikil eftirvænting ríkir í Frakklandi fyrir Ólympíuleikunum í sumar þar sem turnarnir tveir, Gobert og Wembanyama, keppa saman á heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert