Vandræði við Bláa lónið og bílar enn fastir víða

Björgunarsveit við störf.
Björgunarsveit við störf. Ljósmynd/Landsbjörg

Veðurhvellinum í dag hafa fylgt þó nokkur verkefni og þeim hefur fjölgað eftir því sem liðið hefur á daginn, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að nóg hafi verið að gera í dag en að verkefnin hafi aldrei orðið óviðráðanleg. Ekki er vitað um nein slys á fólki.

Jón Þór segir að líklega sé helstu verkefnum björgunarsveita lokið.
Jón Þór segir að líklega sé helstu verkefnum björgunarsveita lokið. Ljósmynd/Landsbjörg

Ekki gert þann óskunda sem óttast var

„Það virðist vera sem veðrið hafi ekki gert þann óskunda sem óttast var, en það lentu samt þó nokkrir í einhverjum vandræðum,“ segir Jón Þór.

Hann segir líklegt að helstu verkefnum sé lokið en bætir við að einhver verkefni séu þó enn í gangi í uppsveitum. 

Fjöldi verkefna var á Suðurnesjum og á Ásbrú en þó nokkuð var um að fólk festi bíla sína í slæmu skyggni. Leiðin frá Fitjum upp að Flugstöð var mörgum erfið.

Björgunarsveitarmenn að störfum í dag.
Björgunarsveitarmenn að störfum í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Beðnir um að segja gestum að hinkra

Nokkuð var um fólk í vandræðum á leið úr Bláa lóninu. Starfsmenn þar voru beðnir um að segja gestum að hinkra á meðan mestu leiðindin gengu yfir.

Á Suðurlandi var nokkuð um vandræði eftir því sem leið á daginn. Á Þingvallavegi festu sig allmargir ferðalangar, sem og á Uxahryggjum. Einnig á Lyngdalsheiði og eru björgunarsveitir á svæðinu að greiða úr þessu og er snjóbíll kominn í verkefnið.

Í Stykkishólmi hefur verið boðuð út björgunarsveit en þar eru bílar fastir um allan bæ, að því er segir í tilkynningu Landsbjargar.

Frá aðgerðum í dag.
Frá aðgerðum í dag. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert