Útilokar ekki að fleiri verði handteknir

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu. mbl.is/Arnþór

Ekki er útilokað að fleiri verði handteknir í tengslum við skotárásina í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld. Það er hluti af rannsókninni hvort árásin tengist öðrum skotárásum fyrr á árinu.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá í gær hafa tveir verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald vegna árásarinnar.

Spurður hvort mögulegt sé að fleiri verði handteknir vegna málsins segir Grímur:

„Já það er alltaf möguleiki, við erum bara að rannsaka málið og hvort það eru einhverjir aðrir sem tengjast því, en það getur líka vel verið að svo sé ekki.“

Allt efni skoðað

Lögreglan biðlaði í gær til íbúa og forráðamanna fyrirtækja á Hvaleyrarholti að athuga með myndefni í öryggis- og eftirlitsmyndavélum.

Spurður hvort lögreglan hafi getað nýtt sér myndefni kveðst Grímur ekki hafa upplýsingar um það. „En allt efni er skoðað og notað eftir atvikum,“ bætir hann við.

Þá sé það hluti af rannsókninni að skoða hvort árásin tengist öðrum skotárásum sem hafa verið gerðar fyrr á árinu.

„Við svona rannsóknir þá er slíkt til rannsóknar. Það hafa verið erjur á milli fólks í hópum og við skoðum það bara jöfnum höndum hvort það geti verið tengsl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert