Gengið fram hjá þinginu

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta hefur neikvæð áhrif á flugvöllinn og ekkert sem kemur á óvart við það,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður um niðurstöður skýrslu um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði. Starfshópur á vegum innviðaráðherra vann skýrsluna. Tilkynnt var í síðustu viku að innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg hefðu komist að samkomulagi um að hefja jarðvegsframkvæmdir og þar með undirbúning uppbyggingar í Nýja Skerjafirði.

„Það sem mér finnst undarlegast í málinu miðað við fréttatilkynningu innanríkisráðuneytisins er sú mótsögn að það er verið að leggja til mótvægisaðgerðir til að stuðla að frekara flugöryggi en það er ekkert farið nánar í þær. Svo er talað um að hefja framkvæmdir og byggja. Það er mjög sérkennilegt.“

Njáll Trausti á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og hefur kallað eftir umræðu um málið í nefndinni í vikunni. „Skýrslan og innihald hennar hefur aldrei verið til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Að mínu viti sé ég ekki betur en að í svona stóru máli sem varðar svona mikla öryggishagsmuni í landinu sé verið að ganga fram hjá þinginu. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum. Mér finnst freklega gengið fram hjá okkur af hálfu ráðuneytisins í þessari vinnu. Upp í hvaða dans er verið að bjóða?“

Njáll Trausti segir þetta ófagleg vinnubrögð. „Það vantar alveg heildarsýn í þetta mál. Það er stöðugt verið að höggva í flugvöllinn og veikja hann. Þetta er í farvegi sem er algjörlega óviðunandi. Við þurfum að hafa svona stórmál í miklu opnara ferli en við erum að gera í þeirri vinnu sem er núna í gangi.“

Villandi kynning borgarinnar

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að skýrslan hafi verið kynnt í borgarráði án fyrirvara en engin gögn lögð fram.

„Borgarráðsmönnum minnihlutans gafst því enginn tími til þess að kynna sér málið áður og höfðu ekkert ráðrúm til þess að spyrja réttu spurninganna, því það er fjölmargt í þessari skýrslu sem Reykjavíkurborg þarf að taka tillit til en borgarstjóri virðist ekki vilja,“ segir hún. „Það lá greinilega mikið á,“ bætir hún við.

Hún átelur þau vinnubrögð að borgarfulltrúar hafi hvorki fengið tækifæri til þess að kynna sér skýrsluna né gera við hana athugasemdir, en ekki þó síður kynningu hennar í fréttatilkynningu, sem hafi beinlínis verið villandi. „Þar var skautað hjá helstu aðfinnslum skýrslunnar en mikið gert úr bókun fulltrúa borgarinnar við skýrsluna, eins og það hafi verið aðalniðurstaða hennar!“

Marta segir öðrum borgarfulltrúum enn ekki hafa verið kynnt skýrslan. „Ég las bara um hana á mbl.is.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert