Vonbrigði í upphafi skólaárs

Færanlegar kennslustofur, sem átti þegar að vera búið að taka …
Færanlegar kennslustofur, sem átti þegar að vera búið að taka í notkun, eru ekki tilbúnar og því hefur skólasetningu verið frestað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við deilum vonbrigðum með foreldrum, kennurum og starfsfólki yfir því að þetta sé ekki tilbúið. Við erum með færustu sérfræðinga þjóðarinnar í þessu með okkur. Það eru allir að gera allt sem þeir geta. Við hefðum gjarnan viljað vera með þetta tilbúið núna,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is. 

Áætlað var að nemendur við Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ hæfu skólaárið í gámabyggð en framkvæmdum við byggðina hefur seinkað. Skólastarf í Myllubakkaskóla hófst í dag þó þrjár til sex vikur séu þangað til gámabyggðin verður tilbúin fyrir kennslu. 

Ekki stendur til að kennsla fari fram í skólabyggingum Myllubakkaskóla og Holtaskóla næstu árin vegna myglu- og rakaskemmda í þeim. 

Anita Engley Guðbergsdóttir, verkefnastjóri hjá foreldrafélögum grunnskóla í Reykjanesbæ, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að foreldrar væru reiðir út í bæjaryfirvöld vegna ástandsins. 

Nemendur í 8. til 10. bekk Myllubakkaskóla fá aðeins að verja þremur tímum á dag í kennslustofu og fá ekki hádegismat í skólanum fyrr en gámabyggðin verður tilbúin. Sagði Anita að þetta væri brot á lögum því þau gerðu ráð fyrir að nemendur í þessum bekkjum fengju að lágmarki 1.480 mínútur í kennslu á viku. Með þessu fyrirkomulagi fái þau aðeins 900 mínútur. 

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Ljósmynd/Aðsend

Bæta upp kennslustundir

Kjartan Már segir að nemendum verði bætt þetta upp. Lögum samkvæmt beri sveitarfélaginu að gera það. Fræðslustjóri sveitarfélagsins vinni að áætlun hvernig það verði útfært. 

Þá segist hann enn fremur hafa átt góðan fund með foreldrum í Myllubakkaskóla og að þeir foreldrar sem mættu á þann fund séu meðvitaðir um ástandið og hvernig skólinn áætlar að bæta nemendum þetta upp. 

Menntaráð Reykjanesbæjar fundar á föstudaginn. Spurður hvort einhverjar frekari lausnir séu komnar á borðið hjá þeim segist Kjartan ekki vita til þess. 

„Ég hef ekki heyrt af neinum frekari lausnum en að klára þessi mannvirki og koma svo skólunum í lag,“ segir Kjartan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka