Kollhnís og Eldgos tilnefndar

Rán Flygenring
Rán Flygenring mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skáldsagan Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur sem Mál og menning gefur út og myndabókin Eldgos eftir Rán Flygenring sem Angústúra gefur út eru tilefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt núna kl. 10 á vef Norðurlandaráðs, norden.org. Svo skemmtilega vill til að þetta er þriðja árið í röð sem Arndís er tilnefnd og annað árið í röð sem Rán er tilnefnd.

Arndís Þórarinsdóttir
Arndís Þórarinsdóttir

Arndís var tilnefnd 2022 var fyrir Bál tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár og 2021 fyrir Blokkina á heimsenda var sem hún skrifaði í samvinnu við Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Rán myndlýsti bókina Alexander Daníel Hermann Dawidsson – Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason sem tilnefnd var í fyrra. 

Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Osló  31. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur sem samsvarar um 6 milljónum íslenskra króna.

  • Frá Álandseyjum er tilnefnd myndabókin Giraffens hjärta är ovanligt stort eftir Sofiu Chanfreau sem Amanda Chanfreau myndlýsti.
  • Frá Danmörku eru tilnefndar myndabókin Frank mig her eftir Line-Maria Lång og Karen Vad Bruun sem Cato Thau-Jensen myndlýsti og unglingaskáldsaganTænk ikke på mig eftir Vilmu Sandnes Johansson.
  • Frá Finnlandi eru tilnefndar myndabókin Kaikki löytämäni viimeiset eftir Maiju Hurme og unglingaskáldsagan Vi ska ju bara cykla förbi eftir Ellen Strömberg.
  • Frá Færeyjum er tilnefnd myndabókin Strikurnar eftir Dánial Hoydal sem Annika Øyrabø myndlýsti.
  • Frá Grænlandi er tilnefnd myndabókin Pipa Sulullu qaangiipput eftir Naju Rosing-Asvid.
  • Frá Íslandi eru tilnefndar skáldsagan Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur og myndabókin Eldgos eftir Rán Flygenring. 
  • Frá Noregi eru tilnefndar myndabækurnar Ikke! eftir Gro Dahle sem Svein Nyhus myndlýsti og Berre mor og Ellinor eftir Ingrid Z. Aanestad sem Sunniva Sunde Krogseth myndlýsti.
  • Frá samíska málsvæðinu er tilnefnd myndabókin Arvedávgeriikii eftir Mary Ailonieida Sombán Mari sem Sissel Horndal myndlýsti.
  • Frá Svíþjóð eru tilnefndar Farbröder eftir Teresa Glad sem er myndasaga byggð á heimildum og myndabókin Glömdagen eftir Söru Lundberg. 

Frumleg og áhrifarík saga

Íslensku dómnefndina skipa Helga Ferdinandsdóttir, Markús Már Efraím og Halla Þórlaug Óskarsdóttir, sem er varamaður. Í umsögn dómnefndar um bók Arndísar segir: „Fimleikastrákurinn Álfur er ótrúlega góður vinur, frábær sonur og besti stóri bróðir í heimi. Í fyrstu virðist fátt geta dregið Álf niður, ekki einu sinni þyngdaraflið þar sem hann sveiflar sér í fimleikahringjunum. En þegar foreldrar hans byrja að ræða það í tíma og ótíma að Eiki litli bróðir sé einhverfur koma brestir í veröld Álfs og hann tregar það þegar þau voru „bara venjuleg fjölskylda“.

Kollhnís er frumleg og áhrifarík saga um erfið málefni þar sem óáreiðanlegur sögumaður er í forgrunni og þröngt sjónarhorn hans teymir lesandann áfram á hnitmiðaðan og djarfan hátt. Eftir því sem líður á söguna fer lesandann að gruna að upplifun Álfs sé ekki fullkomlega traustsins verð. Agaður frásagnarmáti Arndísar og stíll dregur listilega fram, með kímni og kærleik, hvernig sterkar tilfinningar bjaga hrekklausa sýn sögumannsins á fólkið sem hann dáir.

Í huga Álfs er hann sá eini sem er með litla bróður sínum í liði, þar sem hann leggur sig allan fram við að kenna Eika að haga sér eins og venjulegur strákur, en mamma og pabbi hafa bara gefist upp. Hann stráir kökuskrauti yfir mat Eika til að fá hann til að borða, en í raun beitir Álfur sömu aðferð á eigið líf til að dylja óbragðið af því sem hann skilur ekki. „Ég hugsa um hvernig það hefði verið ef allir þar hefðu haldið að Eiki væri einhverfur. Þá hefði fólk horft á litla bróður minn og séð eitthvað allt annað en hann. Fólkið hefði séð fötlun. … Það hefði ekki séð Eika.“  Þótt Álfur sé aðeins barn sjálfur hefur hann tilhneigingu til að taka ábyrgð á þeim sem honum þykir vænt um. Sérstaklega litla bróður.

Frásögnin er manneskjuleg og skrifuð af dýpt og umhyggju fyrir meginumfjöllunarefninu: einhverfu og þeim flóknu áskorunum sem fylgja henni, bæði fyrir aðstandendur og einstaklinginn sjálfan. Kollhnís fjallar um marglaga og flókna fjölskyldudýnamík og tekur á sárum tilfinningum og meinsemdum sem þrífast í nándinni en ná sjaldan inn í íslenskar barnabókmenntir.

Afneitun Álfs á greiningu Eika myndar fjarlægð milli Álfs og foreldra hans sem eykst þegar hann tekur upp á því að heimsækja Hörpu, móðursystur sína og átrúnaðargoð í fimleikunum. Hún býr í næstu götu en foreldrarnir láta eins og hún sé ekki til. Álfur fer því leynt með samskiptin við Hörpu sem reynist eiga í fíknivanda og hann dregst inn í atburðarás sem er trúverðug en um leið ógnvekjandi.

Arndís fjallar af virðingu um áfallið sem einstaklingur upplifir þegar heimsmynd hans kollvarpast og hugmyndir hans um framtíðina þurfa að laga sig að því. Ljótum orðum og fordómafullum yfirlýsingum er gefið rými, sem vekur sannarlega upp tilfinningar hjá lesandanum, en gerir leiðina að sáttinni meira sannfærandi. Dregin er upp áhrifarík mynd af Álfi þar sem hann „gefst upp“  fyrir greiningunni rétt eins og foreldrarnir höfðu gert. Við fylgjumst með honum finna æðruleysi, í sínum eigin takti, til að horfast í augu við raunveruleikann og læra að meta sína venjulega óvenjulegu fjölskyldu.“ 

Bók sem ristir dýpra

Í umsögn dómnefndar um bók  Ránar segir: „Þótt Íslendingar búi á eldfjallaeyju eru eldgos ekki daglegt brauð og sjaldgæft að þau séu sjáanleg frá mannabyggð eða í göngufæri. Snemma árið 2021 hófst samt gos nærri helsta þéttbýlissvæði landsins og vakti óttablandna hrifningu hjá bæði börnum og fullorðnum. Fólk flykktist að gosstöðvunum og svæðið varð fljótt svo þétt setið að í fjarlægð gæti það hafa minnt á lúsugan koll. 

Í bókinni Eldgos er uggurinn sem þessi atburður vakti afbyggður með hjálp hversdagsógna sem okkur klæjar undan. Við fylgjumst með degi í lífi Kaktusar. Þennan dag tekur mamma hans, Brá, Kaktus með sér í vinnuna til að halda honum frá lúsafaraldri í skólanum. Brá starfar sem leiðsögumaður og þau leggja af stað með fulla rútu af ferðamönnum og skoða fjöll og náttúrufyrirbrigði. Kaktus kemur skyndilega auga á nokkuð óvenjulegt út um gluggann: eldgos! Brá tekur skyndiákvörðun og hleypir ferðalöngunum úr rútunni og saman ganga þau í átt að gosstöðvunum með eld í augunum.

Myndirnar sem prýða bókina eru fullar af húmor og forvitnilegum smáatriðum. Þær flæða eins og biksvart gjall í japönsku bleki eða sem glóandi hraunfljót í litríkum forstofudreglum og sýna náttúruna á bæði raunsæjan og ævintýralegan hátt. Persónur bókarinnar eru teiknaðar svarthvítar, en náttúran í lit. Rauðglóandi hraunið stígur þannig fram sem sjálfstæð persóna og andstæðan milli svarthvítra sögupersóna og litaðrar náttúru minnir okkur um leið á að við erum gestir hér á jörðu. Alveg eins og ferðamennirnir í bókinni. 

Eldgos kann í fyrstu að virðast hress og einföld saga um mæðgin og óblíða náttúru, en hún ristir mun dýpra. Frásögnin vekur með okkur margslungnar hugleiðingar um fordóma og fífldirfsku, ógn og ótta og mikilvægi þess að bera ábyrgð á sjálfum sér gagnvart náttúrunni. Brá og Kaktus reyna árangurslaust að bjarga tófu sem hefur orðið innlyksa á hól sem stendur úti í glóandi hrauni. Þá berast bjargvættir úr óvæntri átt. Kaktus reynist vera grálúsugur og lýsnar koma stökkvandi úr hári hans, flykkjast yfir á hólinn „eins og þaulæfð, pínulítil björgunarsveit“ og bjarga tófunni. Rán teflir saman öfgum tilfinninga sem vakna við að horfa inn í jörðina og sjá fjöllin verða til annars vegar og svo hins vegar þeim sem hversdagsógn lúsafaraldursins vekur. Er tilfinningin um berskjöldun og valdaleysi kannski svipuð, þótt ógnin sé af ólíkum meiði?

Í Eldgosi færist sjónarhornið sífellt milli hins ægistóra og hins agnarsmáa og gæðir þannig einfaldan söguþráðinn spennu og lífi. Í lok bókarinnar hafa lýsnar tekið sér bólfestu í feldi tófunnar þar sem þær búa í sátt og samlyndi við hýsil sinn. Kannski má lesa út úr því von um að mannfólk finni leið til að búa hér á jörð – ekki eins og faraldur, heldur í sátt við náttúruna.“ 

Bækurnar til láns í Norræna húsinu

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru yngstu verðlaun ráðsins, en þau voru fyrst veitt árið 2013. Norðurlandaráð veitir á hverju ári fimm verðlaun og eru þau auk barna- og unglingabókmennta á sviði bókmennta, kvikmynda, tónlistar og umhverfismála. Allar nánari upplýsingar um verðlaunin má nálgast á vefnum: www.norden.org en þar má meðal annars lesa umsagnir dómnefnda um allar tilnefndu bækur ársins. Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi. Skrifstofa hvorra tveggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert