Dómsins að meta lengd fangelsisvistar

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá hérðassaksóknara.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá hérðassaksóknara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, leggur það í mat dómara að ákveða refsingu sakborninganna tveggja í hryðjuverkamálinu. Hann sagði viðurlögin við vopnalagabroti sakborninganna vera að lágmarki 15 til 18 mánaða fangelsi. Viðurlög við undirbúningi hryðjuverka lagði saksóknari í mat dómsins að ákveða refsingu þar sem að ekki hefur áður verið dæmt fyrir slíkt brot.

Sakborningarnir, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson, voru ekki viðstaddir dómþing er saksóknari flutti mál sitt.

Sakborningarnir, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson.
Sakborningarnir, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Umfangsmikið mál og margvísleg gögn sem liggja fyrir,“ sagði Karl Ingi í upphafi máls en málsgögn eru yfir fjögur þúsund blaðsíður.

Hann talaði með yfirvegun og fór yfir hvern lið fyrir sig í báðum ákærum, önnur snýr að vopnalagabrotum og hin að undirbúningi hryðjuverka.

Höfðu aðgang að vopnum

Saksóknari byrjaði að fara yfir vopnalagabrot sakborninganna sem tók um eina klukkustund. Sakborningarnir hafa játað brotið að hluta, meðal annars að hafa þrívídda prenta vopn í óleyfi. 

Karl Ingi vísaði í ýmis samskipti tvímenninganna um vopn, meðal annars um sölu og kaup á þeim og þrívídda prentun vopna, auk mynda af skotvopnum úr símum félaganna til að rökstyðja mál sitt.

Vopnin sem lögregla lagði hald á í tengslum við rannsóknina.
Vopnin sem lögregla lagði hald á í tengslum við rannsóknina. mbl.is/Hallur Már

Hann nefndi meðal annars að Sindri hafði keypt þrjá riffla í nafni föður síns, Birgis, en Sindri sótti tvisvar um að fá skotvopnaleyfi og var hafnað.

Karl Ingi vildi meina að Sindri hafði haft greiðan aðgang að vopnunum og litið svo á að AR-15 rifill væri í sinni eigu. Riffilinn var merktur Sindra en vopnasalinn sagði fyrir dómi að hann hefði ekki vitað hvað faðir Sindra héti og því merkt Sindra.

Feðgarnir sögðu fyrir dómi að Sindri hafði aldrei handleikið vopnin án þess að vera í nærveru einstaklings með byssuleyfi og ekki haft aðgang að þeim þar sem þau væru í læstum byssuskáp.

Karl Ingi sagði mikilvægt að muna að Birgir væri nátengdur Sindra og að ósamræmi hefði verið í framburði hans. Á föstudag gagnrýndi Birgir rannsókn lögreglu.

Karl Ingi sagði mikilvægt að setja vopnalagabrotið í samhengi við brotið er varðar undirbúning að hryðjuverkum.

Ekki reynt á ákvæði laganna áður

Sindri er ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og Ísidór hlutdeild í því broti.

Brotið varðar 100. a. grein hegningarlaga og þá sérstaklega 1.2. og 4. tölulið.

Ekki hefur áður reynt á þetta ákvæði í lögum að sögn saksóknar.

Ákvæðið er að fyrirmynd danskra hryðjuverkalaga og var gert að lögum hér á landi árið 2002 og lítillega breytt árið 2009.

Karl Ingi las upp ákvæðið sem hljóðar svo:

Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar.

Karl Ingi saksóknari.
Karl Ingi saksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirbúningurinn í 64 töluliðum

Þá sagði Karl Ingi að þetta mál væri ekki einu sérstakt fyrir þær sakir að fjalla um hryðjuverkaákvæði hegningarlaga heldur einnig að reynt sé á ákvæði sem fjallar um að undirbúningi brota fylgi refsiábyrgð. Hann vísaði þar til 20. greinar hegningarlaga sem fjallar um undirbúningsathöfnum, þ.e.a.s. skipulagningu brots og undirbúning þeirra.

Undirbúningi Sindra að hryðjuverkum er lýst í 64 töluliðum í ákæru.

Samkvæmt ákæru sýndi Sindri ásetning í verki meðal annars með því að útbúa, framleiða skotvopn, verða sér úti um efni um sprengju- og drónagerð, tileinka sér efni þekktra aðila sem framið hafa hryðjuverk og verða sér úti um lögreglufatnað.

Saksóknari telur að Sindri hafði ætlað að fremja hryðjuverk dulbúinn sem lögreglumaður.

Margra mánaða samskipti

Vísaði Karl Ingi að mestu í samskipti félaganna í máli sínu. Hann sagði ekki sé hægt að telja að einungis hafði verið um „innihaldslaust hjal eða kæruleysislegt tal“  á milli vina að ræða.

Hann nefndi að samskipti félaganna hafði ekki átt sér stað í eina kvöldstund eða yfir eina helgi heldur en margra mánaða tímabil árið 2022.

Þá nefndi hann að mennirnir væru ekki börn heldur fullorðnir menn sem höfðu aðgengi að vopnum. Geðlæknir mat ekki svo að þeir glímdu við greindarskort vegna geðsjúkdóm og því höfðu þeir óskerta dómgreind.

„Sólginn í að komast yfir ofbeldismyndskeið“

Saksóknari nefndi að Ísidór er yfirlýstur rasisti og Sindri sagt að honum væri ekki vel við samkynhneigða.

Karl Ingi sagði augljósa skírskotun vera í samskiptum félaganna við hugmyndafræði norska fjöldamorðingjans Anders Breivik og annarra hryðjuverkamanna.

Oft hefur verið minnst á stefnuyfirlýsingu Breiviks við aðalmeðferðina sem ákærðu vísuðu orðrétt í í nokkur skipti. „Það fer ekkert á milli mála að Sindri er afar hugfanginn af Breivik,“ sagði Karl Ingi en Sindri hefur kallað Breivik „mein fuhrer“, eða foringja sinn.

Þá fundust myndskeið af fjöldamorðum á raftækjum sakborninganna. Eitt slíkt var sýnt í dómssal í gær. „Annað eins myndband hef ég aldrei séð á ævinni,“ sagði Karl Ingi í málflutningi sínum.

Hann sagði Sindra vera: „sólginn í að komast yfir ofbeldismyndskeið“ og sú öflun væri liður í undirbúningi hryðjuverka.

Dulbúast sem lögreglumaður

Karl Ingi sagði það óskiljanlegt að Sindri hefði reynt að verða sér úti um lögreglufatnað og búnað nema í því skyni að dulbúast sem lögreglumaður.

Skothelt vesti fannst á heimili Sindra og þá vísaði saksóknari til innkaupalista sem Sindri hafði gert um ýmis konar aðgerðarbúnað og kostnað þess. Hann fór síðast inn á það skjal daginn áður en hann var handtekinn fyrst.

Hann sagði óumdeilt að Sindri hefði ætlað að leita í smiðju Breivik og dulbúast sem lögreglumaður til þess að fremja voðaverk. Hann sagði sakborninganna hafa virst vera á sömu vegferð og Breivik.

Danskir dómar til hliðsjónar

Karl Ingi sagði að Sindri hefði verið búinn að taka ákvörðun um að ætla að fremja hryðjuverk. Meðal annars hefði hann verið búin að verða sér úti um vopn og tileinka sér hugmyndafræði þekktra hryðjuverkamanna.

Hann sagði að mögulega hefði Sindri ekki verið búinn að ákveða hvar eða hvenær hann ætlaði að framkvæma brotið, en að það væri aukaatriði þar sem að um undirbúningsathöfnin væri refsiverð. 

Saksóknari vísaði til tveggja dóma sem hafa fallið hér á landi um undirbúning að broti. Annar frá miðri 20. öld og síðari frá árinu 2016.

Þá nefndi Karl Ingi einnig nokkra danska dóm sem mætti leggja til hliðsjónar í úrlausn þessa máls og ítrekaði að íslensk hryðjuverkalög byggi á dönsk lögum. Hann sagði að í öllum málunum hefði ekki legið fyrir hvenær eða hvar voðaverðin ættu að fara fram.

Karl Ingi nefndi að eini möguleiki lögreglu til að koma í veg fyrir hryðjuverk væri á undirbúningsstigi og að einungis nokkrar sekúndur hefðu þurft fyrir sakborninganna að fremja voðaverk.

Eftir rúmlega tvo tíma og 45 mínútur lauk málflutningi Karls Inga saksóknara.

Eftir hádegi munu verjendur Sindra og Ísidórs flytja mál sitt fyrir dóminum.

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson eru verjendur í …
Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson eru verjendur í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert