Ótrúlega niðurdrepandi fyrir tónleikahaldara

„Þetta er bara ótrúlega niðurdrepandi fyrir alla í þessum geira …
„Þetta er bara ótrúlega niðurdrepandi fyrir alla í þessum geira að lenda í þessu aftur og aftur.“ Eggert Jóhannesson

„Það er frábært að þeir skyldu fá svona snögg og jákvæð svör við að fá að halda þessa tónleika,“ segir Ísleifur Þórhallsson, formaður Bandalags tónleikahaldara og framkvæmdastjóri viðburða hjá Senu, um það að Bubbi og Emmsjé Gauti fái að halda tónleikana sína annað kvöld þrátt fyrir hertar samkomutakmarkanir. 

Hann segist þó sjá lítil rök fyrir því hvers vegna það væri verið að herða að tónleikahaldi þar sem að hans sögn hefur ekkert smit komið upp á tónleikum svo vitað sé, þrátt fyrir blússandi tónleikahald síðustu mánuði. 

Hvar eru vísindalegu rökin?

„Það er mikið talað um það að fylgja vísindunum; hvar eru þessi vísindalegu rök fyrir því að það skipti öllu máli að fara úr 500 manna hólfum í 200 til að hefta möguleg smit á tónleikum? Maður myndi halda að öll skilyrðin og hin stranga umgjörð sem sett eru tónleikahaldi ættu að duga og skipta höfuðmáli; allir í hraðpróf, grímuskylda, númeruð sæti o.s.frv. Þannig er í raun komið í veg fyrir alla hópamyndun hvort sem er, hvort sem hólfin eru 200 eða 500.

Hvar er hagsmunamatið; hver er ávinningurinn við þetta á móti tjóninu sem skapast. Við erum búin að segja frá upphafi faraldursins að töfratalan fyrir íslenskt tónleikahald er 500. Um leið og þú ferð undir þá er orðið erfitt að láta tónleikahald bera sig og þau vita það vel,“ segir Ísleifur í samtali við mbl.is.

Ísleifur segir að með því að herða og þar með minnka hólfin verði allt tónleikahald svo til órekstrarhæft. 

„Maður myndi halda að ef yfirvöld setja á mann mjög ströng skilyrði, þá hafi þau trú á því að þessi skilyrði dugi, ef farið er eftir þeim. Við höfum verið að fara eftir þeim og það er ekki hægt að benda á okkur, á nein smit frá tónleikum.“

Ísleifur segir þar að auki að tónleikahaldara hafi þurft að …
Ísleifur segir þar að auki að tónleikahaldara hafi þurft að bera þungann á tapaðri sölu vegna sóttvarnaaðgerða. Mbl.is/Ari Páll Karlsson

Lítil sem engin umræða

Ísleifur gagnrýnir stjórnvöld fyrir lélega upplýsingagjöf varðandi uppruna smita og rökin fyrir því að herða að tónleikahaldi. 

„Ástæðurnar eru ekki útskýrðar og það fer engin umræða fram eða færð nein rök fyrir neinu. Smitin upp, aðgerðum skellt á um allt samfélag með engum fyrirvara, engar upplýsingar um hvaðan smitin koma, hvaða staðir breiða helst út smitin, hvaða hegðun og aðstæður það eru helst. Það er ekki reynt að sigta inn að rótinni að vandamálinu, heldur eru endalaus og gríðarlega mikil inngrip um allt. Þetta þýðir að við erum alltaf á byrjunarpunkti, þrátt fyrir að við séum búin að læra helling og höfum fullt af tólum og tækjum til að halda hlutunum gangandi. Við biðjum um opna umræðu og markvissar og hófstilltar aðgerðir sem við getum verið sammála um að virki. En það er alltaf verið bregðast við í panik og engin framtíðarsýn eða langtímaplan.

Enginn stuðningur þrátt fyrir tekjutap

Þetta er bara ótrúlega niðurdrepandi fyrir alla í þessum geira að lenda í þessu aftur og aftur.“ 

Ísleifur segir þar að auki að tónleikahaldarar hafi þurft að bera þungann af tapaðri sölu vegna sóttvarnaaðgerða. 

„Við höfum verið að taka á okkur kostnað undanfarnar vikur og mánuði vegna Covid. Við þurfum að blokkera sæti sem er því ekki hægt að selja. Við þurfum að búa til þessar tvískiptingar, við þurfum að vera með miklu meira af gæslufólki. Við þurfum að vera með aukafólk til þess að skanna inn, það er tvöföld innskönnun, bæði miðinn og vottorðið. Þetta er töpuð sala og fullt af aukakostnaði.

Við þurftum að fresta Bocelli með tveggja vikna fyrirvara og ég veit ekki til þess að mér standi til boða neinar bætur fyrir það. Við vorum búin að skuldbinda okkur í mjög mikinn kostnað og töpuðum fullt af peningum á því að fara svona nálægt tónleikunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka