Ingó sendir sjötta kröfubréfið

Ingólfur Þórarinsson eða Ingó veðurguð eins og hann er kallaður.
Ingólfur Þórarinsson eða Ingó veðurguð eins og hann er kallaður. Ljósmynd/Mummi Lu

Ingólfur Þórarinsson, Ingó veðurguð, hefur sent út sjötta kröfubréfið vegna ummæla sem fallið hafa á samfélagsmiðlum. 

Þetta staðfestir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Ingólfs, en Fréttablaðið greindi frá málinu í gær. 

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var krafan send út til Silju Bjarkar Björnsdóttur, fyrirlesara og rithöfundar, vegna færslu sem Silja setti á Twitter í kjölfar þess að Haraldur Ingi Þorleifsson bauðst til að greiða kostnað þeirra fimm sem höfðu fengið kröfubréf frá söngvaranum, en færslan hljóðaði svona: 

„Ókei mér finnst geggjað að Halli bjóðist til að aðstoða þessa kvenskörunga fjárhagslega en....erum við samt ekki ÖLL sammála því að við erum ekki að fara að moka peningum í barnaníðing og nauðgara??“

Í samtali við Fréttablaðið segist Silja ekki hafa séð bréfið. Hún bendir á að enginn sé nafngreindur í færslunni nema Haraldur og hafi einhver tekið færsluna til sín persónulega þurfi sá sami að eiga það við sjálfan sig. 

Fimm höfðu þegar fengið kröfubréf frá Ingólfi, þau Erla Dóra Magnúsdóttir og Kristlín Dís Ingilínardóttir blaðamenn, Edda Falak íþróttakona og áhrifavaldur, Ólöf Tara Harðardóttir, einkaþjálfari og liðsmaður Öfga og Sindri Þór Hilmars- og Sigríðarson markaðs­stjóri. Kröfurnar nema samtals 14 milljónum króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert