Ekkert sem komi á óvart

Ingólfur Þórarinsson.
Ingólfur Þórarinsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Dr. Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, segir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Ingólfs Þórarinssonar gegn Sindra Þór Sigríðarsyni Hilmarssyni ekki koma á óvart. 

Héraðsdómur féllst ekki á kröfur Ingólfs í málinu sem krafðist hvoru tveggja bóta og að ummæli sem Sindri hafði uppi bæði á samfélagsmiðlinum Twitter og í ummælakerfi Vísis yrðu dæmd dauð og ómerk. 

Dómurinn hefur vakið töluverða athygli og verið umdeildur meðal lögfræðinga. 

Dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, telur t.a.m. meiri líkur en minni á að Landsréttur komi til með að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms verði málinu áfrýjað. Sigurður Guðni Guðjónsson hæstaréttarlögmaður er aftur á móti sannfærður um að niðurstöðunni verði snúið við á æðra dómsstigi. 

Kári Hólmar Ragnarsson lektor við lagadeild Háskóla Íslands.
Kári Hólmar Ragnarsson lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Kári segir í samtali við mbl.is að sama hver niðurstaðan kynni að vera á æðri dómstigum verði aðferðarfræðin að öllum líkindum sú sama og héraðsdómur beitti.

„Það sem dómstólar eru að gera hérna og hafa verið að gera undanfarin ár, er að leggja mat á nokkuð mörg sjónarmið sem hafa mótast fyrst og fremst hjá Mannréttindadómstóli Evrópu og er beitt í öllum ærumeiðingarmálum sem eru skoðuð hjá Mannréttindadómstólnum,“ segir hann.

„Íslenskir dómstólar hafa tekið upp þessa aðferðarfræði til þess að leysa úr málum, sem er mjög jákvæð breyting frá sirka 2010 til 2015. En það þýðir að hluti þessara sjónarmiða eru matskennd og þessi vegna ætti ekki að koma neinum á óvart að þessi mál eru umdeild. Þó að allir séu í raun að leggja til grundvallar sömu reglustikuna, þá kemur í ljós að reglustikan er svolítið matskennd og þess vegna er í mörgum þessara mála erfitt að segja hver niðurstaðan verður og hvort henni verði breytt á æðri dómstólum. Fólk hefur mismunandi sýn á þessi sjónarmið,“ segir Kári og bætir við:

„Í dómnum sjálfum er meira að segja bent á ýmis atriði báðum megin, sem gætu stutt hvorn málstaðinn um sig, en þessi dómur endar svo á tiltölulega afdráttarlausum dómi í aðra áttina. Í stóru myndinni er ekkert óeðlilegt við neitt af þessu. Þetta er matskennt og í þessum dómi er verið að beita fullkomlega venjulegri og viðtekinni aðferðarfræði og leggja til grundvallar þessi sjónarmið. Það er þá bara hvernig það horfir á nákvæmlega þetta mál hvernig ágreiningurinn geti legið.“

Hvert mál sé einstakt 

Kári segir ekki hægt að alhæfa í málum sé þessum né heldur sé hægt að heimfæra niðurstöðu héraðsdóms yfir á önnur sambærileg mál. 

„Þessi aðferðarfræði leiðir til þess að hvert mál er mjög einstakt. Það er alltaf leyst úr þeim á grundvelli sömu sjónarmiða, en hvert og eitt mál þarf að fara í gegnum þá greiningu. Dómarinn í þessu máli er mjög afdráttarlaus um að þessi MeToo-mál séu eitthvað sem á erindi við almenning og að hann (Sindri Þór) hafi verið að taka þátt í þeirri umræðu, og að opinberar persónur þurfi að þola meiri umræðu um sig en aðrir. Það er eitthvað sem við þekkjum vel úr eldri dómum. Ég geri ráð fyrir að það verði áfram mjög atviksbundið hvort að aðili sem hefur uppi ummæli sé t.d. í góðri trú um að þau geti verið sönn. Dómarinn kemst í þessu máli að því að svo hafi verið,“ segir Kári. 

Hann segir athyglisvert við dóm héraðsdóms í málinu að staðhæfing um staðreynd þyki réttlætanleg þó að hún sé byggð á frásögnum á netinu. Viðbúið er að slíkt komi aftur upp, að umræða um tiltekið mál fari af stað í samfélaginu og að fólk dragi síðan sínar ályktanir af því.

Kári segir erfitt að segja til um hvernig dæmt yrði í málinu á æðri dómstigum. „Allir dómstólarnir munu leysa úr málinu með mjög svipuðum hætti. Ef þetta mál fer fyrir Landsrétt mun það líta mjög svipað út og dómurinn verður svipaður, þó að hann geti komist að annarri niðurstöðu á endanum. Það er bara af því að hann metur eitthvað af þessum atriðum öðruvísi,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert