„Þetta eru tímamótasamningar“

Sigríður Margrét Oddsdóttir (til vinstri) við samningaborðið í dag ásamt …
Sigríður Margrét Oddsdóttir (til vinstri) við samningaborðið í dag ásamt Ástráði Haraldssyni, Vilhjálmi Birgissyni, Sólveigu Önnu Jónsdóttur og fleirum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segist finna fyrir bjartsýni nú þegar langtimasamningar eru í höfn hjá SA við fjölmenn stéttarfélög eins og Starfsgreinasambandið og Eflingu. 

„Ég er ofboðslega þakklát og stolt en er einnig bjartsýn vegna þess að þetta eru mikilvægir samningar sem við vorum að ganga frá. Þetta eru tímamótasamningar sem er ætlað að byggja undir efnahagslegan stöðugleika. Ég held að það sé nokkuð sem bæði fólk og fyrirtæki þrá að sjá.“

Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Sigríður Margrét Oddsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð um mikilvægi þess að gera langtíma samning segir Sigríður Margrét það vera ótvírætt en samningurinn gildir til fjögurra ára. Hann ætti að draga úr verðbólguvæntingum. 

„Það skiptir öllu máli að vera með langtíma samning. Þannig geta bæði fyrirtæki og fólk gert langtíma áætlanir. Þegar við erum með skynsamlegan langtímasamning þá dregur það úr verðbólguvæntingum og því skiptir þetta miklu máli í því tilliti. Með þessu stuðlum við að því að markmiðin náist fyrr. Að verðbólga minnnki og vextir geti farið að lækka.“

Lágmarks hækkun 23.750 krónur

Fyrsta árið mun laun hækka um 3,25%.

„Heildar kostnaðarmat við samningana, fyrir atvinnulífið í heild sinni, er um það bil 4% á ári. Almennar launahækkanir eru 3,25% fyrsta árið og 3,5% næstu þrjú ár á etir. Auk þess erum við með lágmarks hækkun sem er 23.750 krónur,“ segir Sigríður Margrét og kýs að tjá sig ekki sérstaklega um aðkomu yfirvalda þar sem SA hafi ekki verið í samningaviðræðum við ríki eða sveitarfélög í ferlinu. 

„Við höfum ekki verið í neinum samningaviðræðum við ríki eða sveitarfélög. Það hafa okkar viðsemjendur verið og því rétt að þau tjái sig frekar um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert