Innlend netverslun eykst um 120%

Á milli ára hefur sendingum vegna innlendrar netverslunar í nóvember fjölgað um 120% hjá Póstinum þar sem jólaösin hefur aldrei farið jafn kröftuglega af stað. Þó fækkar sendingum vegna netverslunar erlendis lítillega á milli ára. Framundan eru sólarhringsvaktir og hafa þær aldrei hafist fyrr. 

Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins, segir ýmislegt benda til þess að landinn sé að skipuleggja jólainnkaupin fyrr í ár vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru í þjóðfélaginu og tengjast faraldri kórónuveirunnar. 

„Við höfum aldrei séð Single's day vera svona stóran þetta er oft að byrja í kringum Black Friday,“ segir hún í samtali við mbl.is sem kom við í Póstdreifingarmiðstöðinni við Stórhöfða. Þar var mikið um að vera eins og sjá má í myndskeiðinu þar sem starfsfólk hefur afgreitt allt upp í fimmtán þúsund sendingar á dag upp á síðkastið.

Hápunkturinn framundan

Framundan eru stórir netverslunardagar og ljóst er að álagið er ekki að fara að minnka en vinnusvæðinu hefur verið skipt upp í hólf að undanförnu til að mæta kröfum um sóttvarnir. Sesselía segir ýmislegt hafa verið gert til að hámarka afköstin að undanförnu bæði í flokkun og dreifingu. Hægt sé að auka þau að einhverju leyti en til þess þyrftu takmarkanir vegna faraldursins að minnka.

Á föstudag verður síðasti möguleiki fólks til að senda póst sem fer út fyrir Evrópu en síðasti séns til að koma gjöfum eða sendingum til ættingja eða vina innanlands rennur út 18. desember.

Eitt af því sem gert hefur verið til að anna þessu mikla álagi er að koma upp stafrænu miðakerfi fyrir fólk sem ætlar að nálgast sendingar til sín þar sem markmiðið er að minnka biðtíma. Frekari upplýsingar um það er að finna á vef Póstsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert