Fólk utan forgangshópa líklega bólusett í júlí

Líklega verða Íslendingar sem falla ekki inn í forgangshópana níu sem hafa verið skilgreindir vegna bólusetningar gegn Covid-19 bólusettir í kringum „þessi mót á öðrum og þriðja ársfjórðungi“, að sögn Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Því má gera ráð fyrir því að Íslendingar utan forgangshópa verði bólusettir í lok júní eða byrjun júlí. 

Bólusetningadagatal að norrænni fyrirmynd verður birt í dag eða á morgun. Með því mun fólk innan sem utan forgangshópa geta séð hvenær áætlað er að bólusetning þess komi fram. 

190.000 „varfærin áætlun“

Eins og fram kom í fjölmiðlum í gær gerir heilbrigðisráðuneytið ráð fyrir því að mögulegt verði að bólusetja 190.000 manns fyrir júnílok miðað við núverandi afhendingaráætlanir. Ráðuneytið gerir ráð fyrir því að hér á landi verði alls 284.500 manns bólusettir gegn Covid-19. Því er ljóst að bólusetningu verður ekki lokið í júnímánuði miðað við núverandi áætlanir. Danir ætla sér að klára bólusetningu allra sinna borgara í júnímánuði en Ísland er í samfloti við Evrópusambandið um bóluefni eins og Danmörk. Spurð hvers vegna Íslendingar sjái ekki fram á að klára bólusetningu á sama tíma og Danir segir Svandís:

„Þær tölur sem við birtum í gær snúast um þessar þrjár tegundir bóluefna sem hafa fengist samþykkt í Evrópu og hér á Íslandi og eru í raun og veru komin í dreifingu hér, þetta eru Pfizer, Moderna og AstraZeneca. Við höfum verið í samskiptum við [bóluefnaframleiðendur] og tryggt okkur kaup á fleiri bóluefnum þannig að það fer eftir því hvað er með inni í dæminu. Við gerum ráð fyrir því að Jansen fái markaðsleyfi hér í fyrstu eða annarri viku marsmánaðar og afhending geti hafist á því efni á öðrum ársfjórðungi. Hið sama gildir um hin efnin. Það má því í raun segja að þegar við segjum 190.000 sé það varfærin áætlun.“

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getur ekki sagt til um tilslakanir á landamærum

Í dag samþykkti Svandís tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um aðgerðir á landamærunum. Þær felast m.a. í því að fólk þarf að framvísa neikvæðu PCR-prófi við komuna til landsins, auk þess að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli. 

Spurð hvort útlit sé fyrir að slakað verði á aðgerðum á landamærum í sumar, þegar stór hluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur segir Svandís:

„Aðgerðir á landamærum ráðast ekki bara af stöðunni hér innanlands heldur ekki síður af stöðunni annars staðar og af stöðunni á veirunni almennt. Við getum ekki sagt neitt til um það á þessum tíma.“

Þannig að það dugir ekki að vera með hjarðónæmi hér innanlands?

„Við þurfum bara að skoða þetta í samhengi og ég held að fæst orð beri minnsta ábyrgð í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka