Aleigan kemst fyrir í íþróttatösku

Stofnaður hefur verið Facebook-hópur fyrir þá sem voru með geymslu …
Stofnaður hefur verið Facebook-hópur fyrir þá sem voru með geymslu á leigu hjá Geymslum í Miðhrauni. mbl.is/Eggert

„Við erum að deila okkar reynslu, miðla ráðum, styðja hvort annað og ræða saman okkar á milli, meðal annars um það hver er ábyrgur, og hver næstu skref verða, segir Árni Ívar Erlingsson, einn þeirra sem missti allt sitt í brunanum í Miðhrauni í Garðabæ þar sem húsnæði Geymslna brann til kaldra kola, en stofnaður hefur verið Facebook-hópur fyrir þá sem voru með geymslu á leigu hjá fyrirtækinu.

„Það er orðið töluvert langt síðan bruninn átti sér stað en samt er ekkert verið að reyna koma þolendum saman,“ segir Árni um hvers vegna hópurinn var stofnaður. Þeir sem þar skiptast á skoðunum telja mikilvægt að einhver axli ábyrgð í málinu.

„Það kviknar í hjá einhverjum og ábyrgð hans virðist ekki vera nein,“ segir Árni og vísar í bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kemur að eldsupptök hafi verið við eldvegg í lagerrými Icewear. „Ábyrgð Icewear hlýtur að vera einhver, sem og ábyrgð húseiganda sem leigir húsnæði út til Icewear án þess að breyta brunavörnum.“

Nokkrir farnir að skoða hópmálsókn

Árni segir að meðlimir hópsins vilji ekki að umræða um málið verði kæfð niður. „Okkur finnst að einhver þurfi að axla ábyrgð. „Það eru nokkrir farnir skoða hópmálsókn í samvinnu við lögfræðinga og þeir miðla upplýsingum til annarra í hópnum.“

Allir þeir sem voru leigutakar hjá Geymslum geta fengið inngöngu í hópinn, en hann heitir Leigutakar hjá Geymslum, Miðhrauni. Hópurinn er lokaður og til að fá inngöngu verður viðkomandi að gefa upp númerið á geymslunni sinni. Þannig er komið í veg fyrir að óviðkomandi komist inn í hópinn.

„Það eru margir sem misstu allt og ég er einn af þeim. Ég missti alla mína búslóð, öll fötin mín, allt sem tengist börnunum mínum og fullt af listaverkum eftir afa minn. Ég datt þarna inn sex vikum áður en bruninn átti sér stað. Það var sagt við mig þegar ég tók geymsluna á leigu að ég væri heppinn því hefði verið að losna geymsla. Sex vikum síðar þá brann allt sem ég átti. Þetta var ólán í láni.“

Árni var á milli íbúða og hafði fengið að búa í herbergi hjá félaga sínum í sex vikur. „Í herberginu var ég með einar gallabuxur og örfá stuttermaboli. Allt annað brann. Ég er að flytja inn í húsnæði í dag og er með eina íþróttatösku. Það er mín aleiga í dag.“

Segir munum hafa verið „skóflað burt og fleygt“

Árni segir fólk líka vera ósátt við það hvernig staðið hefur verið að hreinsun á svæðinu, en hann fullyrðir að munum hafi verið hent áður en búið var að fara í gegnum þá. „Það var fullt af munum sem var skóflað burt og fleygt. Af hverju var þetta ekki sett á eitthvað afmarkað svæði og fólki leyft að fara yfir hlutina undir eftirliti? Ég var til dæmis með listaverk eftir afa minn úr stáli sem hefðu af öllum líkindum lifað eldinn af. Það hefði þurft að taka heillega hluti og leyfa okkur að fara í gegnum þetta í staðinn fyrir að segja að þetta sé altjón og fleygja öllu. Þegar ég var að gramsa þarna í öskunni þá var ég að finna hluti eins og silfurskeiðar og meira að segja geisladiska sem ekki virtust hafa brunnið.“

Árni var með geymslu á annarri hæð, næst upptökum eldsins. Hann gerir sér því grein fyrir því að allt hans brann. „Listaverk afa míns hafa væntanlega skemmst. Verðgildi þeirra sem listaverka er ekkert lengur en tilfinningalegt gildi fyrir mig er enn mikið. Þetta eru hlutir sem ég fékk í fæðingargjöf fyrir 45 árum síðan og hafa fylgt mér alla tíð,“ segir Árni sem er orðinn úrkula vonar um að hann fái listaverkin aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert